Tenglar

23. mars 2015 |

Vargar í véum - opið bréf til umhverfisráðherra

Indriði á Skjaldfönn.
Indriði á Skjaldfönn.

Indriði Aðalsteinsson, sauðfjárbóndi á Skjaldfönn við Djúp skrifar:

 

Búnast fuglum verr og verr,

varga eflist standið.

Hafa stjórnvöld hugsað sér

hvorir erfi landið?

(IA - ALV)

 

Ágæti umhverfisráðherra, Sigrún Magnúsdóttir. Velkomin til starfa og vonandi lætur þú gott af þér leiða í þessu mikilvæga embætti. En þar sem þú ert ættuð frá Bakka í Svarfaðardal þykir mér líklegt að þér finnist mál til komið að fleiri geri þann garð frægan en Gísli, Eiríkur og Helgi. Og nú er tækifærið. Undanfarið hef ég hér í Mbl. fjallað um bágt ástand rjúpnastofnsins, en velferð þessa ágæta fugls er nú í þínum höndum. Ég vænti því þess að þú hafir lesið mín skrif og skal hér eftir megni sneiða hjá endurtekningum.

 

Sorgarsaga

 

Frá því land byggðist hafa forfeður okkar goldið varhug við refnum og það ekki að ófyrirsynju, enda mikill skaðvaldur í sauðfé og nytjafuglastofnum. Fljótlega eftir að fyrsti og eini veiðistjórinn sem bar það nafn með rentu, Sveinn Einarsson frá Miðdal, hafði safnast til feðra sinna, var lögum breytt í þá veru að líffræðingur ætti að sitja í þessum stól og gengið var ítrekað fram hjá reyndum og fyrirtaks hæfum veiðimönnum.

 

Embættið breyttist í veiðikortaútgáfu og að sjá til þess að kjör grenjaskyttna hjá sveitarfélögum yrðu sem hraklegust. Jafnframt var sá áróður rekinn, bæði varðandi ref og mink, að því fleiri dýr af þessu tagi sem drepin væru, því meir stækkuðu stofnar þeirra. Að þessu gerðu varð veiðistjóraembættið sjálfdautt, og það engum harmsefni.

 

Samtímis því að veiðistjórarnir sukku dýpra og dýpra í veruleikafirringuna, höfnuðu reynslu kynslóðanna af varginum og fyrirlitu skoðanir leikmanna sem alið höfðu allan sinn aldur á vettvangi, reis á legg umhverfisráðuneyti, sem strax við fæðingu virtist telja það sína helgustu skyldu að slá skjaldborg um varginn, bæði ferfættan og fleygan.

 

Rebbi var friðaður á miðhálendinu, Hornströndum, Skaftafelli, Jökulsárgljúfrum, Snæfellsnesi að hluta og miklu víðar. Bannað var að herja á minka með áður góðum og áhrifaríkum aðferðum og nú má ekki lengur taka þennan morðóða djöful upp á skottinu.

 

Hrafnar voru settir á válista og þvælst er fyrir eftir bestu getu gegn því að álftastofninn, sem veldur bændum gífurlegu tjóni, sé grisjaður. Ríkið fékk, óáreitt af þínum forverum, að fella niður hlutdeild sína í kostnaði við varnarstríð sveitarfélaga, og þau, mörg fjárvana, fóru að trassa að sinna þessum mikilvæga náttúruverndarþætti.

 

Refnum fjölgaði því úr 1.300, 1978, í tæp 8.000, 2003. Páll Hersteinsson segir í Mbl. 2009 „Refastofninn hefur tífaldast á 30 árum“. Öllum sjáandi á vettvangi er ljóst að sú uppsveifla er enn í gangi. Rjúpa er aðalfæða refa allan ársins hring og þegar þeir eru búnir með síðustu rjúpurnar er sauðfé nærtækast, selkópar, eins og hér við Djúp í sumar, eða matvæli sem sumarbústaðafólk hefur úti á veröndinni yfir nótt. Minkurinn sneri sér einnig að rjúpunni þegar hann var búinn að gereyða öllu lífi í smærri ám og lækjum. Eftir að lokað var fyrir aðgengi máva að frystihúsaúrgangi og fráveitum, eru þeir á varptímanum fram um dali og heiðar að ræna hreiður mó- og vaðfugla og rífa í sig ungana.

 

Árið 1927 voru fluttar út 252.650 rjúpur. Þjóðþekktur náttúrufræðingur segir 1985 að rjúpnaparastofninn sé 600.000 pör. Síðan er rebbi leiddur til öndvegis með þeim afleiðingum að friða þurfti rjúpuna 2003-2004 en það dugði skammt. Það er alveg ljóst að refa„fræðingar“ þínir munu seint viðurkenna að tófa geri usla í rjúpu. Sama á við um rjúpna„fræðingana“ enda ekki til siðs að nefna snöru í hengds manns húsi. Af því spratt veiðleyfahneykslið í haust og síðan var uppdiktuðu hreti kennt um rjúpnaþurrðina.

 

Aðgerðir

 

Þú hefur, Sigrún, öruggan stuðning til góðra verka á þessu sviði frá þorra þjóðarinnar. Ekki má svæfa þessi mál í nefnd, heldur hefjast handa strax. Ráða hæfan veiðistjóra, heimila aftur grenjavinnslu í öllum þjóðgörðum og friðlöndum og ríkið standi undir helmingi af vargaeyðingarkostnaði sveitarfélaga. Jafnframt verður að alfriða rjúpuna meðan verið er að lágmarka refastofninn. Kostnaðaraukningu ríkisins er sjálfsagt að mæta með því að þú segir upp vargaverndarfólkinu þínu, öllu með tölu. Fullgild ástæða er gróf vanræksla á þeirri starfsskyldu að vernda lífríkið fyrir offjölgun vargs og ganga þannig freklega gegn hagsmunum og lífsgæðum þjóðarinnar.

 

Með baráttukveðju.

 

Greinin birtist einnig í Morgunblaðinu í dag.

 

Skrifaðu athugasemd:


Atburðadagatal

« Ma 2022 »
S M Þ M F F L
1 2 3 4 5 6 7
8 9 10 11 12 13 14
15 16 17 18 19 20 21
22 23 24 25 26 27 28
29 30 31