Tenglar

29. ágúst 2013 | vefstjori@reykholar.is

Staðið verði við gefin loforð um kjör eldri borgara

 

Kjaramálaályktun LEB 22. ágúst 2013

 

Kjaranefnd Landssambands eldri borgara (LEB) krefst þess að eldri borgarar njóti sömu kjara og samið verður um á almennum vinnumarkaði í viðræðum aðila vinnumarkaðarins sem eru framundan.

 

LEB bendir á þær miklu hækkanir sem forstöðumenn ríkisstofnana hafa fengið með ákvörðun Kjararáðs nú í sumar og eru jafnvel afturvirkar. Ekkert hefur heyrst um að þær hækkanir muni auka verðbólgu. Hins vegar heyrast þær raddir strax og rætt er um almennar kauphækkanir og kjör eldri borgara.

 

Við hvetjum verkalýðshreyfinguna að standa fast á þeim kröfum sem lagðar verða fram og jafnframt að þær verði afturvirkar eins og hjá forstöðumönnum ríkisstofnana. Einnig má benda á ótæpilegar hækkanir á launum hjá einkaaðilum og launaskrið í bönkunum þar sem svo virðist að sami háttur verði hafður á og kenndur er við árið 2007.

 

Kjaranefnd LEB lýsir yfir ánægju með þær breytingar sem gerðar voru á kjörum eldri borgara með lagasetningu í sumar, en telur þær ná alltof skammt; aðeins byrjunarskref!

 

Kjaranefndin hvetur ríkisstjórnina til að standa við gefin loforð um lagfæringu á kjörum eldri borgara og að þær skerðingar sem settar voru á árið 2009 verði allar dregnar til baka.

 

Eldri borgarar eiga enn eftir að fá bætta þá kjararýrnun sem varð á síðustu 4 árum og eiga því inni 20% hækkun eftirlauna. Við vekjum sérstaka athygli á því að það er stór hópur aldraðra sem býr undir fátæktarmörkum og á í miklum vanda að ná endum saman. Brýnt er að taka á því sem allra fyrst.

 

Mikil vinna var lögð í að endurskoða lög um almannatryggingar sem átti sér stað með aðkomu eldri borgara sl. 2 ár. Í stjórnarsáttmála nýrrar ríkisstjórnar er fyrirheit um að endurmeta það starf. Landssamband eldri borgara er reiðubúið til vinnu við að fara yfir mögulegar breytingar á almannatryggingum með hag eldri borgara að leiðarljósi.

 

Þá bendum við á að samræma þarf þau réttindi sem fólk ávinnur sér í lífeyrissjóðum og vinna að sameiningu lífeyrissjóða til að ná fram enn frekari hagræðingu. Standa þarf vörð um lífeyriskerfið, sem er eitt það besta í heimi.

 

Lyfjaverð er mismunandi eftir verslunum og getur þar munað allt að 62%. Eldri borgarar eru einn stærsti hópur lyfjakaupenda og því brýnt að vinna gegn slíkum mismun. Í mörgum sveitarfélögum er ekki hægt að vísa í eðlilega samkeppni þar sem er aðeins ein lyfjaverslun.

 

Þá bendum við enn og aftur á að það væri mikil kjarabót að því að lækka virðisaukaskatt á lyfjum úr 25,5% í 7%. Dæmi eru um að sælgætisvörur séu með 7% virðisaukaskatti í lyfjaverslunum en lyfin með 25,5%. Slík skattlagning brýtur í bága við manneldismarkmið!

 

Tölverður hópur fólks hefur ekki getað leyst út lyfin sín eftir breytingar á lyfjareglum Sjúkratrygginga Íslands og einungis tekið út hluta þeirra.

 

Miklar verðhækkanir hafa áhrif á stöðu eldri borgara og því er brýnt að flýta því að lagfæra kjör þeirra á þessu hausti.

 

F.h. Kjaranefndar LEB,

Þórunn Sveinbjörnsdóttir, formaður.

 

Skrifaðu athugasemd:


Atburðadagatal

« Ma 2022 »
S M Þ M F F L
1 2 3 4 5 6 7
8 9 10 11 12 13 14
15 16 17 18 19 20 21
22 23 24 25 26 27 28
29 30 31