Tenglar

10. mars 2009 |

Vöruhótelin sem við borguðum fyrir í Reykjavík

Grímur Atlason
Grímur Atlason
Landsbyggðin hefur leynt og ljóst tekið þátt í því að niðurgreiða dreifikerfi sem miðar að því að koma öllu til Reykjavíkur. Sjóflutningar til og frá landinu, vegakerfi, vöruhótel, flutningabílar o.fl. allt hverfist þetta um eina miðju: Reykjavík. Milljarðar á milljarða ofan hafa farið í uppbyggingu þessa byggðafjandsamlega kerfis. Fólk þarf að sætta sig við að vörur eru fluttar óunnar af svæðum sem eðlilegt framhald af þessari furðulegu borgríkisstefnu. Og hvað sem menn segja er því haldið fram að allar aðrar leiðir séu óarðbærar og gangi þar af leiðandi ekki upp. En núna er þetta kerfi gjaldþrota og þá er ekki úr vegi að skoða eitthvað annað.

Strandsiglingar er nokkuð sem núverandi samgönguráðherra hefur hampað mjög sl. ár.  Verndarar hins reykvíska vöruhótels hafa haft betur til þessa og ráðherra hefur lítið talað um þetta áður mikla baráttumál sitt þann tíma sem hann hefur setið á stóli. Þessir varnartengiliðir hins ofvaxna kerfis segja kostnað við uppbyggingu birgðastöðva út um landið of mikinn og að verri nýting flutningabíla með tilkomu strandsiglinga geri breytingar á kerfinu óraunhæfar. Þeir segja að ef ríkið borgi ekki, skili það sér út í verðlagið.

En hvernig er þetta í dag? Hverjir borga brúsann? Vegakerfið er sundurtætt og slitið. Þetta er tilkomið meðal annars vegna þessara þungaflutninga og kallar á umtalsvert viðhald á ári hverju. Breytur eins og umferðarþungi, hættur og mengun kosta líka sitt og skattgreiðendur borga talsvert í þeim brúsa. Er ekki rétt að taka þennan kostnað með í reikninginn?

Hin heimska hönd hagræðingarinnar kallar á svo margt óskynsamlegt. Þess vegna verða skynsamir menn að standa upp og spyrja spurninga eins og: Hvaða áhrif hefði þá úti á landsbyggðinni ef hringinn í kringum landið risu fjórar birgðastöðvar, hafnirnar yrðu bættar og rekstrargrundvöllur þeirra tryggður? Hvað með ef bensínflutningar á íslenskum fjallavegum að vetri til heyrðu sögunni til og þungaflutningar hyrfu sömuleiðis að mestu - væri það óhagræði? Fjölgun starfa út um allt land og uppbygging á landsbyggðinni væri það slæmt? Myndu margir gráta ef umferðarþungi á þjóvegakerfinu yrði minni?

Það er einfaldlega þjóðhagslega hagkvæmt að beina þungaflutningum á hafið og byggja upp nýtt dreifikerfi sem miðaði að þessum lausnum. Það er nú þegar verið að niðurgreiða þessa flutninga á vegunum þannig að ekkert ætti að koma í veg fyrir að ríkið niðurgreiddi strandsiglingar.  Krónur færðar á milli vasa.

Það er ekki bara bjórinn sem ferðast þúsundir kílómetra áður en hann kemst til neytenda handan heiðanna. Mjólk, brauð, kjöt, fiskur og steinull þeysa hringinn í kringum landið af því að rekstrarhagfræði 101, sem löngu er orðin gjaldþrota, sagði að það væri eina ráðið. Hin heimska hönd hagræðingarinnar þarf að komast í langt og þarft frí.

Grímur Atlason frambjóðandi í forvali VG í NV

Atburðadagatal

« September 2022 »
S M Þ M F F L
        1 2 3
4 5 6 7 8 9 10
11 12 13 14 15 16 17
18 19 20 21 22 23 24
25 26 27 28 29 30