Tenglar

26. september 2011 |

Vegagerð í Reykhólahreppi

Össur Sig. Stefánsson.
Össur Sig. Stefánsson.

Össur Sigurður Stefánsson skrifar:

 

Nýleg ákvörðun innanríkisráðherra að endurgera gamla og úrelta fjallvegi vekur undrun mína. Árið 1993 fékk fjölskyldan spildu undir Ódrjúgshálsi hjá Samúel Zakaríassyni í Djúpadal fyrir sumarhús. Fjaran frá botni Þorskafjarðar og í Grónes er á náttúruminjaskrá og þurfti ég því að sækja um leyfi Náttúruverndarráðs á þeim tíma. Það fékkst með þeim skilyrðum að landið næði ekki að sjó né giljum og enginn vegur yrði lagður. Var því allt efni og búnaður borið niður stíg með ærinni fyrirhöfn.

 

Um það bil 10 árum seinna gerði Vegagerðin nokkrar tillögur um nýjan veg. Í upphafi var valkostur Vegagerðarinnar að gera upp hálsana. Þá kom í ljós að mikil hermdarverk átti að vinna á því fagra umhverfi sem við höfðum valið fyrir sumarhús okkar. Fara átti upp miðja hlíðina, rústa tikomumiklar Bríkurnar og lyfta veginum með firnamikilli fyllingu í Hálsgil upp á Ódrjúgsháls. Þær verndunaraðgerðir sem við höfðum sætt okkur við áttu greinilega ekki við um ríkisfyrirtækið Vegagerðina.

 

Við eigendur tveggja sumarhúsa í landi Miðhúsa ásamt Starfsmannafélagi Landhelgisgæslunnar, sem á 4 hús í Grónesi, mótmæltum framkvæmdinni.

 

Lýður Björnsson sagnfræðingur, sem ólst upp í Gufudal, tjáði mér að hinn landskunni vegalagningamaður, Jón Víðis, hefði mælt fyrir upphaflegum vegi af Miðhúsamel og ofarlega yfir Ódrjúgsháls og bentum við á þá leið. Í umsögn Skipulagsstofnunar var Vegagerðinni uppálagt að færa veglínuna og var það gert til málamynda en alls ekki að okkar tillögu.

 

Mér þykir vænt um Teigsskóg og þótt ég sé uppalinn við mikið berjaland í Önundarfirði, þá viðurkenni ég að stærstu aðalbláber er að finna í skóginum. En að þyrma honum með því að rústa náttúruvættum í næsta firði, fórna umferðaröryggi og fara aftur í aldir er hæpið. Vegurinn um Kelduskóg í Mjóafirði í Djúpi er vinalegur og hægt að teygja sig í hríslurnar. Gjábakkavegur gegnum Þjóðgarðinn á Þingvöllum verður ægifagur í haustlitunum, svo að nýnemum í Listaháskólanum er sýndur hann sem dæmi um þá ægifegurð sem bestu listamenn okkar hafa flutt yfir á striga.

 

Hann Samúel heitinn sagði mér að hann hefði sem ungur drengur teymt heybandslest úr Grónesi inn Miðhúsaskóg í Djúpadal og baggarnir hefðu rétt snert hrísið. Þegar ég kannaði landið hvarf ég sumstaðar í skóginn og er ég meðalmaður á hæð. Mér er því næst að halda að skógurinn sé sjálfsprottinn á 70-80 árum og sama ætti að gilda um Teigsskóg í næsta firði við sömu veðurskilyrði. Reyndar liggur vegslóði út fyrir Gröf og langleiðina út Teigsskóg sem nýr vegur myndi að líkindum fylgja.

 

Lítum á vegasamgöngur til Vestfjarða í heild. Milljörðum hefur verið varið á löngum tíma í Djúpveg og vestur Dali. Með stuttum jarðgöngum meðfram Kollafjarðarheiði tengjast þessi vegakerfi. Þar með væri láglendisvegur frá Ísafirði til Reykjavíkur, nokkuð sem nútímafólk gerir kröfu um og myndi styrkja byggð á norðanverðum Vestfjörðum.

 

Klettsháls var byggður upp fyrir 400 milljónir og hefur aldrei verið eins oft lokaður að vetri til síðan þá. Búast má við því sama um Ódrjúgsháls og Hjallaháls. Fyrir Vegagerðina er mjög erfitt og kostnaðarsamt að þjónusta fjallvegi fjarri starfsstöðvum hennar. Þótt hið opinbera spari einhverja fjármuni má ekki gleyma aukinni eldsneytiseyðslu, sliti, tímasóun og ófærð með tilheyrandi kostnaði um ókomna framtíð. Er ekki sjálfbærni og sparnaður óendurnýjanlegra orkugjafa á stefnuskrá núverandi stjórnvalda?

 

Nýlega hefur athyglin beinst að tengingu frá Stað á Reykjanesi yfir í Skálanes með sjávarfallavirkjun. Í kostnaðaráætlun Vegagerðarinnar var sá kostur talinn ólíklegur vegna kostnaðar. Skipstjórinn á Karlseynni, þaraskurðarskipi Reykhólamanna, hefur sagt mér að dýpi þar sé síst meira en í fjörðunum og brú yfir álinn eðlilega lengri en þrjár aðrar brýr. Talið er að raforkuframleiðsla myndi greiða framkvæmdina upp á 10 árum og skila arði eftir það. Fé sem ætlað var í þessa framkvæmd var eyrnamerkt við sölu Landssímans en er nú víst brunnið upp. Er ekki þarna tækifæri til að endurheimta það og fara leið sem full sátt getur ríkt um? Sjálfbær að auki, Ögmundur!

 

Gjaldeyrir er það sem okkur skortir, en um fjórðungs hans aflar ferðaþjónustan. Fyrir nokkrum árum fór fjöldi ferðamanna fram úr íbúafjölda og nálgast nú hálfa milljón. Spáð er að einnar milljónar markinu verði náð 2015-2020.

 

Álag á náttúruperlur er áhyggjuefni. Ólafur Örn þjóðgarðsvörður hefur varað við umferðarþunga sem mengað gæti Þingvallavatn sem er á náttúruminjaskrá UNESCO. Hann hefur haft forgöngu um gjaldtöku til að bæta aðkomu og varðveislu viðkvæmra staða fyrir sífellt auknum átroðningi.

 

Vestfirðir með sín tilkomumiklu fjöll, búsældarlega firði milli þeirra og krúttleg kauptún draga sífellt fleiri ferðamenn til sín. Þar er eini möguleiki okkar til að mæta þessari aukningu en til þess þarf sómasamlegan hringveg með bundnu slitlagi og helst á láglendi. Horfum lengra fram á veginn og hlúum um leið að búsetuskilyrðum í fjórðungnum. Það harðduglega fólk, sem þar þraukar og vill hvergi frekar vera, á það skilið.

 

- Höfundur er framkvæmdastjóri Álfaborgar og áhugamaður um bættar samgöngur í sátt við náttúruna.

 

Grein þessi birtist í Morgunblaðinu 19. september.

 

Skrifaðu athugasemd:


Atburðadagatal

« Ma 2022 »
S M Þ M F F L
1 2 3 4 5 6 7
8 9 10 11 12 13 14
15 16 17 18 19 20 21
22 23 24 25 26 27 28
29 30 31