Tenglar

20. apríl 2009 |

Aðgerðir strax – fyrir okkur öll

Elín R. Líndal.
Elín R. Líndal.

Elín R. Líndal skrifar:

 

Öflugt atvinnulíf er nú sem jafnan áður lykillinn að hagsæld þjóðarinnar. Án atvinnu eiga einstaklingar og heimilin í landinu litla von til að geta staðið í skilum með sínar skuldbindingar.

 

Við þurfum að einsetja okkur að koma hjólum atvinnulífsins á snúning. Hagkerfið er frosið og aðgerðir ríkisstjórnarinnar hafa því miður einkennst af því að fresta mikilvægum ákvörðunum. Lækkun vaxta og leiðrétting lána með 20% lækkun höfuðstóls er réttlát aðgerð sem virkar strax fyrir heimili og fyrirtæki. Það er sama hver atvinnugreinin er, engin þeirra getur staðið undir þeim fjármagnskostnaði sem nú er. Það er því algert forgangsmál að vextir verði lækkaðir fyrir atvinnulífið og ekki síður heimilin.

 

Við í Norðvesturkjördæmi byggjum afkomu okkar að stórum hluta á undirstöðuatvinnugreinum í sjávarútvegi og landbúnaði. Augu margra hafa opnast fyrir því á undangengnum vikum hversu mikilvægt það er að framleiða og skapa raunveruleg verðmæti. Það er okkar að standa vörð um íslenska framleiðslu hvaða nafni sem hún nefnist. Einnig verður að hefja markvissa og raunhæfa sókn í nýsköpun og þróun. Stjórnvöld verða að gera sér grein fyrir þeim vannýttu tækifærum sem við eigum hér í kjördæminu á fjölmörgum sviðum atvinnulífsins og í öflugum menntastofnunum. Viðurkenna þarf þá staðreynd að á hverjum degi verða til verkefni sem hægt er að vinna óháð staðsetningu. Við í Norðvesturkjördæmi höfum sýnt það og sannað að dreifing verkefna og flutningur starfa og stofnana hefur tekist mjög vel.

 

Nærþjónustan, öryggisnetið, er hjá sveitarfélögunum og því mikilvægt að skapa þeim það starfsumhverfi að þau geti staðið undir þeirri miklu ábyrgð. Samskipti ríkis og sveitarfélaga hafa um all langt skeið farið versnandi. Ríkisvaldið hefur komið fram með hroka, brotið gerða samninga og sagt að vandi sveitarfélaganna sé útgjaldavandi ekki tekjuvandi. Þetta er út í hött. Í samskiptum ríkis og sveitarfélaga þarf að auka formfestu, með lagasetningu um formlegt samráð þeirra í milli.

 

Atvinnuleysi er mikið böl og hver vinnufús hönd sem er atvinnulaus er einni of mikið. Við þurfum að nýta, með sjálfbærni í huga, náttúruauðlindir okkar til lands og sjávar og síðast en ekki síst mannauðinn. Nýta þarf öll tækifæri til sóknar og uppbyggingar þannig að raunhæfir möguleikar til viðunandi afkomu séu til staðar hjá heimilum og fyrirtækjum í landinu.

 

- Elín R. Líndal.

 

Atburðadagatal

« Desember 2022 »
S M Þ M F F L
        1 2 3
4 5 6 7 8 9 10
11 12 13 14 15 16 17
18 19 20 21 22 23 24
25 26 27 28 29 30 31