Tenglar

1. október 2011 |

Illviðri: Grettir forðaði sér en kvikmyndafólkið kátt

Leiðindaveður gekk yfir Reykhólasveit í nótt og morgun og endaði með því að Grettir, skip Þörungaverksmiðjunnar, varð að forða sér frá bryggju í Reykhólahöfn undir flæði þegar landfestar fóru að slitna og hélt síðan sjó úti á Breiðafirði. Hann liggur nú í vari við Akureyjar í góðu yfirlæti og gerir Örn Snævar Sveinsson skipstjóri ráð fyrir að koma til hafnar með kvöldinu. Grettir varð að liggja utan á vegna plássleysis inni í höfninni og var áhöfnin um borð í nótt, en níu skip og bátar voru í Reykhólahöfn. Vel fór á með þeim sem komust fyrir inni í höfninni, flest heimabátar, en auk þeirra lágu þar tvær stærri fleytur svo að ekki var pláss fyrir Gretti.

 

Skipin tvö inni í höfninni eru gamla góða Karlsey og dráttarskipið Ísafold, sem kom fyrir skömmu dragandi pramma með leikmynd og öðru sem verið er að nota við tökur á frönsku myndinni sem hér var greint frá. Kvikmyndafólkið var hæstánægt með veðrið, brosti út að eyrum og notaði tækifærið og tók upp óveðursatriði við Staðarhöfn.

 

Í suðvestanáttinni fóru vindhviður á sjálfvirku veðurstöðinni á sléttlendinu ekki langt fyrir ofan Reykhólahöfn upp í 27 m/sek snemma í morgun og fór ekki að lægja svo heitið geti fyrr en um hádegi.

 

Myndirnar sem hér fylgja tók Bergsveinn Reynisson. Á fyrstu myndinni er Grettir að leggja frá bryggjunni á Reykhólum og næstu þrjár eru frá höfninni þar. Síðustu tvær eru frá kvikmyndatökum við Staðarhöfn. Núna gilti ekki það bann við ljósmyndatöku sem tilkynnt var á miðvikudaginn. Smellið á myndirnar til að stækka þær.

 

Skrifaðu athugasemd:


Atburðadagatal

« Ma 2022 »
S M Þ M F F L
1 2 3 4 5 6 7
8 9 10 11 12 13 14
15 16 17 18 19 20 21
22 23 24 25 26 27 28
29 30 31