Tenglar

1. janúar 2013 |

Félagsvist eða framsóknarvist?

Hlynur Þór Magnússon:

 

Áðan þegar umsjónarmaður þessa vefjar var beðinn um að segja frá félagsvist í Tjarnarlundi datt honum í hug að leita í fljótheitum í blöðum (timarit.is) að fyrstu dæmum um nafngiftirnar framsóknarvist og félagsvist, sem báðar hafa verið notaðar um þessa spilamennsku. Löngum hefur því verið trúað, að nafngiftin félagsvist hafi verið fundin upp af pólitískum ástæðum, ef svo má segja. Kannski er eitthvað til í því.

 

Íþrótt þessi nefnist á ensku Progressive Whist, sem í beinni þýðingu útleggst framsóknarvist. Ástæða þeirrar nafngiftar er sú, að þátttakendur leitast við að sækja fram í spilamennskunni, komast á næsta borð hverju sinni - reyna að vera í stöðugri framsókn. Framan af var orðið framsóknarvist notað hérlendis en fljótlega var líka farið að tala um félagsvist og munu báðar nafngiftirnar hafa verið notaðar jöfnum höndum um skeið.

 

Svo er að sjá að framsóknarvistin hafi haldið innreið sína á Íslandi um miðjan fjórða áratug síðustu aldar. Reyndar virðist sem framsóknarmenn hafi verið þar í fararbroddi, hvort sem nafngiftin hefur valdið þar einhverju eða ekki.

 

Á þessum tíma voru Íhald og Framsókn turnarnir tveir í íslenskri pólitík (það er svo gaman að nota klisjur, sérstaklega ef þær eru nógu svakalega útþvældar). Sagt hefur verið, hvort sem það er þjóðsaga eða ekki, að sjálfstæðismönnum hafi þótt hábölvað að spila „framsóknarvist“ hjá hinum og þessum félögum við hin og þessi tækifæri. Þess vegna hafi þeir fundið upp orðið félagsvist.

 

Ekki finnast dæmi um nafngiftina „íhaldsvist“ til mótvægis við framsóknarvist enda hefði þá markmiðið samkvæmt orðsins hljóðan verið að sitja sem fastast við sama borð í spilamennskunni. En það er öðru nær.

 

Elsta dæmið um orðið framsóknarvist sem hérritandi fann er í háðblaðinu Speglinum 4. maí 1935. Þar segir: 

  • Ýmsir hafa beint fyrirspurnum til vor um það, hverskonar spil „Framsóknarvist“ sje, sú sem spiluð er á mjólkurkvöldum og sjálfsagt oftar. Hafa fagmenn tjáð oss, að þetta muni vera hundvist, og víst er um það, að ekki er neitt val í henni. 
  • Mjólkurkvöld Framsóknarmanna eru ekki haldin til að eyða óseljanlegri mjólk, heldur af eftirfarandi ástæðum, sem teknar eru úr Nýja Dagblaðinu: 
  • „Mjólkin er þjóðardrykkur Íslendinga. Fjöldi Íslendinga á hreysti sína mjólkinni að þakka. Þó hefir þjóðin varla enn til fulls lært að meta kosti mjólkurinnar að verðleikum. Það þarf að verða og verður að gerast með breyttum lífsvenjum og samkvæmisháttum. Mjólkurkvöldin eru spor í þá átt. Framsóknarmenn skilja öðrum betur nauðsyn baráttunnar fyrir aukinni mjólkurneyzlu og munu því fjölmenna á mjólkurkvöldið, sem Fjelag ungra Framsóknarmanna heldur í Iðnó í kvöld.“ 
  • Oss finnst þetta svo vel mælt, að vjer verðum að prenta það í heild.

 

Næsta dæmi sem fannst er einmitt í Nýja dagblaðinu 13. apríl 1937. Þar er auglýsing frá Framsóknarfélögunum í Reykjavík um skemmtifund sem hefjast skal á „Framsóknarwhist“.

 

Tæpu ári síðar eða 19. janúar 1938 getur að líta næsta dæmið og líka í Nýja dagblaðinu. Þar segir frá skemmtisamkomu Félags ungra framsóknarmanna, sem hefjast muni á hinni vinsælu Framsóknarvist. Önnur skemmtiatriði á samkomunni eru ræður um baráttumál flokksins.

 

Elsta dæmið um félagsvist sem skrifari fann er í Vísi 20. nóvember 1940. Þar er tilkynning um fund í Góðtemplarastúku nokkurri þar sem félagsvist er á dagskránni. Hugsanlega er þetta fyrsta opinbera dæmið um árangur Sjálfstæðisflokksins í pólitískri baráttu á vettvangi spilamennsku - eins konar sjálfstæðisbaráttu í þeim efnum.

 

Næstu árin finnast í blöðum ýmis dæmi um nafngiftina félagsvist. Þetta voru stríðsárin og hafa kannski líka verið stríðsár framsóknarvistar og félagsvistar. Trúlega hafa framsóknarmenn ekki verið einráðir í Breiðfirðingafélaginu, því að í Vísi 30. nóvember 1944 (á sjötugsafmæli Churchills) segir að skemmtiatriðin á skemmtifundi þess um kvöldið verði félagsvist og dans.

 

Eins og áður sagði fannst fyrsta dæmið um framsóknarvist í háðritinu Speglinum árið 1935. Þá kenningu að spilamennska þessi hafi haldið innreið sína á Íslandi um það leyti styður „Afmælisrolla“ í sama riti 1. febrúar 1954. Hún hefst á þessa leið: Framsóknarvist! Tvítug ertu nú orðin, já oft var fjörugt við borðin í framsóknarvist (sjá mynd nr. 5).

 

Á ofanskrifað ber ekki að líta sem fræðiritgerð!

 

h

 

Athugasemdir

Hrafnhildur Reynisdóttir, mivikudagur 02 janar kl: 11:57

Á mínum barnsárum í Gufudalssveit voru öðru hvoru haldnar samkomur á heimabækjum, samsætið var kallað Þorrablót. Ég man eftir slíkri samkomu á Eyri í Kollafirði og heima í Fremri-Gufudal, það var á árunum 1965-1970. Aðalatriði kvöldsins var spilamennska, þá var spiluð "framsóknarvist". Í útibúi Kaupfélagsins á Skálanesi voru seld skráningarspjöld fyrir framsóknarvistina.
Það var ekki fyrr en mörgum árum seinna að ég heyrði orðið "félagsvist" og einhver taldi mér trú um að heitið "framsóknarvist" ætti aðeins að nota þegar spilað væri á vegum Framsóknarflokksins!

Takk fyrir skemmtilegan fréttavef og óska íbúum Reykhólahrepps gleðilegs árs.
Kær kveðja, Hrafnhildur R.

Einar Gunnar Einarsson, fstudagur 12 jl kl: 14:23

Gaman að lesa þessa samantekt um framsóknarvistina. Kærar þakkir fyrir þetta.

Skrifaðu athugasemd:


Atburðadagatal

« Febrar 2023 »
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28