Tenglar

30. apríl 2009 |

Það liggur á að mynda ríkisstjórn!

Gunnar Bragi Sveinsson.
Gunnar Bragi Sveinsson.

Gunnar Bragi Sveinsson skrifar:

 

Formenn stjórnarflokkanna telja að ekkert liggi á að mynda ríkisstjórn vegna þess að nú þegar sitji stjórn með þingmeirihluta. Það er rétt að hér situr ríkisstjórn, en viðhorf stjórnarflokkanna til myndunar nýrrar er lýsandi dæmi um þrekleysi og sleifarlag, það sama og einkenndi þann tíma sem stjórnin sat fyrir kosningar. Í því ljósi séð, er ekki mikil breyting. Hér birtist hin fullkomna fælni til að takast á við það sem skiptir öllu máli við núverandi aðstæður; að koma fjölskyldum og fyrirtækjum í þessu landi til bjargar og eyða óvissu um stjórnarfar næstu ára. Merkilegt er einnig að forseti lýðveldisins er sallarólegur yfir þróun mála. Enda virðist sem naprir vindar kreppunnar hafi ekki blásið á Bessastöðum.

 

Óvissan gerir það að verkum að erlendir aðilar sem hugsanlega vilja fjárfesta á Íslandi halda margir að sér höndum vegna óvissunnar. Þá er ljóst að á meðan óvissa ríkir fáum við ekki þá fyrirgreiðslu sem við þurfum erlendis. Óvissan er verst fyrir heimilin og fyrirtækin því meðan þrasað er um ESB og ráðherrastóla þá verða heimili og fyrirtæki gjaldþrota.

 

Svo virðist sem Vinstri græn séu að gefa eftir í viðræðunum um ESB og ætli sér að láta Alþingi ákvarða í málinu. Þar sem Sjálfstæðisflokkurinn hefur gefið út að fulltrúar hans ætli sér ekki að taka þátt í slíkri umræðu þá er ljóst að meirihluti er fyrir málinu á Alþingi. Vinstri græn munu því byrja á því að svíkja sitt helsta kosningaloforð því þau vita hvernig málið fer. Fer ekki hjá því, í ljósi útkomu Samfylkingarinnar í kosningunum, að sú hugsun hvarfli að manni, að Vinstri grænir verði beygðir í duftið í hinum ýmsu málum. ESB málið gæti orðið þar efst á lista.

 

Það er í raun lýsandi fyrir áherslur Vinstri grænna og Samfylkingar að fyrst var stofnaður „vinnuhópur" um Evrópumálið en ekki málefni heimila og fyrirtækja. Reyndar veit ég ekki hvort sá hópur hefur enn tekið til starfa. Brýnasta mál dagsins er að mynda ríkisstjórn sem reiðubúin er að taka á vanda heimila og fyrirtækja. Aðild að erlendu ríkjabandalagi mun ekki leysa þau mál því það munu líða mánuðir og ár þangað til Ísland verður í stakk búið til slíkrar aðildar. Það er flótti frá aðsteðjandi vandamálum að halda öðru fram.

 

Fara þarf strax í aðgerðir og meðal þess sem hægt er strax að gera er að lækka vexti, semja við eigendur Jöklabréfa, ábyrgjast útflutning afurða og leiðrétta skuldir heimila og fyrirtækja um 20%. Þetta eiga að vera fyrstu mál nýrrar ríkisstjórnar því heimilin og fyrirtækin þurfa aðstoð strax. Í lokin má benda fjármálaráðherra á það, að skýrslu um stöðu íslensku bankanna má finna í herbergi einu í ráðuneyti hans. Hann ætti að kynna sér hana við hentugleik; ef tekst að brjóta kóðann.

 

- Gunnar Bragi Sveinsson.

Höfundur er þingmaður Framsóknarflokksins.

 

Atburðadagatal

« Janar 2022 »
S M Þ M F F L
            1
2 3 4 5 6 7 8
9 10 11 12 13 14 15
16 17 18 19 20 21 22
23 24 25 26 27 28 29
30 31