Tenglar

8. mars 2016 |

Full ástæða til bjartsýni

Einar Kristinn Guðfinnsson.
Einar Kristinn Guðfinnsson.

Einar K. Guðfinnsson, forseti Alþingis og þingmaður NV-kjördæmis:

 

Full ástæða er til bjartsýni eftir upplýsandi og fróðlegan fund um framtíðarsýn raforkumála á Vestfjörðum, sem haldinn var í Edinborgarhúsinu á Ísafirði í gær. Fram kom almenn samstaða um að vinna að framgangi virkjanakosta. Og athyglisvert er, að svo virðist sem þeir möguleikar til virkjana sem næstir eru okkur í tíma séu býsna óumdeildir. Það er auðvitað ekki sjálfsagt að svo sé þegar um virkjanamál er að ræða, eins og við þekkjum, og er því mikið fagnaðarefni.

 

Eins og öllum er ljóst er staðsetning svokallaðs tengipunkts algjört lykilatriði og mun ráða úrslitum um þær virkjanir sem helst er rætt um, Hvalárvirkjun og Austurgilsvirkjun, og gegnir sama máli almennt um aðra þá virkjanakosti sem einnig hafa verið til umræðu. Það var því fagnaðarefni að á fundinum kom fram í máli þeirra sem um þessi mál véla, að allt stefni í þá átt að tengipunkturinn verði skilgreindur í innanverðu Ísafjarðardjúpi, í samræmi við óskir heimamanna.

 

Afdráttarlaus orð iðnaðarráðherra

 

Í þessu sambandi er ástæða til þess að vekja athygli á orðum iðnaðarráðherra, Ragnheiðar Elínar Árnadóttur, við upphaf fundarins á Ísafirði, en þar sagði hún meðal annars:

 

„Sem kunnugt er hefur Hvalárvirkjun verið í nýtingarflokki Rammaáætlunar frá því að fyrsta Rammaáætlun var afgreidd á Alþingi í byrjun árs 2013. Sú niðurstaða var á sínum tíma óumdeild, og er að ég tel enn í dag, og í rökstuðningi verkefnisstjórnar Rammaáætlunar frá þeim tíma kemur fram að þetta sé eini virkjunarkosturinn á Vestfjörðum sem metinn var af öllum faghópum og að „virkjun á Vestfjörðum skiptir miklu máli fyrir orkuöryggi þar“.

 

Hugmyndir um hringtengingu á Vestfjörðum hafa verið til skoðunar í áðurnefndri Vestfjarðanefnd um orkumál. Á fundi nefndarinnar 17. nóvember sl. var farið yfir nýjar hugmyndir um hringtengingu og tengingu Hvalárvirkjunar við flutningskerfið. Sá vendipunktur hefur orðið í málinu, að nú ganga hugmyndirnar út á það að nýr tengipunktur við Landsnet, þ.e. afhendingarstaður raforku, verði settur upp innst í Ísafjarðardjúpi. Við það myndast fjárhagslegar forsendur fyrir að fara út í Hvalárvirkjun í Ófeigsfirði og tvær minni virkjanir á heiðinni, Skúfnavatnsvirkjun og Austurgilsvirkjun.

 

Fram til þessa hafa þessar virkjanir ekki verið fjárhagslega tækar vegna mikils tengikostnaðar og kerfisframlags sem miðast við að tengipunkturinn við flutningskerfið yrði í Geiradal. Við það að setja upp tengipunkt í innanverðu Ísafjarðardjúpi fer tengikostnaður virkjunarinnar úr um 2.000 m.kr. í um 500 m.kr. og virkjunarframkvæmdin stendur fjárhagslega undir sér.

 

Tengipunktur innst í Ísafjarðardjúpi breytir því öllum forsendum bæði varðandi Hvalárvirkjun og hringtengingu á Vestfjörðum.

 

Landsnet hefur, að því er mér skilst, tekið vel í þessa hugmynd og er með það mál núna til nánari skoðunar.“

 

Orkuöryggi og atvinnuuppbygging

 

Við þetta er því að bæta, að frá sjónarmiði heimamanna skiptir tvennt miklu máli í þessu sambandi:

 

Í fyrsta lagi það sem ráðherrann segir um orkuöryggið og kom raunar fram í máli flestra framsögumanna á fundinum, sem lögðu áherslu á hringtengingu rafmagns. Ljóst er að með staðsetningu tengipunkts innst í Djúpinu er stigið sannarlega stórt skref í þá átt. Nákvæm útfærsla á hringtengingunni er nú í faglegri athugun. Annað atriði er nauðsynlegt að undirstrika. Það er að við getum nýtt þá orku sem framleidd verður á Vestfjörðum í þágu atvinnusköpunar í sátt við umhverfið og annað atvinnulíf á svæðinu.

 

Ekki komin á leiðarenda – en ástæða til bjartsýni

 

Þó sannarlega sé það rétt að við erum ekki komin á leiðarenda í þessu máli er ekki annað hægt að segja en að mál hafi þokast vel áfram veginn á allra síðustu misserum. Umtalsverðir virkjanakostir eru í undirbúningi, rannsóknir standa yfir sem gefa jákvæðar vísbendingar og niðurstöður. Fjárfestar eru komnir að verkefninu. Allt stefnir í að með staðsetningu tengipunkts verði þessar virkjanaframkvæmdir arðbærar og framleiði rafmagn langt umfram núverandi þarfir Vestfirðinga. Möguleikar eru því að opnast á að laða hingað viðbótar atvinnustarfsemi sem getur snúið við neikvæðri byggðaþróun.

 

– Einar K. Guðfinnsson, forseti Alþingis og þingmaður NV-kjördæmis.

 

Athugasemdir

Vestfirðingur, sunnudagur 19 jn kl: 22:56

Vissulega er fyrirhuguð virkjun til stórbóta en bara fyrir norðurfirðina.
Á meðan aðeins ein veik flutningslína er til suðurfjarðanna er engin úrbót þar.
Það er nærtæk lausn sem myndi bæta stórkostlega úr fyrir suðurhlutann að virkja Vatnsdalsána framan við vatnið.
Það er til gróf hönnun á 30 MW virkjun þar sem tengdist Mjólkárlínu fyrir norðan 90% af truflunum sem hafa orðið á henni gegnum árin.
Svo kæmi líka 60 KV lína til Patreksfjarðar með aðveitustoð á Krossholtunum, þá er kominn ágætis 60 Kv hringur um suðurfirðina, og þar með afhendingaröryggið stórbætt.

Og síðast en ekki síst það kæmi góður vegur framfyrir vatn og þar yrði útivistarparadís fyrir þessa graslausu sem hafa hæst.

Skrifaðu athugasemd:


Atburðadagatal

« Ma 2022 »
S M Þ M F F L
1 2 3 4 5 6 7
8 9 10 11 12 13 14
15 16 17 18 19 20 21
22 23 24 25 26 27 28
29 30 31