Tenglar

26. mars 2011 |

Herdís Andrjesdóttir

Grein þessi er eftir dr. Sigurð Nordal prófessor og birtist í Morgunblaðinu 3. maí 1939. Stafsetningu höfundar - stafsetningu þess tíma - er haldið. Augljósar prentvillur hafa verið leiðréttar umyrðalaust.

 

Herdís Andrjesdóttir fæddist 13. júní 1858 í Flatey á Breiðafirði. Andrjes faðir hennar var sonur Andrjesar Björnssonar, sem lengi var ráðsmaður fyrir búi Ólafs prófasts Sivertsens, og Guðrúnar Einarsdóttur, Ólafssonar í Skáleyjum.

 

En þau voru systkini Guðrúnar, Þóra, móðir síra Matthíasar Jochumssonar, og síra Guðmundur á Breiðabólstað, faðir frú Theodoru Thoroddsen. Kona Andrjesar Andrjessonar var Sesselja Jónsdóttir, mikil dáðakona. Andrjes var skáldmæltur vel, eins og margt af frændfólki hans, og hinn vaskasti maður. Hann druknaði 11. desember 1861, þegar hákarlaskipið Snarfari fórst fyrir Jökli með 12 manna áhöfn. Var Herdís þá tekin til fósturs af þeim Brynjólfi Bogasyni Benedictsen og Herdísi konu hans, sem hún hjet í höfuðið á. Hjá þeim ólst hún upp til 13 ára aldurs. Var það menningarheimili mikið og ríkmannlegt, en sár harmur var það barninu að skilja við móður sína og fara á mis við ástríki hennar á uppvaxtarárunum. Þegar Herdís var 13 ára, fór hún að Stað á Reykjanesi til síra Ólafs Johnsens og var þar eitt ár. Síra Ólafur fermdi hana og var henni mjög góður. Mintist hún þessarar dvalar á Stað jafnan með þakklátum huga. Eftir það hvarf hún aftur út í Breiðafjarðareyjar og varð þá þegar að byrja að vinna fyrir sjer.

 

Árið 1880 giftist hún Jóni Einari Jónssyni stúdent frá Steinnesi í Húnaþingi. Voru þau fyrst eitt ár í húsmensku að Hrófá í Steingrímsfirði, en síðan voru þau í Reykhólasveit og Geiradal nokkur ár, þangað til maður hennar ljest í árslok 1889. Hafði sambúð þeirra verið hin ástúðlegasta. Þeim varð 7 barna auðið. Fjögur þeirra dóu kornung, en þrjú lifa móður sína, frú Elín Thorarensen, Jón Ólafur málari á Ísafirði og Einar magister. Eftir lát manns síns var Herdís lengstum í Bæ í Króksfirði hjá mágkonu sinni, frú Elísabetu R. Jónsdóttur, þangað til þær fluttu til Reykjavíkur 1902. Eftir lát frú Elísabetar fór Herdís til Elínar dóttur sinnar og dvaldist hjá henni síðustu 10 æfiárin og þar andaðist hún 21. apríl s.l. á 81. aldursári. Æfin var orðin löng og hafði lengstum verið erfið, hvíldarlítil barátta fyrir lífinu og margar þungar sorgir. En ellin var henni mild og heiðrík. Hún var hin ernasta á áttræðisafmæli sínu í fyrra vor, svo að engan gat þá grunað, að hún ætti tæpt ár ólifað.

 

Síðasta áratuginn átti hún nægar tómstundir, sem hún kunni vel að verja sjer og öðrum til gleði og skemtunar. Hún naut frábærrar umönnunar á heimili dóttur sinnar, ástríkis barna sinna og annarra vandamanna, vináttu og virðingar allra, sem kyntust henni. Það fór líka svo, að frú Herdís Andrjesdóttir tók ástfóstri við Reykjavík, þó að það muni hafa tekið hana nokkurn tíma að venjast henni. Í samsæti, sem þeim systrunum var haldið, er þær voru hálfáttræðar, 13. júní 1933, stóð hún upp og mælti fagurlega fyrir minni höfuðborgarinnar og mintist þeirrar alúðar og skilnings, sem hún hafði átt þar að mæta.

 

Í huga þjóðarinnar eru þær skáldkonurnar Herdís og Ólína óaðskiljanlegar, og fyrir gamlan vin, sem þær voru báðar jafnkærar, er ekki unt að minnast annarar án þess að minnast beggja. Þær voru, eins og kunnugt er, tvíburar, mjög líkar í sjón, einkum á yngri árum, líkar að gáfum og mannkostum. Leiðir þeirra skildust að vísu í bernsku, aðalbaráttu lífsins háðu þær hvor út af fyrir sig og hvor með sínum hætti, og samfundir þeirra munu hafa verið strjálir, þangað til vegirnir lágu loks aftur saman hjer í Reykjavík, þegar þær voru um sextugt. En því meiri furða var, hversu svipuðum þroska þær náðu báðar, enda var það jafnan yndi fyrir þær að vera saman, og síðustu árin, sem Ólína lifði, hittust þær að heita mátti daglega. Það sem helst virtist gera mun þeirra systranna, gerði jeg mjer jafnan í hugarlund, að stafaði fremur frá lífskjörum þeirra en upplagi. Herdís átti það til að vera skapharðari og þyngri á bárunni. Ef til vill átti það rætur sínar að rekja til þess, að hún hafði notið enn minni hlýju í uppvextinum en Ólína, sem var meira með móður sinni, og auk þess var sumt í lífsreynslu Ólínu af því tagi, að það þrúgaði hana meira en erfiðleikar þeir, sem Herdís varð að bera. Samt gekk enginn þess dulinn, sem þekti þær báðar, að mildi Ólínu var samantvinnuð við óbifanlegan skapstyrk og í fastlyndi Herdísar var ofið heitum og næmum tilfinningum. Ólína hafði enn fjölbreyttari mentun og ríkara ímyndunarafl, enda mun hún hafa fengið talsvert meira tóm til lestrar. En þekking Herdísar, smekkur og listargáfa var samt alt með afbrigðum, þegar gætt er þeirra lífskjara, sem hún átti við að búa.

 

Þær systurnar urðu á efri árum sínum þjóðkunnar fyrir skáldskap sinn og fróðleik. Þeim hafði ekki verið haldið til bókarinnar um dagana, síður en svo, en þær höfðu drukkið í sig alt, sem þær heyrðu og lásu, af því að þeim var það til yndis og næmi, minni og skilningur hjeldust í hendur. Þær ortu mest af kvæðum sínum og vísum án þess að skrifa það upp, hvað þá að þeim kæmi til hugar að birta það á prenti. Það er erfitt að gera sjer hugmynd um, hvað úr svo stórbrotnum gáfum hefði getað orðið, ef skilyrðin hefðu leyft þeim að ná fullum þroska. Samt er vinum þeirra margt annað í fari þeirra jafnminnisstætt og gáfurnar og fróðleikurinn. Þær voru aðalskonur í allri sinni fátækt, hafnar yfir alt lítilmótlegt og auvirðilegt í hugsun og breytni, vammlausar, drenglyndar, hjartahreinar og hjartagóðar. Líf þeirra var mótað af göfugu eðli og fastri og háleitri lífsskoðun og trúarskoðun. Þetta kunna að þykja stór orð. En jeg hafði of miklar mætur á þeim systrum til þess að bera skrum á þær liðnar, enda þurfa þær þess ekki við. Þeir, sem best þektu þær, munu eiga hægast með að taka undir orð mín.

 

Frá því að jeg kyntist þeim systrunum fyrst hjá frú Theodoru Thoroddsen, var það venja þeirra frændkvennanna þriggja að heimsækja mig á sumardaginn fyrsta. Frú Herdís hafði mætur á þeim degi og sagði oft, að hún hefði það til marks, að sumarið yrði sjer ánægjulegt, ef hún ætti góðu að mæta þennan dag. Fyrir fjórum árum var Ólína orðin of veik til þess að koma, þó að hennar langa stríði væri ekki lokið fyrr en um mitt sumar. Fyrra fimtudag kom frú Theodora ein til okkar hjónanna. Við vissum öll, að Herdís átti helstríðið eitt eftir. Nýtt óbætanlegt skarð var að koma í vinahópinn. Hún dó á föstudagsnóttina, inn í vorið, og mjer kom til hugar við andlátsfregnina seinasta erindið úr kvæði hennar, Á síðasta vetrardag:

 

          Og seinna, þar sem enginn telur ár

          og aldrei falla nokkur harmatár,

          mun herra tímans, hjartans faðir vor,

          úr hausti tímans gera eilíft vor.

Atburðadagatal

« gst 2022 »
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30 31