Tenglar

2. júlí 2010 |

Áfram vestur: Fjár aflað með útgáfu skuldabréfa

Aðgerðahópurinn Áfram vestur hefur lagt til að uppbyggingu Vestfjarðavegar 60 frá Bjarkalundi að Þingeyri verði lokið á næstu fimm árum. Heimilt verði að afla fjár með skuldabréfaútgáfu til að kosta framkvæmdirnar. Aðrar framkvæmdir á Vestfjörðum verði eftir sem áður fjármagnaðar af vegafé. Þetta kemur fram í umsögn sem hópurinn hefur sent Alþingi vegna tillögu til þingsályktunar um fjögurra ára samgönguáætlun fyrir árin 2009-2012. Kristinn H. Gunnarsson í hópnum Áfram vestur segir dæmi um að framkvæmdir hafi verið fjármagnaðar með skuldabréfaútgáfu. „Þetta var gert á sínum tíma þegar hringveginum var að ljúka á 8. áratugnum og ég held að einhverju leyti til þess að opna veginn um Djúpið á sama tíma.“

 

Í hópnum Áfram vestur eru 13 manns með búsetu á Vestfjarðakjálkanum: Kristinn H. Gunnarsson í Bolungarvík, Halldór Halldórsson á Ísafirði, Eyrún Ingibjörg Sigþórsdóttir á Tálknafirði, Ragnar Jörundsson á Patreksfirði, Sigmundur Þórðarson á Þingeyri, Eggert Stefánsson á Ísafirði, Sigurður Pétursson á Ísafirði, Magnús Ólafs Hansson á Patreksfirði, Kristmann Kristmannsson á Ísafirði, Sigurður J. Hafberg á Flateyri, Haukur Már Sigurðarson á Patreksfirði og Sigurður J. Hreinsson á Ísafirði.

 

Kristinn segist vona að lífeyrissjóðir og aðrir fáist til þess að kaupa skuldabréf og peningarnir verði notaðir til þess að klára umræddan vegakafla. Ríkið og/eða sveitarfélögin ábyrgist endurgreiðslurnar og ríkið greiði á t.d. 20 árum eftir að framkvæmdum lýkur. „Tilgangurinn er að gera Vestfirðinga jafnsetta öðrum landshlutum í samgöngum. Ef sæmilega gengur í efnahagsmálum þjóðarinnar ætti hið opinbera eftir 2-3 ár að geta stofnað til þessarar skuldbindingar og enginn vafi er á því að lífeyrissjóðir verða tilbúnir til þess að fjárfesta í skuldabréfunum ef þeir fá hóflega ávöxtun, sem ég tel vera verðtryggingu + 3,5% vextir.“

 

Hann segir að hugsa mætti sér að stofna félag sem sæi um framkvæmdirnar og aflaði fjárins með skuldabréfaútboði. „Vestfirðingar sjálfir verða að bera hitann og þungann af því að koma því á fót og afla stuðnings og samstarfsaðila. Þetta er svipuð leið og farin var í Vaðlaheiðargöngum. Þá var stofnað félagið Greið leið, sem vann að undirbúningi og kom málinu á koppinn en hefur nú lokið sínu hlutverki.“

 

Kristinn bætir við að til þess að þetta verkefni geti skilað árangri þurfi í fyrsta lagi að skilgreina verkefnið, sem er Vestfjarðavegur 60 frá Bjarkalundi að Þingeyri. Í öðru lagi þurfi að rökstyðja þörfina. Það væri gert með því að þetta sé eini kaflinn í stofnvegakerfi landsins sem er enn ekki fær allt árið og enn notaður gamall malarvegur. Sérstaðan sé augljós. Í þriðja lagi er markmiðið að gera samgöngur á Vestfjörðum eins góðar og annars staðar og styrkja Vestfirði sem heild með öruggum samgöngum milli staða og svæða.

 

Í umsögn hópsins segir: „Vegalengdin frá Bjarkalundi að Þingeyri er um 193 km og tilheyrir þjóðvegi 60, Vestfjarðavegi. Vegurinn þar er liðlega hálfrar aldar gamall. Frá 2002 er búið að leggja um 60 km af nýjum vegi á leiðinni frá Bjarkalundi að Flókalundi. Eftir eru um 65 km á þeirri leið og auk þess 69 km frá Flókalundi yfir Dynjandisheiði um Arnarfjörð og yfir Hrafnseyrarheiði að Þingeyri. Samtals eru 134 km gamlir og úr sér gengir vegir enn í notkun eða um 69% af leiðinni. Vonir standa til þess að í haust verði lokið við 16 km til viðbótar frá Kjálkafirði í Vatnsfjörð. Gangi það eftir verða 118 km eftir eða 61%. Núverandi vegur um heiðarnar er að jafnaði ófær að vetrarlagi. Þessi kafli í stofnvegakerfi landsins er sá versti sem er í notkun og nærri því sá eini sem ekki hefur verið endurnýjaður með heilsárvegi. Þegar lokið er Héðinsfjarðargöngum, Hófaskarðsleið og nýjum vegi um Vopnafjarðarheiði, framkvæmdir sem allar eru á lokastigi, verður umræddur vegarkafli frá Bjarkalundi að Þingeyri sá eini sem ekki er fær allt árið. Hellisheiði eystra er að vísu í tölu stofnvega en vegur um Vopnafjarðarheiði og Háreksstaðaleið hefur að miklu leyti komið í staðinn.“

 

Einnig er bent á að Vestfirðir standa mun lakar að vígi en aðrir landshlutar hvað varðar ástand stofnvegakerfis fjórðungsins og hefur svo verið um langa hríð. „Að teknu tilliti til þeirra framkvæmda í öðrum landshlutum, sem eru á lokastigi, eru á Vestfjörðum einu fjölmennu byggðarlögin sem ekki er fært á milli árið um kring og auk þess eru þar langverstu vegir landsins. Um það geta þúsundir ferðamanna á hverju sumri borið vitni. Til dæmis er fært allt árið á milli Norðfjarðar og Eskifjarðar og það á vegi sem með bundnu slitlagi. Er þar ólíku saman að jafna og milli Patreksfjarðar og Ísafjarðar. Þótt Vestfirðingar skilji vel þörfina á jarðgöngum fyrir austan og styðji framfarir þar í samgöngum er ekki hægt að una því að takmörkuðu fé sé frekar varið þar sem fært er árið um kring en þar sem er ófært mestan hluta ársins og þá fært er ekið á liðlega hálfrar aldar malarvegum. „Það er ekki hægt að koma svona fram við fólk og segja fullum fetum að svona skuli það vera áfram, þar sem betra er skuli batna en þar sem verra er skuli allt sitja við það sama.“

 

Þess vegna er stungið upp á því að Alþingi ákveði að jafna aðstöðu Vestfirðinga í stofnvegum við það sem er annars staðar með sérstöku átaki. Ákveðið verði að ljúka uppbyggingunni frá Bjarkalundi að Þingeyri á næstu 5 árum. Fjár verði aflað til þess með skuldabréfaútgáfu og hið opinbera greiði af þeim á næstu 10-15 árum eftir að framkvæmdum lýkur. Fyrir þessu séu fordæmi sem tekist hafa vel. Með þessi átaki verður staðan orðin svipuð á Vestfjörðum og annars staðar á landinu. Aðrar framkvæmdir á Vestfjörðum myndu eftir sem áður falla undir fjármögnun samgönguáætlunar, enda fjölmörg verkefni óunnin, bæði stór og smá, á Vestfjörðum eins og annars staðar á landinu, bæði í jarðgangagerð og almennri vegagerð, segir í umsögninni.

 

Þetta kemur fram á fréttavefnum bb.is á Ísafirði.

 

Skrifaðu athugasemd:


Atburðadagatal

« Nvember 2022 »
S M Þ M F F L
    1 2 3 4 5
6 7 8 9 10 11 12
13 14 15 16 17 18 19
20 21 22 23 24 25 26
27 28 29 30