Tenglar

mi­vikudagur 21. desemberá2011 |

äRammstŠka skatan rÚtt er fÝnô

Skötuveisla Lions verður eins og endranær í matsal Reykhólaskóla á Þorláksmessu og stendur milli kl. 12 og 14. Saltfiskur verður í boði fyrir þá sem treysta sér ekki í skötuna. Að sjálfsögðu er skatan ekta vestfirsk og kemur frá Flateyri. „Skatan í ár lofar góðu“, segir Halldór Hermannsson úr Ögurvík við Djúp, hinn landsþekkti skötufræðingur á Ísafirði, sem hefur um langan aldur verið fastur álitsgjafi fjölmiðla um skötu líkt og Ólafur Þ. Harðarson prófessor (sem er af vestfirskum ættum) um stjórnmál. Eins og með suðræn vín þykir sérfræðingum skatan vera misjöfn eftir árgöngum.

 

Skötuveislurnar á Reykhólum á Þorláksmessu eru ein af fjáröflunarleiðum Lionsfólks í Reykhólahreppi. E.t.v. verða þær með tímanum eins frægar og veislan mikla á Reykhólum (Reykjahólum) árið 1119 sem greint er frá í Sturlungu. Megn þefur einkennir að minnsta kosti veisluhöldin í báðum tilvikum.

 

Allir eru velkomnir í skötumessuna í Reykhólaskóla. Verð er kr. 2.000 en frítt fyrir 12 ára og yngri. Athugið, að enginn posi verður á staðnum.

 

Rammstæka skatan rétt er fín, / rarari er hún en brennivín, segir Eggert Ólafsson náttúrufræðingur og skáld úr Svefneyjum á Breiðafirði í kvæðinu Sú íslenska matarsæla [rarari (hér): betri].

 

Þorláksmessur eru tvær á ári og báðar í minningu Þorláks helga Þórhallssonar, sem var biskup í Skálholti 1178-1193. Þorláksmessa á vetri er á andlátsdegi hans, 23. desember. Þorláksmessa á sumri er 20. júlí. Þann dag árið 1198 voru bein hans (helgur dómur) tekin úr jörðu og skrínlögð, þremur vikum eftir að hann var á Alþingi tekinn í dýrlingatölu á Íslandi og áheit á hann leyfð. Jóhannes Páll páfi II útnefndi Þorlák verndardýrling Íslands árið 1985. Síðustu mánuði hefur nafn Þorláks biskups verið í umræðunni vegna umdeildrar byggingar „Þorláksbúðar“ í Skálholti á grunni geymsluskemmu sem þar var hrófað upp nokkrum öldum eftir að hérvist Þorláks helga lauk.

 

 

Árni Björnsson þjóðháttafræðingur skrifar um skötuát og fleira skylt á þessa leið (2007):

 

Í kaþólskum sið var fasta fyrir jólin og átti þá ekki að borða mikið góðgæti og einna síst á Þorláksmessu. Það átti að vera sem mestur munur á föstumat og jólakræsingum, auk þess sem ekki þótti við hæfi að borða kjöt á dánardegi heilags Þorláks. Þessir matsiðir héldust í stórum dráttum þótt hætt væri að tilbiðja Þorlák sem dýrling. Þó var fólki stundum leyft að bragða aðeins á jólahangikjötinu ef það var soðið á Þorláksmessu.

 

Aðalreglan var samt sú að borða lélegt fiskmeti á þessum degi, en misjafnt var hvað hentaði best á hverjum stað. Á Suðurlandi var sumstaðar soðinn horaðasti harðfiskurinn og frá Vopnafirði er þessi vísa til marks um mataræðið:

 

          Á Þorláksdag í matinn minn

          morkinn fékk ég hákarlinn

          harðan fiskinn hálfbarinn

          og hákarlsgrútarbræðinginn.

 

Um þetta leyti árs veiddist skata einkum á Vestfjarðamiðum. Hún þótti enginn herramannsmatur ótilhöfð og var því algengur Þorláksmessumatur á þeim slóðum. Í aldanna rás tókst Vestfirðingum á hinn bóginn að tilreiða úr skötunni mikið ljúfmeti eins og skötustöppuna, og mörgum þótti það óbrigðult merki þess að jólin væru í nánd þegar lykt tók að berast af skötustöppu.

 

Eftir því sem leið á 20. öld flykktist fólk úr öllum byggðarlögum á suðvesturhorn landsins, Vestfirðingar ekki síður en aðrir. Þeir söknuðu Þorláksmessuskötunnar og margir reyndu að útvega sér hana úr heimahögum. Smám saman smitaði þessi venja þeirra út frá sér og eftir miðja öldina fóru margar fiskbúðir á höfuðborgarsvæðinu að hafa skötu á boðstólum í desember. Fyrir um aldarfjórðungi fóru svo nokkur veitingahús að bjóða til skötuveislu á Þorláksmessu og þar með varð þetta tíska.

 

Þorláksmessuskata er með öðrum orðum ævagömul á Vestfjörðum en ekki nema nokkurra áratuga gömul á Reykjavíkursvæðinu.

 

Alþekkt er í heiminum að matréttir sem upphaflega urðu til vegna fátæktar eða skorts á framboði þykja seinna lostæti. Ástæðan er oft það nostur sem hafa þurfti við matreiðsluna til að gera hráefnið gómsætt. Þetta á til dæmis við um ýmsa franska skelfisks- og sniglarétti. Fyrir utan skötuna má á Íslandi nefna laufabrauðið sem þurfti að vera örþunnt vegna mjölskorts á 17. og 18. öld, og rjúpuna sem upphaflega var jólamatur þeirra sem ekki höfðu efni á að slátra kind.

 

Sjá einnig:

bb.is 21.12.2011  Þorláksmessuskötuviðtal við Halldór Hermannsson

 

Skrifa­u athugasemd:


Atbur­adagatal

« Oktˇber 2021 »
S M Ů M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30
31