Tenglar

15. apríl 2009 |

Steingrímur og Jóhanna á „trúnó“

Einar K. Guðfinnsson.
Einar K. Guðfinnsson.

Einar Kristinn Guðfinnsson skrifar:

 

Það hefur verið nokkuð fróðlegt að fylgjast með því hvernig ástir Steingríms J. Sigfússonar fjármálaráðherra og formanns VG og Alþjóðagjaldeyrissjóðsins IMF hafa þróast. Allt byrjaði þetta með miklum látum; jafnvel offorsi. Steingrímur hreytti ónotum í Alþjóðagjaldeyrissjóðinn þegar ákveðið var að leita eftir lánafyrirgreiðslu frá sjóðnum. Hann sagði í nefndaráliti þegar IMF-lánið var afgreitt: „Skilmálarnir sem hengdir eru í lánið eru jafnvel enn verri og meira eyðileggjandi fyrir íslenskt velferðarsamfélag til framtíðar. Það hefur margsannað sig víða erlendis að skilmálar sem þeir sem Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn boðar nú á Íslandi hafa dýpkað fjármálakreppur og gert þær verri í stað þess að leysa úr þeim.“

 

Og síðar segir hann: „Með samkomulagi þessu er skrifað undir þá staðreynd að það sé í raun Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn sem stjórni efnahagsáherslum Íslendinga á komandi árum.“

 

Það er því ekki að furða að hann hafi kallað þetta ógnarskilmála.

 

En smám saman upphófst nýr kapítuli í ástarsögunni. Í árdaga fjármálaráðherratíðar Steingríms J. greindi hann frá því að starfsmenn sjóðsins væru viðræðuhæfir og jafnvel bæði gott, gagnlegt og ánægjulegt við þá að tala. Kenndi augljósrar undrunar í rómnum þegar formaður Vinstrihreyfingarinnar græns framboðs sagði okkur þingmönnum þetta úr ræðustóli þingsins.

 

Og þetta samband hefur þróast. Steingrímur lætur nú senda margvíslegar upplýsingar um stöðu íslenska þjóðarbúsins og áform stjórnvalda vestur um haf og beint til þeirrar stofnunar sem hann forðum lýsti svo að gerði aðallega illt verra.

 

Þarna vestur í höfuðborg Bandaríkjanna sitja embættismenn og lesa sig til um hugrenningar Steingríms J. og Jóhönnu um hvernig málum skuli skipað í efnahagsmálum hér á landi. Hversu háa skatta almenningur skuli borga, hve mikið skuli skorið niður í velferðarmálum og vegamálum og öllum þeim málaflokkum sem fyrir niðurskurðarhníf þeirra verða. Alþingi sem að lokum mun svo samþykkja fjárlög næsta árs fær fátt að vita. Meðvitað er þess gætt að íslenskur almenningur frétti ekkert. Allt er unnið í reykfylltum bakherbergjum þar sem viðstaddir eru útvaldir ráðherrar og fulltrúar þeirrar stofnunar sem forðum var sagt að setti okkur ógnarskilmála.

 

Steingrímur J. Sigfússon og Jóhanna Sigurðardóttir kunna þessu verklagi vel. Þau eru í svo miklu trúnaðarsambandi við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn. Þau eru sem sé komin á trúnó!

 

- Einar Kristinn Guðfinnsson, alþingismaður.

 

Atburðadagatal

« Desember 2022 »
S M Þ M F F L
        1 2 3
4 5 6 7 8 9 10
11 12 13 14 15 16 17
18 19 20 21 22 23 24
25 26 27 28 29 30 31