Tenglar

4. desember 2012 |

Ferð mín um Reykhólahérað

Greinarhöfundur festir sér í minni umhverfið í Reykhólasveit.
Greinarhöfundur festir sér í minni umhverfið í Reykhólasveit.
1 af 17

Geiradalurinn og Innsveitin með augum gests frá Þýskalandi. Helgarheimsókn að Svarfhóli sumarið 2012. Hér má lesa líflega og skemmtilega frásögn þýskrar konu, sem heimsótti Svein og Kolbrúnu á Svarfhóli í Geiradal í Reykhólahreppi í sumar. Frásögnina ritaði hún á móðurmáli sínu en hér hefur henni verið snúið á íslensku. Birt með leyfi þeirra sem hlut eiga að máli. Myndirnar eru til fyllingar frásögninni í nokkurn veginn réttri röð.

 

 

Til minna kæru gestgjafa og vina, Kolbrúnar og Svenna.

 

Þegar ég opna dyrnar á bílnum spýtist ég hreinlega út úr yfirfullu farþegarýminu. Bakpokinn minn rennur á eftir mér úr aftursætinu á pallbílnum og skellur á hlaðinu við stoppistöð rútubíla í Króksfjarðarnesi. Guðmundur, ungur og vingjarnlegur maður, hafði tekið mig með hingað á puttanum enda þótt bíllinn hans væri nokkuð pakkaður fyrir. En þannig eru þeir, Íslendingarnir, alltaf vingjarnlegir og hjálpsamir.

 

Ég horfi á bílinn hverfa í rykmekki og Guðmundur heldur áfram ferð sinni yfir stíflugarðinn í suðurátt. Ég dusta rykið af fötunum og virði fyrir mér umhverfið. Fyrsta sjónhending yfir þennan kannski tíu húsa stað fær mig annars vegar til að skilja hvers vegna Guðmundur vissi fyrst ekki til hvaða borgar ég ætlaði að fara og síðan hvers vegna hann brosti þegar hann áttaði sig á því.

 

Hreinskilnislega sagt hafði ég ímyndað mér Króksfjarðarnes dálítið stærri stað - en hvaða máli skiptir stærðin annars!?! Hvað sem því líður, þá er þessi útvörður Vestfjarða hrífandi með sínu hrjúfa en jafnframt hlýlega landslagi.

 

Hér hafði ég mælt mér mót við Svenna á Svarfhóli. Hann bauð mér að koma til að sýna mér heimaslóðirnar. Enn er dálítil stund þangað til við ætluðum að hittast og þess vegna drösla ég farangrinum að hvítri byggingu með flötu þaki, þar sem hægt er að fá keypta handverksmuni, fá upplýsingar um svæðið og líka heitt kaffi. Ég lyfti bakpokanum inn yfir þröskuldinn, legg þessa fjárans þungavigt frá mér og panta kaffi. Harpa, sem sinnir sérhverjum viðskiptavini með umhyggju, færir mér bolla með rjúkandi kaffi og brosir.

 

Við förum að spjalla saman og svo vill til að við komumst að því, að við eigum sameiginlega kunningja. Hún er systurdóttir einnar vinkonu minnar og auðvitað þekkir hún líka Svenna og Kolbrúnu konu hans. Mikið hvað Ísland getur verið lítið! Nærri allir þekkja nærri alla. Harpa grípur strax símann til að láta þau vita að ég sé komin svona snemma. En í ljós kemur að Svenni er fjarverandi og ekki hægt að ná í hann.

 

Nokkrum kaffibollum og símtölum seinna lokar Harpa hjá sér þennan daginn og kemur mér og dótinu mínu fyrir í bílnum sínum. Hún er búin að komast að því, að Svenni er á sveitabæ í grenndinni að vinna við brunn og hefur misst farsímann sinn ofan í hann.

 

En allt í einu stendur hann fyrir framan mig með rennblautan símann í hendinni. „Sorry! I'm a little late,“ ávarpar hann mig brosandi. „Only three hours, doesn't matter,“ segi ég og brosi breitt á móti.

 

Að loknum indælum kvöldverði, fiski ásamt því besta sæta rúgbrauði sem ég hef nokkurn tímann borðað, förum við Svenni í fyrstu skoðunarferðina. Leiðin liggur niður að sjónum undir Hrafnhöfða. Grýtt ströndin er alsett köntuðum klettum sem frost og önnur óblíð náttúruöfl hafa rist undarlegum mynstrum. Sumir eru líkt og höggnir með meitlum, aðrir eru með upphleyptu mósaiki og minna mig á prentplötur og enn aðrir eru skreyttir nánast hringlaga rispum. Á öðrum stað eru nokkrir járnríkir steinar þaktir ryðflekkjum. Ég get varla virt þessa fjölbreytni nógsamlega fyrir mér, ég er eins og töfrum lostin.

 

En þá sækir rödd Svenna mig aftur til veruleikans: „Ertu orðin þreytt?“ Fyrst verð ég hissa en úrið sýnir að komið er langt fram á kvöld. Ósjálfrátt hugsa ég til biðarinnar síðdegis sem kaffið gerði mér ljúfa. Í dag þreytist ég ekki svo glatt. Mikið er það hentugt að hér skuli aldrei verða almennilega dimmt á þessum árstíma. Og þess vegna fellst ég á það þegar Svenni stingur upp á göngu á Geitafell.

 

Við förum upp frá ströndinni og göngum yfir mjúkt tún til baka að bílnum. Eftir ósléttum vegslóða komumst við upp að þessu litla undurfagra fjalli sem gægist með ávölum kolli sínum upp úr hæðóttu landslaginu. Á leiðinni upp beini ég athyglinni í öryggisskyni að lóðréttum og láréttum basaltmyndunum Geitafells í stað þess að huga um of að mjög bröttum og mjóum stígnum á barmi hengiflugsins.

 

Þegar við komum upp opnast móti okkur dásamlegt útsýni. Breiðafjörður breiðir úr sér frammi fyrir okkur með sínum óteljandi hólmum. Úti við sjóndeildarhring gnæfir óljós mynd Snæfellsjökuls en fyrir fótum okkar eru dreifðir sveitabæir í grænum túnum. Við stöldrum dálitla stund hérna uppi og njótum kvöldkyrrðarinnar á þessum víðernisstað áður en við klöngrumst niður aftur.

 

En heim förum við ekki strax þó að langt sé liðið á kvöld. Svenni beygir inn á nýja veginn til Hólmavíkur og ekur síðan fljótlega rakleitt út af veginum. Mér bregður snöggvast en átta mig svo á því að hann er bara að leggja bílnum. En til hvers? Ég litast um. Hér er hreint ekki neitt! En Svenni veit eitthvað og blikkar til mín og bendir mér að koma með sér.

 

Við göngum yfir veginn og smáspöl áfram um grýtta jörð þangað til rétt við veginn opnast skyndilega gil með háum og fallegum fossi. Ég horfi þarna niður stórhrifin. Dag hvern fara hundruð bíla fram og aftur um veginn og enginn veit hvaða dýrgripur er falinn hér. Líka er falin hér í dalnum gömul fjárrétt úr grjóti, sem maður getur vel virt fyrir sér af brúninni. Við klifrum niður til að geta skoðað Réttarfoss í návígi.

 

Meðan ég reyni að fanga á mynd fossinn sem fellur mjór niður í sitt hringleikahús hoppar Svenni stein af steini yfir ána og hverfur bak við fortjald vatnsins. Getur maður gengið þarna meðfram? Ó! Það vil ég líka gera! Ég flýti mér á eftir honum. Í hrifningu minni tek ég varla eftir því að ég blotna talsvert þegar ég stikla á steinunum á eftir honum á bak við fossinn. Svenni bíður mín handan við, alveg eins blautur og ég en ljómandi af ánægju. „Ég vissi hreinlega ekki að maður gæti komist hérna á bak við!“ segir hann kátur.

 

Jæja, svo hann vissi það ekki! Núna fyrst átta ég mig á því hvað við erum blaut og strýk laumulega vatnsdropana af myndavélinni minni. Sem sagt, eiginlega er alls ekki hægt að fara þarna á bak við fossinn. En gaman var það samt. Og þetta er nú bara vatn. Þegar við komum til baka gefur Kolbrún okkur kaffi og kökur og virðir hálfundrandi fyrir sér blautt hárið á okkur meðan Svenni segir henni með ljóma í augum að það sé hægt að fara á bak við fossinn. Mér finnst hálfpartinn eins og hún taki ekki þátt í hrifningu hans.

 

Þrátt fyrir kaffiflóðið sef ég eins og steinn og um morguninn er ég fersk og úthvíld og tilbúin fyrir frekari ævintýri. Að loknum ríkulegum morgunverði förum við Svenni í gönguferð á Neshyrnu, eða Króksfjarðarmúla. Við röltum eftir lausgrýttri brún hengiflugsins með sínum mörgu klettanefjum, þar sem andstæðurnar í rauðum og svörtum litbrigðum fjallsins eru áberandi skarpar. Við nemum staðar við grunnt gil og horfum niður. Ævintýraþráin kitlar mig.

 

Við skiptumst á snöggum augnatillitum sem segja allt og svo erum við strax komin í vandræði. Barnslegur ævintýraandinn hefur látið okkur sjá í þessu skriðugrjóti tilvalda leið niður. Eftir fyrstu þrjú skrefin hverfur út í loftið möguleikinn Við getum bara snúið við ef þetta gengur ekki - eða öllu heldur hverfur hann í grjóthrun.

 

Sem sagt eigum við þann kost einan að halda áfram niður. Sveinn ráðleggur mér að setja í framdrifið og þannig klöngrast ég á fjórum fótum út á hlið eins og krabbi á eftir honum niður gilið. Svenni fjarlægir lausagrjót af leið minni svo snilldarlega að ætla mætti að hann gerði slíkt á hverjum degi. Einhvern veginn er það róandi, en þetta er samt ekki síður erfitt.

 

Óþjálfaðir framdrifsvöðvar mínir standast með naumindum þá freistingu að sleppa tökum á steinnibbum og renna mér í staðinn á rassinum það sem eftir er. En niður komumst við reyndar ósködduð og Svenni lýsir því yfir gleiðglottandi að núna hafi bæst við ný gönguleið niður af þessu fjalli.

 

Eftir þetta ævintýri, sem viðurkenna verður að hafi verið dálítið ábyrgðarlaust, snúum við okkur að áhættuminna verkefni. Við förum í heimsókn á safnið í Ólafsdal, þar sem búnaðar- og hússtjórnarskóli var til húsa fram á fyrsta áratug síðustu aldar. Upplýsingaskilti greina ítarlega frá því hvernig erfiðu lífi og störfum var háttað hér fyrrum. Á leiðinni þangað skoðum við stuttlega undurfagran lítinn foss, sem skoppar niður fjögur þrep á leið sinni til sjávar, og förum framhjá Gilsfjarðarmúla, fjalli sem er í laginu eins og gafl á húsi.

 

Eftir heimsóknina á safnið ökum við að Vaðalfjöllum, fjalli með tveimur tindum. Fyrst er ég svolítið pirruð á ástandi vegarins þangað, síðan fljótlega áhyggjufull og loks á barmi örvæntingar. Það sem byrjaði sem ósléttur vegslóði endar sem fullburða fjallageitastígur fyrir æfða ökumenn fjórhjóladrifsbíla. Ekki veit ég hversu mörg prósent brattinn á þessum vegi er, en ég er nánast alveg viss um að slíkt fyrirfinnst ekki annars staðar í heiminum.

 

Ég spyr Svenna hvort honum finnist það góð hugmynd að aka þessa leið og hann fullvissar mig um að honum finnist það mjög góð hugmynd. Þegar ég legg til að við göngum það sem eftir er leiðarinnar brosir hann bara mæðulega.

 

Bíll kemur á móti okkur. Aðfarir þess bílstjóra sýnast mér hreinlega lífshættulegar. Kona sem er með honum virðist á sömu skoðun og ég, því að hún hefur stigið út og þrammar á eftir bílnum. Jeppi Svenna klífur síðasta brattann með öskrandi vél og staðnæmist þar nálægt sem fjallið er hæst.

 

Við skiljum bílinn eftir til að ganga á tindana tvo, Vaðalfjöllin, sem eru stuðlabergsstapar úr basalti. Leiðin upp er að hluta til nokkuð tæp, sem gerir hana dálítið erfiða, en það vekur reyndar ævintýraanda minn á ný. Andi þessi andast þó skyndilega þegar ég stend allt í einu frammi fyrir klettavegg. Svenni fer áhyggjulaus að klifra en ég stend sem steinrunnin og finnst ég eins og lömuð. Full örvæntingar horfi ég á eftir honum og kem mér ekki til þess klifra á eftir.

 

„I can't go up there!“ hrópa ég loks á eftir honum. Svenni snýr strax við og klifrar niður aftur eins lipurlega og rétt áðan upp. Þetta virðist eiginlega ekki vera svo erfitt. En það er vissulega mjög bratt. Svenni fullvissar mig um að það sé í góðu lagi ef ég treysti mér ekki upp, að vísu myndi ég þá missa af einstöku útsýni. Ég er á báðum áttum. Hvað ef ég misstíg mig eða hrapa niður?

 

En svo tek ég mig taki. Einfaldlega ætti ég bara ekkert að vera að misstíga mig eða hrapa niður. Og áður en ég sé mig um hönd klíf ég tindinn í slóð Svenna. Þetta andlega átak margborgar sig þó að þetta sé það kvíðvænlegasta sem ég hef gert.

 

Okkur veitist óvenjulega hreint útsýni um víða vegu. Í norðri glampar á Drangajökul, í suðri á Snæfellsjökul, og í vestri má sjá allt til fjarlægustu fjallgarða á Vestfjörðum. „Og núna förum við á hinn tindinn,“ tilkynnir Svenni glaðbeittur. „Auðveldara að ganga á hann og útsýnið ennþá betra.“

 

„Ha?“ Ég er ekki viss hvort ég ætti að hlæja móðursýkislega ellegar hrista hann svolítið til. Brosandi klifrar hann niður þverhníptan vegginn á undan mér og segir mér hvar ég eigi að tylla fótum til að komast af öryggi niður. Síðan göngum við á hinn tindinn, skrifum í gestabókina og setjumst. Þegar svona dýrleg útsýn um óravegu er í boði verður maður að nýta sér hana og þannig hverfum við henni á vald.

 

Það er orðið kvöldsett þegar við komum aftur að bílnum. Við stígum inn. Núna verður það aftur spennandi. Svenni setur í gang og leggur óhikað á ógreinilega vegslóðina fram undan. Minnstu munar að við veltum út af kantinum. Fjallið að baki, sem er eins og voldugur dökkur skipsbógur í landslaginu, hverfur úr sjónsviði spegilsins á bílnum og himinninn kemur í ljós í staðinn. Framan við okkur er heldur ekkert að sjá nema himininn. Ég held dauðahaldi í handgripið framan við mig þangað til ég get séð slóðann á ný, líkan vatnssorfnum árfarvegi. Nærri því eins og í mynd sem er sýnd hægt mjökumst við niður að dalnum og smátt og smátt vaknar hjá mér einhvers konar hrifning á þessari tegund fjallgöngu.

 

Þegar ég er að teygja mig næsta morgun finn ég til svolítilla óþæginda. Aldrei áður hafði ég fengið harðsperrur í handleggina eftir gönguferð! Kannski er Svenna svipað farið, því að í dag er engin frekari fjallganga á dagskránni. Í staðinn ökum við gamla veginn til Hólmavíkur um Tröllatunguheiði gegnum eyðilega hrjúfa fjallaveröld.

 

Þessi vegur ber þess vitni að vera aflagður og með brekkum með allt að 16% halla er hann talsvert ævintýralegur. En frá honum nýtur maður landslagsins miklu nánar en frá nýja veginum. Uppi á hásléttunni teygir stöðuvatn úr sér, litur þess minnir á Suðurhöf og fyllir mig óraunveruleikakennd. Til þess að fullkomna dýrðarmynd náttúrunnar synda svanahjón með ungana sína framhjá. Kyrrlátur fáfarinn staður.

 

Þar sem malarvegur þessi liggur hæst nemum við staðar. Fram undan opnast vítt útsýni niður í dalinn og allt til sjávar. Í hringsjármyndinni miðri er Hólmavík, hóglátur höfuðstaður austanverðra Vestfjarða og aðsetur einu stórverslunarinnar á meira en hundrað kílómetra svæði til norðurs. Hér gæti ég dundað mér til eilífðarnóns en tíminn minn er því miður á þrotum og þess vegna festi ég í huga mér þessa síðustu sýn á Vestfirði.

 

Auk þess bíður Kolbrún okkar með dásamlegu næfurþunnu pönnukökurnar sínar sem hún bakaði fyrir síðdegiskaffið. Af þeirri lystisemd má ég heldur engan veginn missa.

 

Kærar þakkir fyrir þennan indæla tíma með ykkur!

 

- Brigitte Kieckbusch.


__________________________________________________

 

Brigitte á heima í Schillsdorf, skammt frá borginni Kiel í Slésvík-Holtsetalandi, nyrst í  Þýskalandi.

 

Skrifaðu athugasemd:


Atburðadagatal

« Ma 2022 »
S M Þ M F F L
1 2 3 4 5 6 7
8 9 10 11 12 13 14
15 16 17 18 19 20 21
22 23 24 25 26 27 28
29 30 31