Tenglar

13. apríl 2011 |

Fyrsti íbúafundurinn í Barmahlíð var mjög jákvæður

Efnt var til íbúafundar á Dvalar- og hjúkrunarheimilinu Barmahlíð á Reykhólum í gær, hins fyrsta í sögu heimilisins. Allt það heimilisfólk sem á annað borð treysti sér til sat fundinn auk starfsfólksins sem þá var að vinna. Leitað var eftir áliti heimilisfólks á dvölinni í Barmahlíð, hvað þar þætti í góðu lagi og ekki síður því hvað mætti betur fara. Starfsfólk Barmahlíðar hefur kynnt sér Eden-stefnuna svokölluðu og sótt námskeið í þeim tilgangi og var fundurinn haldinn í framhaldi af því. Heimilislegt andrúmsloft og umhverfi er kjarninn í Eden-hugmyndafræðinni. Inntak hennar er að skapa þá tilfinningu, að fólk búi ekki á stofnun heldur á heimili þar sem því líður vel.

 

Svanhildur Sigurðardóttir stýrði fundinum en meðal starfsmanna sem sátu hann var Þuríður Stefánsdóttir forstöðumaður og hjúkrunarforstjóri Barmahlíðar. Eftir inngangsorð Svanhildar var orðið látið ganga hringinn.

 

Þó að sérstaklega væri leitað eftir umkvörtunarefnum heimilisfólks í Barmahlíð var fundurinn árangurslaus hvað það snerti. Maður gekk undir manns hönd að lofa hlýtt og natið starfsfólk, sem reyndar skiptir allra mestu, góðan og fjölbreyttan mat og góðar aðstæður á heimilinu á allan hátt.

 

Eftir að hringurinn hafði verið farinn hófust umræður um það hvernig gott gæti orðið jafnvel ennþá betra til að auðga tilveruna og komu ýmsar hugmyndir fram. Þar á meðal óskin um að fleira fólk „úti í bæ“ kíkti öðru hverju í heimsókn, enda er einmanaleikinn talinn meðal verstu tilfinninga. Vonast var til þess að ungviði héraðsins liti inn sem oftast. Þess er skemmst að minnast þegar börnin á leikskólanum Hólabæ á Reykhólum komu og sungu fyrir heimilisfólk og mátti ekki á milli sjá hvor hópurinn var glaðari, gestirnir eða heimilisfólkið.

 

Rædd var hugmyndin um svolítinn hænsnakofa fyrir utan, þar sem væru kannski tíu-tólf púddur fólkinu til yndis. Ekki er ósennilegt að af því verði jafnvel strax í vor.

 

Í fundarlok lét einn heimilismanna svo ummælt, að á langri ævi hefði hann setið óteljandi fundi en engan eins jákvæðan og þennan.

 

Meðfylgjandi myndir voru teknar á fundinum. Smellið á til að stækka. Þær er einnig að finna í valmyndinni vinstra megin: Ljósmyndir > Myndasyrpur.

 

Sjá einnig:

09.04.2011  Skemmtileg heimsókn og talsverður aldursmunur

05.04.2011  Hætt við niðurskurð á Dvalarheimilinu Barmahlíð

 

Athugasemdir

Málfríður Vilbergsdóttir, mivikudagur 13 aprl kl: 20:17

Þið sem lesið þetta og vitið um kofa (hús) á lausu sem hægt væri að nýta sem hænsnakofa við Barmahlíð vinsamlegast hafið samband við okkur á Barmahlíð.
Bestu kveðjur Malla

Sara Dögg Svanhildardóttir, fimmtudagur 14 aprl kl: 18:13

Glæsilegt framtak !

Skrifaðu athugasemd:


Atburðadagatal

« Jl 2022 »
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30
31