Tenglar

17. apríl 2013 | vefstjori@reykholar.is

Hvaða ráð eru til viðreisnar á Vestfjörðum?

Vestfjarðalistinn bendir á, að alþingismenn ættu að taka sér Jón Sigurðsson til fyrirmyndar og læra af honum þinglega framkomu, kurteisi og vinnusemi.
Vestfjarðalistinn bendir á, að alþingismenn ættu að taka sér Jón Sigurðsson til fyrirmyndar og læra af honum þinglega framkomu, kurteisi og vinnusemi.

 

Vestfjarðalistinn kveður sér hljóðs

 

Þegar umræður standa sem hæst um landsins gagn og nauðsynjar viljum við undirritaðir blanda okkur lítillega í þær og benda á nokkur atriði til umhugsunar fyrir Vestfirðinga og vini þeirra, ekki síst þá sem eru að bjóða sig fram til þjónustu. Vestfirðingar berjast nú fyrir tilveru sinni. Ef þeir standa saman, þá stenst ekkert fyrir þeim heima fyrir. Þeir eru þar sjálfir í lykilstöðu. Svo einfalt er það. Okkur finnst að grundvöllurinn sé að Vestfirðingar fái að bjarga sér sjálfir. Við erum ekki að heimta auknar fjárveitingar úr ríkissjóði, en bendum á að stjórnvöld þurfa að búa nokkuð í haginn með markvissari hætti en verið hefur um sinn.

 

Fyrir hönd Vestfjarðalistans.

- Hallgrímur Sveinsson,

- Bjarni Georg Einarsson,

- Guðmundur Ingvarsson.

 

 

Á heimaslóðum

 

 

Sjávarútvegur

 

Gefa ætti krókaveiðar frjálsar á minni bátum þegar þeim hentar. Úthluta til dæmis 1.000 tonna frumbyggjarétti í ýmsum tegundum til valinna staða hér vestra og láta sjá hvort slíkt hefði ekki heillavænleg áhrif á viðkomandi byggðarlög. Þetta yrðu að sjálfsögðu sértækar aðgerðir, en aðrir staðir sem eru í svipaðri aðstöðu gætu komið á eftir.

 

Sjómenn, fiskvinnslufólk, fiskverkendur og útgerðarmenn sem lögheimili eiga á viðkomandi stöðum verða að koma sér saman um framkvæmd veiðanna og vinnslu afurðanna samkvæmt reglum sem settar yrðu. Geti þeir það ekki falli veiðiheimildin niður. Það þýðir að menn verða að þjappa sér saman. Þessar aflaheimildir verði ekki framseljanlegar.

 

Þetta verði alls ekki kallað byggðakvóti né strandveiðar heldur frumbyggjaréttur eins og áður segir. Algjört skilyrði er að þessi afli verði unninn í viðkomandi veiðistöð þar sem honum er landað.

 

 

Landbúnaður

 

Hlynna verður að þeim bændum og búaliði sem fyrir eru í búskap á Vestfjörðum með ýmsum ráðum. Hlusta þarf fyrst á þeirra sjónarmið og gera svo allt sem hægt er til að framkvæma skynsamlega hluti. Það skilar sér örugglega. Stjórnvöld þurfa að hlusta á þessa kalla. Bændur og sjómenn eru salt jarðar.

 

Ríkisjarðir á Vestfjörðum sem ekki eru nýttar í dag verði auglýstar lausar til ábúðar eða notkunar í ýmsu atvinnuskyni. Stjórnvöld beiti sér einnig ákveðið fyrir því að jarðir í einkaeign, sem ekki eru í notkun, verði nýttar á ýmsan markvissan hátt. Kemur þar margt til greina sé rétt að staðið.

 

Gunnlaugur Sigurjónsson, fiskeldisbóndi á Bakka í Dýrafirði, sannprófaði og notaði til þess ellistyrkinn sinn meðal annars, að hægt er með ótrúlegum árangri að rækta bleikju og regnbogasilung í hinu ískalda vestfirska vatni sem hvarvetna rennur lítt notað til sjávar. Hér gæti orðið um vistvæna vestfirska stóriðju að ræða ef menn vilja. Flettið bara Bændablaðinu og sjáið þar ótal dæmi um alla þá grósku og tækifæri sem felast í sveitum þessa lands.

 

Hvað sagði ekki Jón Sigurðsson 1838: „Sérhverri þjóð vegnar vel sem hefir lag á að sjá kosti lands síns og nota þá eins og þeir eiga að vera notaðir.“ Tækifærin blasa við öllum sem vilja sjá. En það þarf að opna landið fyrir fólki og veita því aðgang að „þolinmóðu“ fjármagni. Vilji er allt sem þarf í því efni sem mörgu öðru.

 

 

Vestfjarðasjóðurinn

 

Settur verði á laggirnar trygginga- og fjárfestingasjóður, Vestfjarðasjóðurinn, með allt að 20 milljarða stofnfé. Hann verði hugsaður sem mótvægi við uppákomur og upphlaup í atvinnulífi á Vestfjörðum sem sífellt eru í gangi. Sannleikurinn er sá, að það er á allan hátt miklu heilbrigðara að styðja fólk til sjálfshjálpar og gera það ábyrgt gerða sinna heldur en færa því nokkrar krónur í gustukaskyni öðru hvoru.

 

Það er vitað mál að í öllum byggðakjörnum á Vestfjörðum og meira að segja í sveitunum líka, þó fámennar séu orðnar, eru íbúar sem hafa frumkvæði, kraft og þor en vantar ekkert nema afl þeirra hluta sem gera skal. Lítil fjölskyldufyrirtæki hafa alls staðar verið til gæfu fyrir þjóðlöndin. Það er einnig vitað mál að það er til nóg af peningum í landi voru.

 

Módelið að Vestfjarðasjóðnum er þegar fyrir hendi. Það er Íbúðalánasjóður. Þó svo að sá sjóður sé ekki í góðum málum í dag má það ekki villa mönnum sýn. Vestfjarðasjóðurinn myndi byrja með hreint borð og með nýjum áherslum. Það þykir kannski há upphæð, 20 milljarðar. En er það svo ef grannt er skoðað? Að sjálfsögðu er fráleitt að ætla að hún komi til útborgunar á einum degi. Allt hefur sinn tíma. En hér duga ekki vettlingatök.

 

Hvers konar sjóður? 

 1. Vestfjarðasjóðurinn hafi það hlutverk að tryggja og styðja við atvinnurekstur á Vestfjörðum, hverju nafni sem nefnist, stóran sem smáan. Ríkissjóður verði eigandi og bakhjarl Vestfjarðasjóðsins og semur við til þess hæfan aðila að sjá um rekstur hans og stjórn samkv. reglugerð. Vel mætti hugsa sér að Vestfjarðasjóðurinn yrði í upphafi sjálfstæð deild í Íbúðalánasjóði. Þar er reynslan og trúlega ekki miklar lánveitingar til Vestfjarða þessi árin til íbúðabygginga.
 2. Stofnfé sjóðsins verði 20 milljarðar króna. Til að fjármagna sjóðinn skal bjóða út skuldabréfalán hjá bönkum landsins, lífeyrissjóðum og öðrum aðilum líkt og Íbúðalánasjóður gerir. Athugað verði hvort hið þrautreynda 200 ára danska kerfi henti ekki Vestfjarðasjóðnum: Með hverju láni sem veitt er skal gefa út annað skuldabréf til fjárfesta með sömu skilmálum. Þá er alltaf jafnvægi milli útgefinna lána og útgefinna skuldabréfa. Engin vaxtaáhætta, aðeins vanskila- og afskriftaáhætta. Ábyrgðinni verði skipt milli aðila.
 3. Sjóðurinn veitir lán með veði í eignum viðkomandi fyrirtækja. Heimilt er að veita lán til smáfyrirtækja jafnvel þó þau hafi engin veð önnur en frumkvæði, kjark og þor. Bannað verði að veita lán út á íbúðarhús viðkomandi. Heimilt er að láta hluta af lánum sjóðsins vera víkjandi lán.
 4. Lánin verði veitt til eins margra ára og þurfa þykir. Lántakendur hafi val um hvort lán þeirra eru verðtryggð eða óverðtryggð. Eins hafi þeir nokkurt val um það hvenær afborganir hefjast. Vextir verði eins og þeir gerast hjá Íbúðalánasjóði á hverjum tíma. 

 

Vestfjarðaráðherra

 

Nú þurfa menn að bræða með sér hvort ekki sé rétt að sérstakur ráðherra, Vestfjarðaráðherra, fari með málefni Vestfirðinga í ríkisstjórn, í nánu samráði við heimamenn, meðan verið er að snúa vörn í sókn og koma í veg fyrir að örlög Hornstranda færist yfir fjórðunginn. Til vara má benda á að Umboðsmaður Vestfjarða, með því nafni, kæmi hugsanlega einnig til greina ef ráðherrann stæði í mönnum. En sá umboðsmaður yrði að hafa völd og vinna í samráði við heimamenn.

 

Eins og er virðist enginn hafa heildaryfirsýn yfir málefni Vestfjarða þótt ótrúlegt sé eftir allar skýrslurnar. Hér duga ekki smáskammtalækningar liðinna ára heldur markviss vinnubrögð.

 

 

Á landsvísu

 

 

Alþingi

 

Það er algjör þjóðarnauðsyn að stytta ræðutíma alþingismanna svo að einstaka flokkar og þingmenn geti ekki haldið þinginu í gíslingu ef þeim sýnist svo. Þetta endalausa blaður sem tíðkast á löggjafarsamkomunni er íslensku þjóðinni til skammar og algjörrar óþurftar. Þingmenn lesa jafnvel heilu bókakaflana úr ræðustól þingsins til að tefja fyrir málum. Það verður að breyta þessum vinnubrögðum.

 

Vandi okkar er heimatilbúinn að verulegu leyti. Atkvæðahræðsla alþingismanna og þar af leiðandi máttleysi Alþingis á þar stóran hlut að máli. Alþingismenn ættu að taka sér Vestfirðinginn Jón Sigurðsson til fyrirmyndar og læra af honum þinglega framkomu, kurteisi og vinnusemi. Fækka þarf þingmönnum niður í 40 að minnsta kosti.

 

 

Opinber rekstur

 

Munum lögmál Parkinsons: Staðreyndin er sú, að ekkert samband er á milli fjölda embættismanna og vinnuafkasta. Starfsmannafjölgun fer eftir lögmáli Parkinsons og mundi verða svo til óbreytt, hvort sem heildarmagn vinnunnar ykist, minnkaði eða yrði jafnvel ekki neitt.

 

Því fleiri embættismenn, þess lakari stjórnsýsla? Getur það verið?

 

Hverjum var verið að borga, hve mikið og fyrir hvað?

 

Fjármálaráðherra skýri frá því hispurslaust mánaðarlega, sundurliðað eftir stofnunum, hverjum var verið að borga úr ríkissjóði, hve mikið og fyrir hvað. Opinbera eftirlitskerfið bregst alltof oft því hlutverki sínu að fylgjast með hvað er að gerast í ríkisfjármálum, er oft algjörlega úti að aka. Og sumir ganga um ríkiskassann eins og hann sé þeirra heimilisbudda.

 

Nú þarf að virkja almenning til aðstoðar. Til þess þarf hann aðgang að upplýsingum eftir hendinni. Þá munu þeir sem hafa með ríkisfjármuni að gera hugsa sig um tvisvar áður en þeir falla í freistni. Það verður engin sátt með þjóðinni fyrr en leyndarhyggju og launung verður aflétt í þessum efnum.

 

 

Þeir sem eru svangir og eiga engan að

 

Velferðarráðherra skal gerður ábyrgur fyrir því að þeir sem eiga ekki til hnífs og skeiðar fái aðstoð, en fram að þessu höfum við ekki alltaf getað fundið þetta fólk. Sumir eru stoltir og vilja ekki biðja um aðstoð að fyrra bragði. Ráðherrann virkjar frjáls félagasamtök sér til aðstoðar eins og Rauða krossinn, Heimilishjálpina, Mæðrastyrksnefnd, Hjálpræðisherinn, Vernd og Hjálparstofnun kirkjunnar. Mottóið á að vera að enginn þurfi að líða skort. Fulltrúar áðurnefndra samtaka fylgist með því að þetta markmið náist. Hjálpa svo fólki til sjálfshjálpar.

 

Ekkert, hvorki hús, bíll, vegur, símtæki, sjónvarpsrás, utanlandsferð eða veisla, er eins þýðingarmikið og maðurinn sjálfur. Tinandi gamalmenni og börn sem búa við skelfilegar aðstæður heima fyrir og fólk sem er sannanlega öryrkjar hljóta að hafa forgang hjá okkur. Og þá meinum við að þau eigi að ganga fyrir. 

 • Við erum öll ein stór fjölskylda og eigum að vera góð hvert við annað.
 • Við verðum að forgangsraða. Vandi okkar er heimatilbúinn að mestu leyti.
 • Við verðum að hætta að bruðla.
 • Við verðum að jafna lífskjörin. Við eigum nóg af öllu þegar á heildina er litið.
 • Við verðum að þora að spyrja óþægilegra spurninga. Það vantar meiri ábyrgð í íslenskri stjórnsýslu.
 • Við verðum að hætta þessari sífelldu togstreitu milli höfuðborgar og landsbyggðar. Hvorugt getur án hins verið.
 • Við verðum að gæta þess að týna ekki sjálfum okkur í eigin landi.

___________________________________

 

„Vestfjarðalistinn“ er ekki formlegt stjórnmálaafl heldur innlegg í umræðuna. Ofanritað er fyrst og fremst ætlað sem frumkvæði, ábendingar og hugmyndir heimamanna til skoðanaskipta.

 

Skrifaðu athugasemd:


Atburðadagatal

« Jn 2022 »
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30