Tenglar

24. mars 2013 | vefstjori@reykholar.is

Getur farið að taka í nefið

Ærin karar lömbin ...
Ærin karar lömbin ...
1 af 3

Um hálftíuleytið í gærkvöldi bættist í hóp vorboða í Reykhólahreppi þegar tvílembingar sáu dagsins ljós á Gróustöðum, en móðir þeirra er ær nr. 638 hjá Signýju M. Jónsdóttur. Þetta eru hrútur og gimbur sem þegar í stað voru nefnd Heppinn Snær og Lukka Mjöll. Ærin hefur fengið um mánaðamótin október-nóvember (meðganga sauðkindar er áætluð 143 dagar). Þá var ekki búið að taka ær á hús á Gróustöðum.

 

„Föðurinn hefur hún því hitt einhvers staðar á förnum vegi. Ekki er annað um hann vitað en að hann hefur verið hyrndur, því að bæði lömbin eru hyrnd þrátt fyrir að móðirin sé kollótt,“ segir Bergsveinn Reynisson á Gróustöðum.

 

Heppni (lukka) hinna nýbornu lamba felst í því að rúningsmaðurinn Hjalti Arnórsson frá Hofsstöðum í Þorskafirði var í gær að klippa síðustu hundrað kindurnar á Gróustöðum. Þess vegna fóru bændurnir þar ekki í árlega skemmtiferð Sauðfjárræktarfélags Reykhólahrepps sem farin var suður í Borgarfjörð og voru því viðstaddir þegar ærin bar. Lömbin gátu ekki komið sér saman um hvort ætti að koma fyrr í heiminn og þurftu lítils háttar aðstoð við það. Þeim heilsast vel og voru fljót á fætur og á spena.

 

„Þessi óvænti sauðburður hefur þá skemmtilegu afleiðingu fyrir mig að nú get ég farið að taka í nefið“, segir Bergsveinn. „Ég hef það fyrir sið að taka einungis í nefið um sauðburðinn. Núna gæti neftóbakstíminn orðið meira en tveir mánuðir, sem er ekki slæmt.“

 

Ekki eru þetta þó fyrstu lömbin sem koma í heiminn í Reykhólahreppi að þessu sinni. Bergsveinn veit að einhver voru t.d. komin í Garpsdal.

 

Skrifaðu athugasemd:


Atburðadagatal

« Janar 2022 »
S M Þ M F F L
            1
2 3 4 5 6 7 8
9 10 11 12 13 14 15
16 17 18 19 20 21 22
23 24 25 26 27 28 29
30 31