Tenglar

Reynir Halldˇrsson,  mynd Steinunn MatthÝasdˇttir
Reynir Halldˇrsson, mynd Steinunn MatthÝasdˇttir

 

Minningarorð

    

Það varð stutt á milli andláts þeirra bræðra Garðars og Reynis sem áður fyrr bjuggu  saman í  tvíbýli á Hríshóli í Reykhólasveit. Garðar flutti  síðan  suður og eftir það  bjuggu   Reynir og Gisela kona hans  myndarbúi á Hríshóli í mörg ár.

 

Ég minnist þess að meðan ég bjó í Hnífsdal og átti leið akandi um Reykhólasveitina,  þá vakti  það alltaf athygli mina hve snyrtilegt var heim að líta að Hríshóli.   Og eitt sinn er ég var á ferð með  fjölskylduna  á leið um landið sumarið  1964, hafði mjólkin klárast á leiðinni. Það var ekki ásættanlegt að vera mjólkurlaus  með þrjú smábörn í bílnum.  Þá var mjólk  seld í mjólkurbúð  Kaupfélagsins   á Ísafirði og mæld á brúsa, sem fólk kom með.  Í Hnífsdal  var mjólkin einnig seld með sama hætti í útibúi Kaupfélagsins, eða  komið með mjólk í brúsum frá sveitaheimilum, sem dreift var heim til fólks.  Ég var auðvitað  með einn slíkan  brúsa  í bílnum.   Og rétt komin af Þorskafjarðarheiðinni  lá beint við að fara heim að Hríshóli til að kaupa  mjólk í brúsann.  Það var auðsótt mál, en þá var ekki verið að spá í það hvort mjólkin væri gerilsneydd eins og síðar varð.  Enda varð okkur gott af mjólkinni frá Hríshóli. 


Eftir að ég flutti  í Reykhólasveitina 1996, kynntist ég þeim hjónum  Reyni og Giselu betur og ekki nema að öllu góðu.  Það var skemmtilegt að spjalla við Reyni , sem þekkti alla og fylgdist vel með öllu sem gerðist í sveitinni. Hann var alltaf til í að gefa góð ráð og upplýsingar um sveitina.  Þau hættu síðan  búskap þegar árin færðust yfir  og seldu jörðina en bjuggu áfram í  húsinu á Hríshóli all mörg ár eftir það.  Ég held  að Reynir hafi samt alltaf haldið áfram að hafa auga með búskapnum hjá nýju eigendunum  og þeim hafi ekki þótt það neitt verra að njóta aðstoðar hans.  Þau  hjónin fluttu sig svo seinna  í íbúð fyrir  aldraða í Búðardal og   þar tóku þau virkan þátt í starfinu í  Félagi eldri borgara og Gisela var  þar formaður um tíma.


Reynir  fann sér eitt og annað til dundurs, ekki síst í að snyrta og fegra umhverfið.   Eftir að Gisela lést fyrir nokkrum árum  hélt Reynir  áfram sjálfstæðri búsetu, en sótti þó ýmsa þjónustu í Dvalarheimilið Silfurtún í Búðardal.  Síðustu vikurnar var hann þar  alveg  til heimilis.  Systir mín Þrúður segir hann hafa verið góðan nágranna, hjálpfúsan og vinsamlegan.  Hann leit oft eftir húsi þeirra  hjóna á Sunnubrautinni ef þau voru fjarverandi.  Síðast hitti ég Reyni um miðjan nóvember s.l.  þega Félag eldri borgara var með samkomu og kórsöng í  Hjúkrunarheimilinu Barmahlíð á Reykhólum.  Hann var glaðlegur eins og alltaf, en þó greinilega ekki jafn hress og áður.  Á þeim tima var hann kominn með þann sjúkdóm sem sigraði hann að lokum.

 

Ég þakka  honum skemmtilegar samverustundir  og vináttu í gegnum árin.  Það er alltaf sjónarsviptir af  mönnum eins og honum, sem yrkja jörðina  af natni og ganga vel um allt sem þeim er trúað fyrir.  Guð blessi minningu Reynis og Giselu frá Hríshóli.

 

 

 

Jóna Valgerður Kristjánsdóttir

_______________________________________________________________________________

 


   

Minningargrein um Reyni Halldórsson:


 

Á árum áður þegar við Djúpmenn áttum leið suður á bóginn yfir Þorskafjarðarheiði, framhjá Bjarkarlundi og Reykhólavegamótum, blasti næst við augum, ofan vegar, bærinn Hríshóll, mjög vel hýstur með víðáttumikil tún í góðri rækt og þráðbeinar gallalausar girðingar. 

 

Á þessum bæ var snyrtimennska augljóslega í hávegum höfð. Þar bjuggu, vissi ég, Reynir og Gisela, þýskættuð skörungskona sem í tvo áratugi var allsráðandi á skrifstofu Kaupfélags Króksfjarðar, en við Skjaldfannarbændur vorum um skeið í sláturfjárviðskiptum þar. Betra var að hafa Giselu með sér en móti, enda kappkostaði ég það. Börn áttu þau tvö, óvenju mannvænleg, Reinhard og Ingibjörgu.

 

Svo líða árin og þau mjög mörg, þjóðleið Djúpmanna lá ekki lengur framhjá Hríshóli og þar orðin ábúendaskipti, Reynir og Gisela flutt suður í Búðardal.

 

Þá kemur það næst við þessa sögu að á sumardaginn fyrsta 2016 lítur hér inn hjá mér ásamt nágrönnum Ingibjörg Reynisdóttir og líst svo vel á bústofninn að hún gefur kost á sér sem lambaljósa á komandi sauðburði. Það var heldur betur fagnaðarefni og dró þann dilk á eftir sér að síðan hefur hún verið mín búskaparlega hægri hönd þegar mikils hefur þurft við. Inga sagði mér margt af föður sínum og persónuleg kynni okkar Reynis jukust að sama skapi. Gisela dó síðsumars 2008, en Reynir bjó áfram í parhúsi þeirra í Búðardal.

 

Á vesturleið um miðjan ágúst tók hann á móti mér á dyrahellunni sinni, ótrúlega unglegur og teinréttur, þrátt fyrir rúma níu áratugi á herðunum. Sest var við eldhúsborðið yfir mjólkurglasi og jólaköku. Ég sagði frá, en húsráðandi, sem ekki var margmáll maður, en því betri hlustandi, skaut að orði og orði. Eldhúsglugginn vissi í norðvestur í átt til Reykhólasveitar og þangað renndi Reynir augum er talið barst stuttlega að búskapnum á Hríshóli. Nær okkur blöstu við slegnar túnskákir með rúllum og gamli bóndinn lét þess getið að þeir sem þar heyjuðu hefðu alveg mátt slá nær girðingum og skurðbökkum og illt væri að sjá vindinn vefja plastinu aftur utan af heyinu.

 

Það hafði talast svo til að ég tæki með mér heim girðingarstaura sem Reynir hafði verið að vinna úr tilfallandi úrgangstimbri. Staurahornið hans var einstakt dæmi um þá vandvirkni, snyrtimennsku og hagar hendur sem erfst höfðu svo vel til Ingu dóttur hans. Allt nákvæmlega flokkað eftir lengdum og gildleika og renglur milli stauralaga, svo allt héldist þurrt og tvívírbundið yfir stæðurnar. Hver staur framhöggvinn með svo flugbeittri skaröxi að líkja mátti við velyddaðan blýant.

 

Er haustaði fór heilsu Reynis ört hrakandi og nú er hann horfinn yfir móðuna miklu. En hann er mér áfram lýsandi dæmi um þá aðgætni, elju, nýtni og nægjusemi, sem var svo ríkur og raunar nauðsynlegur þáttur í fari þeirrar kynslóðar sem nú er að hverfa af sjónarsviðinu. Blessuð sé minning þessa mæta manns. Ég sendi ástvinum einlægar samúðarkveðjur.

 

Indriði Aðalsteinsson.

   

Atbur­adagatal

« AprÝl 2021 »
S M Ů M F F L
        1 2 3
4 5 6 7 8 9 10
11 12 13 14 15 16 17
18 19 20 21 22 23 24
25 26 27 28 29 30