Tenglar

26. september 2013 | vefstjori@reykholar.is

Athugasemdir við furðufréttir frá Reykhólum

Ingvar Samúelsson.
Ingvar Samúelsson.

Eftir Ingvar Samúelsson

 

„Á Reykhólum vantar okkur hjúkrunarheimili. Það er óviðunandi að veikt aldrað fólk þurfi að verja síðustu árunum fjarri heimabyggð,“ segir Einar Sveinn Ólafsson, framkvæmdastjóri Þörungaverksmiðjunnar á staðnum.

 

Þessi furðulegu tíðindi getur að lesa í Morgunblaðinu 14. september, þar sem greint er frá hringborðsumræðum sem blaðið efndi til um stöðu og horfur á Vestfjörðum. Meðal þátttakenda var téður Einar Sveinn Ólafsson á Reykhólum.

 

Þó að Einar hafi aðeins átt heima skamma hríð hér vestra má telja furðulegt að honum skuli ekki vera kunnugt um tilvist Hjúkrunar- og dvalarheimilisins Barmahlíðar á Reykhólum. Fyrr á þessu ári voru 25 ár liðin frá því að fyrsta heimilisfólkið fluttist þar inn og var afmælisins minnst með veglegum hætti. Ýmis félög og samtök stóðu að því mikla framtaki sem bygging Barmahlíðar var á sínum tíma en núna er heimilið að fullu í eigu Reykhólahrepps.

 

Í Barmahlíð eru herbergi og litlar íbúðir fyrir fimmtán manns, þar af 13 hjúkrunarrými og 2 dvalarrými eins og kallað er, en að auki er talsvert um tímabundnar hvíldarinnlagnir. Heimilið ber vissulega nafn með rentu: Hjúkrunar- og dvalarheimilið Barmahlíð, og tilvera þess veldur því, að „veikt aldrað fólk“ (eins og Einar orðar það) þarf ekki að verja síðustu árunum fjarri heimabyggð. Þvert á móti er pláss fyrir fleiri, ef eitthvað er.

 

Í Barmahlíð er setustofa fyrir heimilisfólk, aðstaða til tómstundastarfa, gott bókasafn og mikið að vöxtum og tæki til líkamsræktar, svo eitthvað sé nefnt. Þar eru einnig íbúðir og aðstaða fyrir starfsfólk eins og gefur að skilja. Allt frá upphafi hefur hjúkrunarforstjóri veitt Barmahlíð forstöðu og hefur aldrei vantað neitt á faglegu hliðina í þeim efnum frekar en öðrum. Að jafnaði er starfsfólkið um 12-15 manns en þar af eru margir í hlutastarfi þannig að stöðugildin eru færri. Engu að síður er Barmahlíð einn af þremur stærstu vinnustöðunum á Reykhólum.

 

Hvernig allt þetta hefur farið framhjá manni búsettum á Reykhólum misserum saman er óskiljanlegt.

 

Fram kemur í umræðunum að Einar Sveinn hefur áhyggjur af því fyrir hönd íbúa Reykhólahrepps að sjúkrabílum í Búðardal fækki úr tveimur í einn. Af því tilefni má benda á, að Reykhólar og Reykhólahreppur hafa líka aðgang að sjúkrabíl á Hólmavík, auk þess sem 17 kílómetrum styttra er milli Reykhóla og Hólmavíkur (58 km) en milli Reykhóla og Búðardals (75 km). Miklu styttra er þó frá þessum stöðum í innsveitir Reykhólahrepps eða sem nemur um 25-30 km.

 

Að lokum má nefna eitt enn sem Einar Sveinn fjallar um í hringborðsumræðunum í Morgunblaðinu. Í kafla sem ber fyrirsögnina Komast upp með ölvunarakstur vegna fjarveru lögreglunnar segir:

 

Enginn lögreglumaður er að staðaldri í Reykhólahreppi. „Þetta hefur meðal annars haft í för með sér að ölvunarakstur er þar algengur,“ segir Einar Sveinn Ólafsson framkvæmdastjóri Þörungaverksmiðjunnar. Það skapi mikla hættu.

 

Reykhólahreppur er væntanlega ekki eina sveitarfélagið á landsbyggðinni þar sem enginn lögreglumaður er að staðaldri. Hins vegar er sennilegt að núna sé hann eina sveitarfélag landsins sem hefur fengið uppslátt í Morgunblaðinu þess efnis að ölvunarakstur sé þar algengur.

 

Einari Sveini (og öðrum sem ekki þekkja til í Reykhólahreppi) má benda á það í þessu sambandi, að þegar lögreglan á Hólmavík er kölluð út getur hún verið komin um Arnkötludal til byggða í Reykhólahreppi á korteri og út á Reykhóla á minna en hálftíma. Hvað skyldu nú vera margir staðir á landsbyggðinni þar sem lengra er í löggæslu?

 

______________

Höfundur er matráður á Hjúkrunar- og dvalarheimilinu Barmahlíð og í Reykhólaskóla.

 

 

- Grein þessi birtist í Morgunblaðinu í morgun, 26. september, og síðan einnig hér á vefnum að ósk höfundar.

 

Athugasemdir

Einar Örn Thorlacius fyrrverandi sveitarstjóri Reykhólahrepps, fimmtudagur 26 september kl: 19:31

Góð ofanígjöf hjá Ingvari. Áfram Ingvar!

Kristjana Oddný Kristjánsdóttir, fimmtudagur 26 september kl: 20:01

Einar Sveinn Ólafsson,, hefur gengið um með bundið fyrir bæði augu og bersýnilega ekið þannig um og fundist hann vera drukkinn,, og ósáttur við að vera ekki stoppaður af lögregluvaldinu og fá út á það enn meiri athygli.
Um Reykhólasveit hef ég ekið ,með bæði augun opin og oft séð þetta glæsilega hjúkrunnarheimili, sem hefur verið rekið með glæsileik allt frá upphafi.
Menn ættu að hugsa sig tvisvar um til að öðlast athygli.... Allaveg að reyna að upplýsa ekki fávisku sína svona opinberlega !

Eyvindur, fstudagur 27 september kl: 07:16

Þar sem Þörungaverksmiðjuforstjórinn er að flytja á Bíldudal koma Bíldælingar til með að njóta visku hans m.a. á málefnum aldraða og löggæsluleysi þar. Vonum að tilkomandi nágrannar forstjórans keyri bæði hægt og edrú. Með kveðju úr partíinu.

Björk, fstudagur 27 september kl: 08:35

Það er nú samt allt í lagi að benda á ölvunarakstur og aksturshraða, þótt við vitum að það er um allt land. En við skulum ekki gera lítið úr því. Við megum alveg taka það til okkar í sambandi við hraðakstur, allt í lagi að gagnrína fréttir og er alveg sammála Ingvari með okkar frábæra Hjúkrunarheimili, en eins og með commentið hér fyrir ofan að þá hefur fólk hér keyrt of hratt og því miður keyrt undir áhrifum, sem er mjög slæmt. Við skulum einmitt vona að þannig sé það ekki fyrir vestan og fólk hér getur þá tekið Bíldælinga til fyrirmyndar.

En annars flott grein Ingvar

Torfi, fstudagur 27 september kl: 18:23

Ég deili áhyggjum mínum með Einari, ég hef aldrei skilið það fólk er að reyna slá einhver hraðamet innanbæjar þar sem fullt er af börnum að leik, gildir það jaft um bíla, eða fjórhjól.... einnig er ég sammála því að það sé hið versta mál að fækka sjúkrabílum í Búðardal,, það vita allir að þröskuldar er ansi fljótur að lokast að vetrarlagi og þar veður oft válind...

að lokum vil ég benda Kristjönu á þessa frétt;
http://www.reykholar.is/frettir/Leidretting_a_mistokum_i_Morgunbladinu/

og tek undir með henni, "að upplýsa ekki fávisku sína svona opinberlega"

Skrifaðu athugasemd:


Atburðadagatal

« Ma 2022 »
S M Þ M F F L
1 2 3 4 5 6 7
8 9 10 11 12 13 14
15 16 17 18 19 20 21
22 23 24 25 26 27 28
29 30 31