Tenglar

6. janúar 2016 |

Blússandi ójöfnuður eða blússandi góðæri?

Lilja Rafney Magnúsdóttir.
Lilja Rafney Magnúsdóttir.

Lilja Rafney Magnúsdóttir, þingmaður VG í NV-kjördæmi skrifar

 

Í upphafi árs lítum við yfir farinn veg og stígum á stokk og heitum á okkur sjálf að ná árangri í þeim verkefnum sem við erum að kljást við hverju sinni. Á Alþingi eru það fjárlögin sem endurspegla stefnu hverrar ríkisstjórnar og stjórnarandstaðan glímir við að ná fram breytingum á, í takt við stefnu sinna flokka. Stjórnarandstaðan lagðist öll á eitt við að ná fram leiðréttingu á kjörum aldraðra og öryrkja, en það fór sem fór. Ríkisstjórnin sýndi enn og aftur sitt rétta andlit og sannaði að hún þjónar fyrst og fremst efnafólki í landinu og vildi ekki koma til móts við kröfur aldraðra og öryrkja, og hafi hún skömm fyrir!

 

Heilu málaflokkarnir fjársveltir

 

Það er nú ekki eins og þarna séu á ferðinni fjárlög sem hægt er að hrópa húrra fyrir. Við vitum að núverandi ríkisstjórn býr við allt aðrar aðstæður en fyrrverandi ríkisstjórn, sem tók við afleiðingum efnahagshrunsins og lagði grunninn að þeim efnahagsbata sem nú er að skila sér. Nú hefði verið möguleiki á að vera með mikla innspýtingu í marga málaflokka, sem þurftu því miður að taka á sig skerðingar á síðasta kjörtímabili.

 

Það er löngu kominn tími á innviðauppbyggingu í samfélaginu og að tekið sé virkilega vel á í eflingu velferðarkerfisins. En því er ekki fyrir að fara. Heilu málaflokkarnir eru fjársveltir, svo sem heilbrigðis- og samgöngumál, byggða- og sóknaráætlanir, stuðningur við brothættar byggðir minnkar, aðför er gerð að menntun á landsbyggðinni með takmörkun á aðgengi að námi 25 ára og eldri í framhaldsskóla og dregið er úr jöfnun námskostnaðar.

 

Auknir fjármunir voru þó settir á lokametrunum í uppbyggingu háhraðatenginga á landsbyggðinni utan markaðssvæða og er það vel, en betur má ef duga skal ef þessu verkefni á að ljúka innan fárra ára, sem verður að gerast.

 

Aðförin að RÚV heldur áfram, og þó tekist hafi að fá skilyrta leiðréttingu á elleftu stundu, þá dylst engum að það er verið að mylja undan stofnuninni, sem á erfitt með að sinna menningar- og lýðræðishlutverki sínu.

 

Vandræðagangur og óleyst verkefni

 

Það vantar enn mikið upp á að búið sé að jafna orkukostnað í landinu. Mikill vandræðagangur er með að fjármagna það verkefni að fullu. Þó að vissulega hafi verið settir fjármunir í jöfnun húshitunar og í dreifingu á raforku, þá er enn langt í land að íbúar landsins sitji þar við sama borð. Enn vantar að minnsta kosti 200-300 millj. kr. á ári til þess að hægt sé að tala um jöfnuð.

 

Í Framkvæmdasjóð ferðamannastaða eru settir allt of litlir fjármunir miðað við þá miklu fjölgun ferðamanna sem orðið hefur undanfarin ár og verður áfram og kallar á mikla innviðauppbyggingu til að verja landið ágangi.

 

Húsnæðismálin eru enn óleyst og ríkisstjórnin kemur sér ekki saman um hvernig mæta eigi þeim mikla húsnæðisvanda sem blasir við, sérstaklega hjá ungu fólki og þeim efnaminni. Það vill oft gleymast, að margir staðir á landsbyggðinni glíma líka við húsnæðisskort. Víða er það vandamál að fólk sem vill setjast að úti á landi fær ekkert húsnæði og enginn treystir sér til þess að byggja, því að eignin er verðfelld um leið og fasteignamat liggur fyrir. Í þeim málaflokki liggja ekki fyrir neinar heildarlausnir. Nú er rúmlega hálfnað þriðja ár þessarar ríkisstjórnar og það eru allt of litlir fjármunir sýnilegir í þessi brýnu verkefni.

 

Árás á kjör barnafólks og þeirra efnaminni

 

Vaxtabæturnar eru skornar niður um 1,5 milljarða og barnabætur fylgja ekki verðlagi. Fæðingarorlofssjóður er sveltur. En ríkisstjórnin heldur áfram að gefa á garðann hjá þeim efnameiri og lækka á þá skatta.

 

Þá spyr maður sig: Hverjir eiga að standa undir velferðarkerfinu og skuldbindingum inn í framtíðina ef okkar kynslóð ætlar ekki að leggja sitt af mörkum miðað við efni og aðstæður? Það er verið að vinna gegn þrepaskiptu skattkerfi og leggja það niður í áföngum, fleiri skattþrep eru miklu sanngjarnari gagnvart þeim tekjuminni. Eflaust hefði mátt endurskoða eitthvað prósentutöluna í því þrepaskipta skattkerfi sem komið var á á síðasta kjörtímabili og einnig bilið á milli þrepa. En fækkun þrepa þýðir bara eitt; það eru lægri skattar á þá efnameiri.

 

Ríkisstjórnin forgangsraðar í þágu ríka fólksins

 

Ríkisstjórnin hefur frá því að hún tók við völdum afsalað sér tekjum allt að 45 milljörðum í formi skatta, auðlegðarskatts, orkuskatts, veiðigjalda, vörugjalda og tolla sem taka eiga gildi nú um næstu áramót í tveimur áföngum. En við skulum heldur ekki gleyma því að þessi ríkisstjórn hækkaði matarskattinn svo um munaði, úr 7% í 11%, og lagði þar með þungar álögur á almenning.

 

Ýmiss konar beinn kostnaður hjá almenningi er aukinn, bæði í heilbrigðis- og menntakerfinu. Það er gamalkunnur leikur hægri manna að tala fyrir lágum sköttum en íþyngja svo almenningi með beinum þjónustugjöldum sem koma verst niður á þeim tekjuminni. Tryggingagjaldið er lækkað sáralítið, en lækkun þess hefði ýtt undir fjölgun starfa og ætti að lækka í takt við minna atvinnuleysi.

 

Hægri menn tala fjálglega um að fólkið eigi að ráðstafa tekjum sínum sjálft og að skattar séu af hinu vonda. En ég tel að fólkið í landinu geri kröfu til jöfnuðar, til öflugs heilbrigðiskerfis og menntakerfis, góðra samgangna og góðra fjarskipta. Til þess þarf fjármuni. Einnig þarf fjármuni til að forgangsraða í þágu elli- og örorkulífeyrisþega svo að þeim séu tryggð mannsæmandi lífskjör. Ef það á að ganga eftir verða allir að leggja sitt af mörkum í sameiginlega sjóði og krefjast þess af ríkinu að það skili skattfénu í þau verkefni sem brenna á þjóðinni, sem eru orðin æði mörg og bíða úrlausnar.

 

Fjármunir sem hefðu nýst í brýn verkefni

 

Við hefðum getað gert ýmislegt við þá 45 milljarða sem ríkisstjórnin hefur afsalað sér í tekjum frá því að hún tók við árið 2013. Þar má nefna uppbyggingu Landspítalans og önnur þjóðþrifamál, eins og bætt kjör elli- og örorkulífeyrisþega og innviðauppbyggingu samfélagsins. Þessi ríkisstjórn hefur hins vegar valið að vinna fyrst og fremst með þeim efnameiri en skilja eftir þá sem minna mega sín. Þeir sitja eftir og það er bara staðreynd.

 

Ójöfnuður í landinu er að aukast hratt og margar vísbendingar eru til þess að við séum að kynda upp í sömu atburðarás og olli Hruninu fyrir átta árum og að sömu flokkarnir beri þar meginábyrgð á með aukinni misskiptingu og vondri efnahagsstjórn. Alltof stórir hópar eru að festast í fátæktargildru, veruleiki sem við sem rík þjóð eigum ekki að láta viðgangast. Allt tal um að nú sé skollið á blússandi góðæri sker í eyrun, þar sem það nær bara til þeirra útvöldu en þorri landsmanna stendur í þeim sporum að berjast við að ná endum saman um hver mánaðamót. Það hefur alla tíð verið ákveðin list stjórnvalda að blekkja með tölum: Að meðaltali hafi menn það bara fjári gott.

 

Við skulum ætíð muna það, að á bak við lágar tekjur og tölur og línurit og alls konar mælikvarða í excel-skjölum er fólk sem hefur sömu þarfir og þeir sem hafa miklar tekjur.

 

Stundaglas þessarar ríkisstjórnar er að tæmast

 

Þó tíminn þjóti framhjá alltof hratt, þá er þó bót í máli að lífdagar þessarar ríkisstjórnar eru brátt á enda. Þetta hefur verið verklaus ríkisstjórn, sem betur fer að því leyti, að henni hefur þá ekki tekist að skemma meira en orðið er í velferðarkerfinu. Hún ætlaði að skattleggja kröfuhafa bankanna um mörg hundruð milljarða, en það breyttist í miklu lægra stöðugleikaframlag á forsendum kröfuhafanna, þar sem þeir eru nú lausir allra mála. Enginn veit hvenær almenningur og fyrirtækin losna úr gjaldeyrishöftum og hvernig ríkinu gengur að breyta stöðugleikaframlaginu í fjármuni.

 

Forgangsverkefni nýrrar ríkisstjórnar verður að vera að auka jöfnuð og velferð í landinu. Landsbyggðin má ekki verða einhver afgangsstærð, þar liggja ótal möguleikar ef skatttekjur fá að skila sér þangað aftur í innviðauppbyggingu. Ég vil sjá nýtt fiskveiðistjórnarkerfi, nýja stjórnarskrá með auðlindaákvæði, rétt til að setja mál í þjóðaratkvæðagreiðslu, umhverfisákvæði og fullveldisákvæði. Ég vil sjá jöfn tækifæri til menntunar og aðgengi að góðri heilbrigðisþjónustu og uppbyggingu fjölbreytts atvinnulífs í sátt við umhverfið og að sjálfbærnisjónarmið séu höfð að leiðarljósi.

 

Er þetta ekki ágætur forgangslisti sem hægt er að framkvæma innan ramma ábyrgrar efnahagsstjórnar?

 

Við Íslendingar eigum að sjálfsögðu að axla ábyrgð í samfélagi þjóðanna í loftslagsmálum og þeim mikla flóttamannavanda sem blasir við. Þar skiptir okkar afstaða máli.

 

Ég óska landsmönnum gleðilegs árs og að nýtt ár megi verða okkur öllum gæfuríkt.

 

- Lilja Rafney Magnúsdóttir, alþingismaður Vinstri grænna í Norðvesturkjördæmi.

 

Skrifaðu athugasemd:


Atburðadagatal

« Febrar 2023 »
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28