Tenglar

21. nóvember 2012 |

Svona gerist þetta

Einar K. Guðfinnsson.
Einar K. Guðfinnsson.

Einar Kristinn Guðfinnsson alþingismaður skrifar

 

Margar og brattar brekkur mæta okkur, þegar unnið er að því að setja niður opinber störf á landsbyggðinni. En leiðin er ólíkt greiðari þegar stofnað er til slíkra starfa á höfuðborgarsvæðinu. Það gerist með næsta sjálfvirkum hætti. Þetta er gömul saga og ný og endurtekur sig með fullum krafti þessi dægrin. Ég ætla hér að segja frá tveimur dæmum. Hvorug þeirra eru stór. Hvorug þeirra skipta sköpum í búsetuþróuninni, en þau bera þróuninni glöggt vitni.

 

 

Eftirlit með eftirlitinu – á höfuðborgarsvæðinu

 

Hið fyrra snýr að eftirliti með innfluttum lækningatækjum, en velferðarráðherra hefur flutt um það þingmál sem nú er til meðferðar á Alþingi. Með því er átt við allt mögulegt; allt frá innflutningi heftiplástra, dömubinda og bleyja upp í hinn flóknasta tækjabúnað fyrir sjúkrastofnanir. Enginn slíkur búnaður er fluttur inn hingað til lands nema honum fylgi sérstök vottun, svo kölluð CE-merking, til marks um að hann hafi hlotið blessun eftirlitsstofnana Evrópusambandsins.

 

Núna er ætlunin að setja á laggirnar viðurhlutamikla skráningu, ofan á það eftirlit sem er úti í Evrópu. Ekki er ætlunin að framkvæma neins konar eftirlit af okkar hálfu, enda óvinnandi vegur, nema með ærnum tilkostnaði. Hins vegar er fyrirhugað að skrá nafn innflytjanda til þess að geta rakið innflutningssögu búnaðarins. Gjald til þessa verður lagt á þennan innflutta búnað til þess að standa straum af kostnaði við skráninguna, sem auðvitað hækkar svo verð á þessum innfluttu lækningatækjum.

 

Hvort þetta er nauðsynlegt eður ei, er önnur saga og verður ekki rakin hér.

 

Verði þetta frumvarp á hinn bóginn samþykkt, mun það leiða til fjögurra nýrra starfa við Lyfjastofnun. Og hvar skyldi sú stofnun nú starfa? – Í Reykjavík vitaskuld. Hvað annað?

 

 

Sköpunarverkið kórónað

 

Annað dæmi. Í vor var samþykkt að leggja stórhækkað veiðigjald á útgerðir eins og við vitum. Útgerðarrekstur fer að langmestu leyti fram utan höfuðborgarsvæðisins, í stórum og smáum sjávarbyggðum allt í kring um landið. Þessi gjaldtaka mun því hafa í för með sér tilflutning á fjármunum frá sjávarútvegsfyrirtækjum sem starfa á landsbyggðinni og í ríkiskassann. Tölur segja okkur að þessi fjármunir verði að langmestu leyti eftir á höfuðborgarsvæðinu.

 

Til þess að halda utan um þessa nýju gjaldtöku þarf mikinn viðbúnað hjá Fiskistofu, sem er með höfuðstöðvar sínar í Hafnarfirði, en starfrækir allmörg útibú á landsbyggðinni. Þessi nýja atvinnustarfsemi verður þó vitaskuld í höfuðstöðvunum í Hafnarfirði.

 

Í fjáraukalögum fyrir yfirstandandi ár er gert ráð fyrir því að Fiskistofa fái nýjar fjárveitingar frá Alþingi upp á um 40 milljónir króna. Þetta er ekki eins skiptis kostnaður, heldur varanlegur viðbótarkostnaður, sem talinn er nauðsynlegur vegna utanumhalds af völdum veiðigjaldsins. Í greinargerð meirihluta fjárlaganefndar er sagt að til þessa verkefnis þurfi að ráða fjóra nýja starfsmenn – að minnsta kosti. Sem sagt: Það er gefið undir fótinn með að mögulega þurfi að auka þennan starfsmannafjölda, þegar fram í sækir.

 

Það má segja að þarna sé sköpunarverkið kórónað. Fyrst eru atvinnufyrirtækin - aðallega á landsbyggðinni - rukkuð um stórfellt veiðigjald til ráðstöfunar í gegnum ríkissjóð, til reksturs og fjárfestingar sem að langmestu leyti skilar sér inn á höfuðborgarsvæðið. En afleiðingin af þessu öllu er síðan atvinnusköpun á höfuðborgarsvæðinu, vegna eftirlitsins!

 

 

Byggðastefna með öfugum formerkjum

 

Ef þessi nýju eftirlitsstörf, sem hér að framan hefur verið lýst, hefðu verið sett niður utan höfuðborgarsvæðisins, þyrfti ekki að spyrja að nafngiftinni. Þetta hefðu menn kallað byggðastefnu. En þessi störf verða hins vegar til á höfuðborgarsvæðinu, að því er virðist án frekari umhugsunar. Þetta er því eins konar byggðastefna, með öfugum formerkjum.

 

Ég spurði formann fjárlaganefndar um þessi mál er að Fiskistofu snúa, þegar málið kom til umræðu á Alþingi í síðustu viku. Hann hafði góð orð um að kanna málið, sem er gott og blessað. Vandinn er hins vegar sá að lögin um hin nýju veiðigjöld eru komin til framkvæmda og þeirri framkvæmd er nú þegar sinnt úr höfuðstöðvum Fiskistofu. Það er sem sagt of seint um rassinn gripið. Og hvað varðar skráningu lækningatækjanna, þá er beinlínis gert ráð fyrir að sú starfsemi fari fram í Reykjavík.

 

Þannig malar kerfið. Hljótt en örugglega og allt í sömu áttina. Þetta eru bersýnilega hinir nýju vaxtarbroddar í atvinnulífinu, sem menn státa sig af.

 

 

Vegið að Fjölmenningarsetrinu

 

Á sama tíma og þetta er allt að gerast, samþykktum við lög um starfsemi Fjölmenningarseturins á Ísafirði. Þetta var mikilvægur áfangi í starfi þessarar mikilvægu, litlu, en vel reknu stofnunar, sem var sett á laggirnar á sínum tíma, að frumkvæði okkar þingmanna þáverandi Vestfjarðakjördæmis fyrir um áratug síðan.

 

En eftirtektarvert var að þegar málið kom nú í haust til umfjöllunar í velferðarnefnd Alþingis, þar sem ég á sæti, komu á fund okkar fulltrúar Reykjavíkur, höfuðborgarinnar. Þeir áttu eitt erindi við okkur. Þeirra erindi var að krefjast þess að þessi góða stofnun, yrði flutt frá Ísafirði. Töldu fulltrúar Reykjavíkurborgar, „nauðsynlegt að starfsemi Fjölmenningarseturs eða a.m.k. ráðgjöf til innflytjenda um réttindi þeirra og skyldur sé staðsett á höfuðborgarsvæðinu“ eins og orðrétt segir í umsögn þeirra.

 

Þannig birtist veruleikinn okkur. Baráttan fyrir því að opinber störf séu staðsett utan höfuðborgarsvæðisins er sífelld og ströng. Kerfið malar hins vegar allt í hina áttina. Opinber störf eru sett niður með býsna sjálfvirkum hætti á höfuðborgarsvæðinu, án þess að menn fái þar rönd við reist. Og jafnvel þau störf sem þegar hafa verið staðsett á landsbyggðinni eru í sífelldri hættu gagnvart kröfum um að leggja þau niður eða flytja þau burt af landsbyggðinni.

 

- Einar Kristinn Guðfinnsson, alþingismaður.

 

Skrifaðu athugasemd:


Atburðadagatal

« Ma 2022 »
S M Þ M F F L
1 2 3 4 5 6 7
8 9 10 11 12 13 14
15 16 17 18 19 20 21
22 23 24 25 26 27 28
29 30 31