Tenglar

8. desember 2011 |

Gera út á beitukóng frá Reykhólum

Halldór við Blíðu í Reykhólahöfn.
Halldór við Blíðu í Reykhólahöfn.
1 af 2

Blíða SH 277 hefur landað beitukóngi á Reykhólum frá því í október. Halldór Jóhannesson er skipstjóri en Sægarpur í Grundarfirði gerir bátinn út. „Við hugsum okkur að gera út héðan frá Reykhólum út febrúar ef veiðin helst“, segir Halldór. Fimm eru í áhöfninni, þar af einn úr Reykhólahreppi, Jón Ingiberg Bergsveinsson á Gróustöðum. Vigtað er upp úr bátnum í Reykhólahöfn en síðan er aflinn keyrður til vinnslu í Grundarfirði. Halldór segir að hafnarbæturnar á Reykhólum hafi breytt öllu varðandi aðstöðuna.

 

Þessi eini bátur og áhöfn hans skila sínu til sveitarfélagsins og fyrirtækja á Reykhólum. „Við borgum hafnargjöld til hreppsins, kaupum lyftaraþjónustu af Þörungaverksmiðjunni, gistum í Álftalandi og verslum í Hólakaupum“, segir Halldór skipstjóri.

 

Beitukóngurinn er veiddur í gildrur. „Við setjum beitu í gildrurnar og látum þær liggja og vitjum svo um daglega ef gefur. Við erum með mikið af gildrum og reynum að taka upp helst um þúsund gildrur á dag.“

 

Halldór segir að það teljist ágætt að fá tvö-þrjú tonn á dag. „Við höfum verið að landa hérna frá tveimur tonnum og svo allt upp í sjö-átta tonn en það hefur þá verið eftir fleiri daga.“

 

- Er langt á beitukóngsmiðin héðan frá Reykhólum?

 

„Nei. Í sumar vorum við inni á Króksfirði og síðan höfum við verið með fjörunni og hérna kringum eyjar og sker og alveg vestur að Stað og inni í Kollafirði og jafnvel alla leið vestur í Vatnsfjörð. En núna höfum við verið mest hérna inn frá við eyjarnar út af Reykhólum.“

 

- Ástæða þess að þið landið hér á Reykhólum frekar en í Grundarfirði þar sem aflinn er unninn? Eru betri mið hérna?

 

„Já, miðin eru betri og aflinn hérna meiri. Við lönduðum áður mest í Stykkishólmi en það er annar bátur með það svæði og við erum hérna með innra svæðið. Það er hagkvæmara að landa hér og keyra aflann en að sigla á bátnum fram og til baka.“

 

- Skipta hafnarbæturnar sem gerðar voru hér á Reykhólum í fyrra einhverju máli í þessu efni?

 

„Já, það breytir öllu að við getum legið hérna inni í brælum. Í norðanáttinni breytir þetta geysimiklu. Við getum þá legið utan á Gretti ef svo ber undir. Helst þyrfti að losna við gömlu Karlseyna úr höfninni því að það er dálítið þröngt. Það stendur nú alltaf til að hún fari.“

 

Halldór Jóhannesson er ættaður frá Hyrningsstöðum og Kambi í Reykhólasveit, fæddur og uppalinn á Patreksfirði en búsettur í Reykjavík. „Unnur á Kambi er föðursystir mín og þar var ég í sveit í gamla daga. Síðan hef ég verið mikið á Hyrningsstöðum gegnum tíðina.“

 

09.12.2010  Varnargarður við Reykhólahöfn er nánast bylting

03.01.2009  Breiðfirskur beitukóngur dafnar af dauðri síld

 

Athugasemdir

Þorgeir Samúelsson, laugardagur 10 desember kl: 16:33

Væri ekki ráð að fanga þessa útgerð hingað að Reykhólum...skapa hér aðstöðu til að vinna sjávarfangið...Dóri kaupir bara bátin og gerir út héðan:)

Halldór Jóhannesson, mnudagur 12 desember kl: 07:19

Ég er búinn að nefna það nokkrum sinnum við útgerðina að flytja verksmiðjuna á Reykhóla, nóg að heitu vatni og gott að gera út þaðan. Held áfram að stinga þessari hugmynd að þeim.

Skrifaðu athugasemd:


Atburðadagatal

« Jl 2022 »
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30
31