Tenglar

29. desember 2012 |

Bæði ljós og hiti á þessum bæ!

Bergsveinn Reynisson.
Bergsveinn Reynisson.

Rafmagnslaust hefur verið á Gróustöðum og í Garpsdal við Gilsfjörð frá því um klukkan sex í morgun. Á þeirri línu eru sex bæir en einungis er búið á þessum tveimur. „Ég skreið hérna út á tún í dag og fann eitt slit á línu og það er örugglega annað slit hérna fyrir innan okkur líka,“ sagði Bergsveinn Reynisson á Gróustöðum núna á ellefta tímanum í kvöld.

 

„Þessi lína er bæði slitin og brotin, menn vita að þetta er ekki bara eitthvert smotterí. Það verður ekki farið í neinar viðgerðir fyrr en veður lægir.“

 

Bergsveinn segir ekkert væsa um fólkið á heimilunum þremur á Gróustöðum þrátt fyrir ofsaveður og rafmagnsleysi.

 

„Svona lagað hefur nú gerst hér áður. Við erum með kýr og keyrum tuttugu kílóvatta ljósavél aftan á traktor. Hún hefur verið í gangi síðan upp úr klukkan sex í morgun og fær að ganga þangað til þetta er komið í lag. Það er bæði ljós og hiti á þessum bæ!“ sagði Bergsveinn.

 

„Maður heyrir alltaf í grönnum sínum þegar svona viðrar. Ég er búinn að heyra í Hafliða í Garpsdal nokkrum sinnum í dag og þau höfðu það ágætt. En þegar ég heyrði í honum um sjöleytið í kvöld, þá var hann ekkert farinn að fara í fjárhúsin ennþá - og ég get alveg fullyrt að það hefur ekki verið vegna leti hjá þeim manni!“

 

Í framhaldi af þessari frétt, sem skrifuð var laust eftir kl. 15 í dag, má geta þess, að næstu þrjá tímana eða svo var enn hvassara á Reykhólum en áður í þessari veðurlotu. Þá fór meðalvindhraði allt upp í 31 m/sek og mesta hviða í 40 m/sek á sjálfvirku veðurstöðinni neðan við Reykhólaþorp. Klukkan tíu í kvöld var meðalvindur þar kominn niður í 25 m/sek og mesta hviða klukkutímann á undan mældist „aðeins“ 34 m/sek.

 

Og í framhaldi af þessari frétt má nefna, þó að næsta lítilfjörlegt sé miðað við tjón sem annars staðar hefur orðið, að fánastöngin við Barmahlíð á Reykhólum brotnaði í dag.

 

Rafmagnsleysi og tjón vegna veðurofsans (skrifað á fjórða tímanum í dag)

Veðurtjón gæti hafa orðið mun víðar en vitað er (skrifað á tíunda tímanum í kvöld)

 

Athugasemdir

Bergsveinn G Reynisson, sunnudagur 30 desember kl: 23:34

Rafmagnið komið eftir rúmlega 40 tíma rafmagnsleysi.

Skrifaðu athugasemd:


Atburðadagatal

« Ma 2022 »
S M Þ M F F L
1 2 3 4 5 6 7
8 9 10 11 12 13 14
15 16 17 18 19 20 21
22 23 24 25 26 27 28
29 30 31