Tenglar

fimmtudagur 24. mars 2011 |

Halla Eyjólfsdóttir frá Gilsfjarðarmúla - Halla á Laugabóli

Erindiskorn þetta var samið til flutnings á bókmenntakvöldi Reykhóladeildar Lionsklúbbs Búðardals í íþróttahúsinu á Reykhólum 5. mars 2010. Nær eingöngu var stuðst við æviágrip í lítilli bók með úrvali ljóða Höllu Eyjólfsdóttur, sem út kom árið 2009 undir heitinu Svanurinn minn syngur. Höfundur hennar og útgefandi er Guðfinna M. Hreiðarsdóttir sagnfræðingur á Ísafirði, sem leyfði góðfúslega afnot vinnu sinnar í þessum tilgangi.

 

Svanurinn kemur oft við sögu í ljóðum Höllu Eyjólfsdóttur á Laugabóli en þekktast þeirra mun þó kvæðið Svanurinn minn syngur. Rómantískar náttúrulýsingar einkenna mörg af kvæðum hennar en önnur geyma raunsærri lýsingar á amstrinu í búskapnum í íslenskri sveit. Vissulega slær hún þó marga fleiri og fjölbreyttari strengi.

 

Skáldkonan Halla Eyjólfsdóttir, sem hét fullu nafni Hallfríður Guðrún Eyjólfsdóttir, er jafnan kennd við Laugaból innra í Ísafjarðardjúpi og þar stóð hún fyrir stóru búi mestan hluta ævinnar. Rætur hennar eru hins vegar hér í þessu héraði. Hún fæddist árið 1866 í Múla við Gilsfjörð, sem oft er nefndur Gilsfjarðarmúli, og þar ólst hún upp í stórum systkinahópi. Afar hennar voru báðir prestar í grenndinni, annar í Tröllatungu, hinn í Garpsdal, en foreldrarnir voru Jóhanna Halldórsdóttir frá Tröllatungu og Eyjólfur Bjarnason frá Garpsdal.

 

Efnahagur í Múla var erfiður, einkum á meðan börnin voru að vaxa úr grasi, enda jörðin lítil og búið smátt. Meðal verka sem Halla sinnti í uppvextinum í Múla var að vaka yfir túninu á vorin og fara á fjaðrafjöru á sumrin. Hún undi sér vel úti í náttúrunni og skynjaði þar jafnt hið stóra og hið smáa af miklum næmleika.

 

Sagt er að heimilislífið í Múla hafi verið glaðlegt og fjörugt. Systkinin voru vel að sér til munns og handa, eins og kallað var, eftir því sem tíðkaðist á sveitaheimilum á þeim tíma, en lítill eða enginn kostur var á skólagöngu fyrir börn alþýðufólks. Öll var fjölskyldan ágætlega hagmælt og þó Jóhanna húsfreyja best, að sagt var. Þau voru af skáldakyni og meðal skyldmenna voru séra Matthías Jochumsson frá Skógum í Þorskafirði og skáldkonurnar úr Breiðafjarðareyjum, Theodóra Thoroddsen og systurnar Herdís og Ólína Andrésdætur. Bræður Höllu, þeir Guðmundur Geirdal og Hreiðar Geirdal, eins og þeir nefndu sig síðar, urðu báðir þekktir af skáldskap sínum.

 

Halla Eyjólfsdóttir minntist æsku sinnar í ljóði á þessa leið:

 

          Æska mín

 

          Mín æska var einfaldur draumur,

          sem aflvana barðist við þrána,

          og þráin var þessi, að mega

          hjá þrotlausa brunninum sitja,

          hjá brunninum ástar og unaðs

          í alsælum fegurðar ljóma,

          en leiðin til hans var mér lokuð

          og lykilinn hafði ég ekki.

 

          En daglega sá ég til sólar

          í síungu voninni minni,

          hún sendi mér glóandi geisla,

          er gagntóku sálina ungu,

          og hugurinn fylltist af friði,

          af fögnuði þrútnaði hjartað,

          og andinn, sem funaði af fjöri

          mér framtíðarkastala byggði.

 

Athygli vekur að hér notar Halla ekki endarím, en slíkt var óvenjulegt á þeim tíma. Eins og í ljóði þessu birtist sveið Höllu að geta ekki komist að menntabrunnum svo heitið gæti. Um tíma var hún þó við nám á Kleifum í Gilsfirði hjá Eggert Jónssyni bónda og síðar part úr vetri í Bæ í Króksfirði þar sem hún var við hannyrðir og lærði að sauma föt. Hugur hennar varð þó hvorki fjötraður viðjum fátæktar né viðhorfa þess tíma til menntunar og réttinda kvenna. Hún leitaði frelsisins í skáldskapnum og hann var hennar leið út úr því hlutskipti sem lífið skikkaði hana til. Eða eins og hún segir sjálf:

 

          Minni stýra má ég hönd

          og matinn niður skera,

          þó mér finnist öll mín önd

          annars staðar vera.

 

Þegar Halla var átján ára missti hún móður sína. Hún tók þá að sér húsmóðurstörfin á heimilinu og gekk bræðrum sínum í móðurstað. Tvö ár stóð hún fyrir búi föður síns í Múla en vorið 1886 kvaddi hún æskustöðvarnar við Gilsfjörðinn tæplega tvítug og hélt norður yfir heiði þar sem hún réðst sem vinnukona að Laugabóli við Ísafjörð innst í Ísafjarðardjúpi. Fáum árum síðar giftist hún Þórði Jónssyni, syni hjónanna þar. Með honum eignaðist hún fjórtán börn en þrjú þeirra misstu þau úr barnaveiki sumarið 1904. Börnin þeirra mörgu verða ekki talin upp hér en nefndur skal drengur héðan úr Múlasveitinni sem fóstraðist hjá Höllu og varð seinna þjóðkunnur maður. Það var Leópold Jóhannesson, sem jafnan var kenndur við Hreðavatnsskála í Borgarfirði.

 

Þórður bóndi á Laugabóli sótti sjóinn af kappi frá Bolungarvík yst við Djúpið þar sem hann var formaður á eigin skipi og kom því í hlut Höllu að hafa umsjón með öllum störfum utandyra jafnt sem innandyra. En þótt hlutskipti hennar yrði að stjórna stóru búi mestan hluta ævinnar, þá átti skáldskapurinn ætíð hug hennar allan. Hún gat aðeins sinnt honum í hjáverkum og í ljóðum hennar urðu fuglar himinsins og himinhnettirnir táknmyndir hins frjálsa anda með lausn frá amstri hversdagslífsins.

 

Halla mátti ekkert aumt sjá og fann til með öllum sem minna máttu sín, eins og vel sést í kvæðum hennar um ómaga, förukonur og sakamenn. Sama má segja um hestinn, kúna, hundinn, köttinn, refinn og litlu músina. Og yfir vakir jafnan svanurinn í Gilsfirði frá uppvextinum í Múla.

 

Eftir Höllu á Laugabóli liggja tvær ljóðabækur, Ljóðmæli sem komu út árið 1919, og Kvæði sem komu út árið 1940, þremur árum eftir andlát hennar. Bækurnar eru miklar að vöxtum og ljóðin margvísleg að allri gerð. Þær hafa verið ófáanlegar í marga áratugi og ljóð Höllu hafa ekki verið gefin út síðan, nema úrval kvæða hennar sem Guðfinna Hreiðarsdóttir á Ísafirði gaf út á liðnu hausti ásamt æviágripi.

 

Þegar Halla var að undirbúa útgáfu á fyrri ljóðabók sinni sendi hún handritið til séra Matthíasar Jochumssonar frænda síns til að fá álit hans á kveðskapnum og hvort ljóðin væru þess verð að koma út á prenti. Urðu nokkur bréfaskipti milli þeirra vegna þessa og hvatti Matthías Höllu óspart til að gefa bókina út því hún væri orðin „eitthvert helsta kvenskáld á Íslandi“.

 

Hann heldur svo áfram og segir: „Það sem einkum er frumlegt hjá þér er fín og djúp samúðartilfinning - ekki einungis gagnvart börnum og ástvinum, heldur húsdýrum og kvikindum. Þar ertu ein um hitunina af öllum skáldsystrum þínum hér á landi.“ Í bréfi sem hann skrifar seinna bætir hann við: „Þú nærð betur andanum, þ.e. töfravaldi náttúrunnar, en „stóru skáldin“, sem ætla sér að ná ástum heilagrar náttúru með smjaðri orðmælgi sinnar.“

 

Sumarið 1910 var ungur læknir, Sigvaldi Stefánsson, skipaður héraðslæknir í Nauteyrarhéraði. Kom hann vestur þá um sumarið með fjölskyldu sína og settist að á Ármúla, innst í Ísafjarðardjúpi, rétt við Kaldalón. Sigvaldi tók sér síðar nafnið Kaldalóns og varð þjóðþekktur sem tónskáld. Kynni tókust með fjölskyldu Sigvalda og fjölskyldunni á Laugabóli og varð mikil og hlý vinátta þar á milli.

 

Óhætt er að segja að samband þeirra Höllu og Sigvalda hafi verið einstakt enda leiddi það til sköpunar sönglaga sem teljast verða perlur í íslenskri tónlist. Bæði voru þau óþekktir listamenn þegar leiðir þeirra lágu saman en bæði voru þjóðþekkt er leiðir skildu. Verk þeirra hafa lifað fram á þennan dag, hjartkær íslensku þjóðinni í tímalausri fegurð sinni. Það hlýtur að hafa verið töfrastund þegar örlögin leiddu saman þessar tvær manneskjur í afskekktri sveit norður á hjara veraldar.

 

Árið 1914 andaðist Þórður eiginmaður Höllu eftir erfið veikindi. Engu að síður ákvað hún að halda áfram búskap á Laugabóli með aðstoð eldri barna sinna. Árið 1921 gekk hún síðan að eiga Gunnar Stein Gunnarsson frá Hvítanesi í Ögursveit við Djúp, en hann hafði stundað barnakennslu í Nauteyrarhreppi og víðar. Þau Halla og Gunnar Steinn héldu áfram búskap á Laugabóli allt til 1935 þegar Sigurður sonur Höllu og Þórðar heitins tók við búinu og jörðinni.

 

Sumarið 1936 fóru þau hjónin Halla og Gunnar Steinn með báti út Djúpið til Ísafjarðar. Þar hugðust þau ná skipi til Reykjavíkur en þangað hafði Halla aldrei komið. Hún ætlað að heimsækja börnin sín sem þar voru búsett og sjá höfuðstaðinn. Á Ísafirði fékk Halla hins vegar heilablóðfall og náði sér ekki á ný. Eftir sex vikna legu heima hjá bróður sínum á Ísafirði var Halla flutt rúmliggjandi með skipi til Reykjavíkur þar sem dóttir hennar annaðist hana næsta hálfa árið.

 

Halla Eyjólfsdóttir á Laugabóli, Hallfríður Guðrún Eyjólfsdóttir frá Múla í Gilsfirði, andaðist í Reykjavík í febrúar 1937, liðlega sjötug að aldri. Eftir fjölmenna kveðjuathöfn í Dómkirkjunni í Reykjavík var lík hennar flutt vestur og jarðsett í heimagrafreitnum á Laugabóli, sem hún hafði sjálf látið gera nokkru eftir dauða Þórðar fyrri eiginmanns síns.

 

Þegar liðið var á ævina orti Halla kvæðið Heima þar sem hún lítur um öxl til bernskudaganna í Múla og fjallahringsins og hyrnunnar háu ofan við bæinn. Þar koma svanirnir við sögu sem oftar, enda var og er enn í dag mikið um þá í Gilsfirðinum sem var henni svo hjartkær alla ævi.

 

          Heima

 

          Sjá hinn fagra fjallahring

          fjörðinn vefja örmum sínum,

          þar er engin umbreyting

          allt frá bernskudögum mínum.

          Ennþá gnæfir hyrnan háa

          hátt við loftið fagurbláa.

 

          Sumarkvæði syngja enn

          svanir fyrir Múlalandi,

          ó, hve hrifnir heyra menn

          hljóminn berast upp að sandi,

          yfir túnin, engi og dali

          upp um háa fjallasali.

 

          Sælt er enn í sölum þeim

          sitja ein og hlusta í næði,

          hugglöð taka höndum tveim

          hásumarsins besta kvæði.

          Svanatónar ljúft framleiða

          ljóðin öll um fjörðinn Breiða.

 

          Ó, hve sælt að sofna hér

          síðsta blund að ævikveldi,

          helst er kvöldsól kveðja fer,

          krýnir fjöllin rauðum eldi.

          Englaskari ofan stígur,

          upp með sálu mína flýgur.

 

Skrifaðu athugasemd:


Atburðadagatal

« Febrar 2023 »
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28