Tenglar

laugardagur 15. desemberá2018

R - lei­ besti kosturinn

Ingimar Ingimarsson
Ingimar Ingimarsson

Valkostagreining Viaplan um Vestfjarðarveg 60 sýnir svart á hvítu að R-leiðin er langbesti kosturinn þegar kemur að veglagningu um Reykhólahrepp. Í valkostagreiningunni var farið yfir alla þá þætti sem við koma vegagerð í Reykhólahreppi og niðurstaðan er skýr, R-leið er besti kosturinn. Þegar farið er yfir tæknilega-, skipulags-, félagslega-, umhverfis- og hagræna þætti kemur R-leiðin best út.

Þá fylgir R-leiðin best þeim 5 markmiðum samgönguáætlunar sem kemur fram í lögum um samgönguáætlun. Í valkostagreiningu Viaplan eru áhrif vegalagningar rýnd, ekki eingöngu eftir kílómetrafjölda og kostnaði eins og Vegagerðin hefur hingað til aðeins gert, heldur eru allir samfélagslegir þættir teknir í myndina. Þetta eru afar mikilvægir þættir þegar taka á ákvörðun um jafn stórt mál eins og þetta.


Samfélagslegir þættir

Ljóst er að allar leiðirnar, sem bornar eru saman í valkostagreiningunni, stytta leiðina um sunnanverða Vestfirði. Munurinn á leiðunum upp á þá styttingu er óverulegur eða um 2%. Þegar kemur hinsvegar að styttingunni Reykhólar við Vestfirði erum við að tala um allt annað. Þegar Dýrafjarðargöng verða tilbúin og farin yrði R-leiðin, yrði akstursleið þeirra sem búa á Reykhólum til Ísafjarðar 175 km. í stað 246 km. sem hún er í dag. Möguleikar og kostir okkar sem búum í Reykhólhreppi til að nýta okkur þjónustu og tengjast Vestfjörðum betur eru ótvíræðir með R-leið. Suma þá þjónustu sem við höfum þurft að sækja til Reykjavíkur getum við þá sótt til Ísafjarðar. Leiðin á Aðalskrifstofu Sýslumannsins sem staðsett er á Patreksfirði styttist um 44 km. ef valin er R-leið. Samkvæmt valkostagreiningunni kemur R-leiðin líka mun betur út en aðrar þegar kemur að ferðaþjónustu, almennri þjónustu hverskonar, vegaþjónustu og uppbyggingu á Reykhólum.


Öryggisþættir

Leiðirnar eru taldar koma nokkuð jafnt út hvað varðar öryggi en ennþá er eftir að rannsaka R-leiðina( A3 liggur í vegstæði A1 leiðarinnar sem hefur verið skoðuð). En við hljótum að skoða þætti eins og skólaakstur og aðgengi vegfarenda að bráða- og heilbrigðisþjónustu. Akstur skólabílsins sem er fyrir börn  í Gufudalssveit minnkar úr 108 km. á dag í 58 km. á dag með R-leið. Öll stytting á leiðum þar sem börnin okkar fara um daglega hlýtur að vega þungt þegar ákvarðanir eru teknar. Þá hlýtur líka að vega þungt aðgengi að neyðarþjónustu fyrir vegfarendur. R-leið opnar á styttingu upp á 44 km. fyrir bráðaaðila að komast á vettvang sem er 22 km. styttra en Þ-H leið ef slys yrði á versta stað milli Reykhóla og Patreksfjarðar, þetta hlýtur að vega mjög þungt þegar tekin er ákvörðun um leið.


Hagrænir þættir

Allar leiðirnar sem teknar eru fyrir í valkostagreiningunni bera með sér hagræði fyrir íbúa á Vestfjörðum og er lítill munur milli leiða eða um 2%. Þó er ljóst að R og A3 hafa langmest jákvæð áhrif fyrir íbúa Reykhóla. Aukin umferð kallar á aukna þjónustu, aukin þjónusta kallar á fjölgun íbúa. Byggðarþróun hefur staðið í stað í Reykhólahrepp síðastliðin 20 ár en þar áður fækkaði talsvert í hreppnum. Það hlýtur að vera metnaðarmál hverrar sveitarstjórnar að íbúum fjölgi og samfélagið verði sjálfbært þannig að þjónustustig sé á pari við það sem best þekkist. Fyrirtæki og fjölskyldur horfa til þess þegar valin er staður hvernig þjónustustigið er. Þá felst í því mikið hagræði að flutningbílar þurfi ekki að keyra 30 auka kílómetra til að komast að þéttbýlinu. Reykhólahreppur er landbúnaðarhérað þar sem að íbúar og fyrirtæki þurfa þjónustu og hana viljum við nálgast á sem auðveldastan og stystan hátt.

 

Umhverfisþættir

Valkostagreiningin sýnir okkur það að R-leiðin kemur mun betur út en Þ-H leið þegar skoðaðir eru umhverfisþættir. Auðvelt er að sjá af hverju það er, þar sem í R-leiðinni er enginn nýlagning vega í gegnum svæði á náttúruminjaskrá og þverun fjarða er aðeins ein og er gerð yfir ál sem flytur 70-80 % af sjó út og inn Þorskafjörð. Þ-H leiðin þverar hinsvegar þrjá firði sem verða lokaðir fyrir inn og útstreymi á meðan á framkvæmdum stendur og áhöld um hvort brýrnar séu nægilega langar fyrir full sjávarskipti auk þess sem ekki verður mögulegt að skera þang innan brúnna. Ljóst er að ekki má hrófla við svæðum sem eru vernduð nema brýna nauðsyn beri til, sú nauðsyn er ekki fyrir hendi þegar litið er til þess að önnur leið er í boði. Sú leið er í boði. Skv. Valkostagreiningunni eru líkur á því að eknum km. flutningabíla fækki meira við R-leiðina en við aðrar leiðir.


Ég vil hvetja allt áhugafólk vegagerðar um Reykhólahrepp og íbúa Reykhólahrepps að kynna sér vandlega valkostagreininguna enda gefur hún okkur möguleika á að festa hendur á öllum þeim upplýsingum og skýrslum sem gerðar hafa verið um Vestfjarðarveg 60 og hjálpar okkur að mynda skoðun á þessu stóra máli. Haldinn verður íbúafundur um málið 18. desember.


Ljóst er að sitt mun sýnast hverjum enda gefa ólíkir hagsmunir af sér ólíka sýn. Sveitarstjórnum hvers tíma ber þó að gæta hagsmuna síns sveitarfélags og vanda til verka þegar kemur að ákvarðanatöku í stórum málum. Sveitarstjórnir verða að fylgja þeim lögum sem sett eru af Alþingi, ekki er hægt að skauta fram hjá lögum og treysta á að sett verði lög til að leysa okkur seinna úr snörunni. Þá vil ég hvetja fólk til að hafa umræðuna hófstillta, en umfram allt málefnalega. Stóryrði, fúkyrði og persónuárásir hjálpa seint málstað hver sem hann er. Skýrsluna má nálgast hér http://www.reykholar.is/wwwreykholarisvest60/skra/2000/

 

Ingimar Ingimarsson, oddviti Reykhólahrepps

 

  

fimmtudagur 15. nˇvemberá2018

A­ fß rřting Ý baki­

Jˇhannes Haraldsson
Jˇhannes Haraldsson

 Þó ég búi ekki lengur í Reykhólahreppi en sé þar bara alltaf, þá líður mér þannig að ég verði að biðjast afsökunar. Verst að ég veit varla á hverju eða fyrir hönd hvers. Framkoman við nágranna og samherja nú upp á síðkastið er slík að engu tali tekur.


Eftir 15 ára baráttu við kerfið og utanaðkomandi andstöðu er ein leið tilbúin til framkvæmda. Leiðin sem meðal annara hreppsnefndir Reykhólahrepps hafa barist fyrir öll þessi 15 ár, á öllum vígstöðvum. Allt er rannsakað í þaula, ekkert finnst sem snertir náttúruna og ætti að valda því að óverjandi sé að hefja framkvæmdir. Skóræktarfélögin sjá enga ástæðu til að leggjast gegn lagningu vegar um vestanverðan Þorskafjörð, búið er að rannsaka botndýralíf í Djúpafirði og Gufufirði, og búið er að vefja ofan af mistökum Jónínu Bjartmars að nota orðið „umferðaröryggi“, o.s.fr, o.s.fr.


Ferðin var barátta sem hafðist vegna samstöðu, barátta við utanaðkomandi andstöðu. En svo er ekki lengur. Nú þýðir ekkert framar að ergja sig á höfuðborgarbúum sem berjast gegn innviðauppbyggingu í samfélögum annara á meðan þeir drulla yfir alla náttúru í sínu nærumhverfi.


 Ég get rétt ímyndað mér hvernig íbúum vestan Klettsháls líður. Hvernig ætli okkur íbúum Reykhólahrepps hefði liðið á sínum tíma ef Vegagerðin hefði beðið í startholunum með að hefja framkvæmdir við Gilsfjarðarbrú, en hreppsnefnd Saurbæjarhrepps hefði þá allt í einu stoppað málið af vegna þess að einhverjum fannst Kaldraninn of merkilegur til að leggja um hann veg? Hefði farið út í að láta kanna aðrar leiðir eftir að hafa sjálfir tekið þátt í 10 ára undirbúningi vegar á núverandi stað?


 Hefði skyndilega komist að þeirri niðurstöðu að betra væri fyrir sveitarfélagið Saurbæjarhrepp að fá veg inn í Ólafsdal og brúna þar yfir, og viljað hefja undirbúning aftur frá grunni? Ætli við hefðum þá fagnað 20 ára afmæli Gilsfjarðarbrúar fyrir nokkrum vikum.

 Ætli málið hefði þá ekki verið tekið upp á vettvangi Fjórðungsambands Vestfirðinga, leitað stuðnings nágranna, reynt að auka á slagkraftinn í baráttunni.


Þið fyrirgefið, en ég skammast mín.


 Ég vil allavega koma á framfæri afsökunarbeiðni fyrir mína hönd, þó mig gruni að margir hugsi það sama.


Virðingafyllst


Jóhannes Haraldsson

 

  

KristÝn Ingibj÷rg Tˇmasdˇttir
KristÝn Ingibj÷rg Tˇmasdˇttir

Hugleiðingar um skrif og tal um Vestfjarðarveg.  


Vegagerðin er búin að ákveða ÞH leiðina en þá dettur sveitastjórn, þeirri fráfarandi og núverandi það í hug að gera nýja tillögu og fá Norðmenn í þá vinnu! Þar koma fram áætlanir um að betra væri að renna sér út Barmahlíðina og umturna henni enn frekar með 60 m breiðum vegi eins og Þjóðvegir eiga að vera nú til dags, enda veitir ekki af því og þá trúlega hjólreiða stíg samhliða!

 

Ég er ekki á móti vegaframkvæmdum og allra síst jarðgöngum og brúm, varð t.d. mjög fegin þegar nýr og betri vegur kom í Gjána sem er rétt innan við skóginn á  Barmahlíð, þar var oft ófært á vetrum og rann úr veginum er rigndi mikið. Mér er Barmalhlíð mjög kær og þar vex bæði Birkiskógur, kjarr og lyng sem ,,blánar af berjum hvert ár", sem bæði menn og máleysingjar hafa notið og njóta góðs af. Berjaferðir í Barmahlíð eru ákaflega vinsælar og undirrituð notið ferða þangað, fagurt útsýni, ilmur af gróðri og friðsæld er nokkuð sem aldrei gleymist. Auk hins villta gróðurs var plantað þarna grenitrjám, sem hafa dafnað vel og íbúar svæðisins geta nú fengið sín jólatré. Á Reykhólum var reistur minnisvarði um Jón Thoroddsen f. 5. okt. 1818 á Reykhólum eins og Reykhólasveitungar eflaust vita.

Á þennan minnisvarða er skorið ljóðið "Barmahlíð" eftir skáldið. Ég læt það fylgja hér með:

                      Hlíðin mín fríða

                       hjalla meður græna,

                       blágresið blíða,

                       berjalautu væna,

                       á þér ástar-augu

                       ungur réð ég festa,

                       blómmóðir bezta.

 

                       Sá ég sól roða

                       síð um þína hjalla

                       og birtu boða

                       brúnum snemma fjalla;

                       skuggi skauzt úr lautu,

                       skreið und gráa steina,

                       leitandi leyna.

 

                       Blómmóðir bezta,

                       beztu jarðar gæða

                       gaf þér fjölda flesta

                       farðir mildur hæða;

                       hver mun svo, er sér þig,

                       sálar þjáður dofa,

                       að gleymi guð lofa?


                        Hlíð, þér um haga

                        hlýr æ blási andi,

                        döggvi vordaga

                        dögg þig sífrjóvgandi!

                        Um þig aldrei næði,

                        af þér svo að kali,

                        vetur vindsvali.

  


Síðan er það Reykjanesið þar sem stutt er á milli fjalls og fjöru. Tún liggja víða beggja megin vegarins, eiga þau að koma undir veg, eru bændur tilbúnir til að fórna þeim?

Fuglalíf er þarna mikið bæði til nytja, yndis og ánægju, hvað um það?

Á það að njóta vafans eins og fólk segir oft nú til dags ef ekkert finnst svarið?

Hvar verður efnið í veginn tekið? Það er ekki lítið sem þarf af slíku.

Hvað með mengun af þessum stóru flutningabílum sem aka á milli landshluta?

Hvernig er að hafa þá í túnfætinum, stutt frá hýbýlum fólks og fénaðar?


Ég veit að bændur þurfa vélar og áhöld sem nota jarðolíu og þeir þurfa á þessum verkfærum að halda við sín störf. Að bæta þessari þungu umferð við, því þess er ekki þörf. Þar eru aðrar leiðir færar og leið sem tilbúin er til að hefjast handa eins væri eflaust hægt að fara norðan megin við Reykjanesfjall, eins og nefnt hefur verið en það mun kalla á enn eitt matið sem kostar bæði tíma og peninga, geta Vestfirðingar beðið endalaust?

ÞH leiðin er tilbúin til að framkvæmdir geti hafist og skógur eyðir mengun og hægt er að planta nýjum trjám víða um Vestfirði. Er þessi verðandi Vestfjarðarvegur lentur í sömu kreppu og vegur og brúin yfir Gilsfjörð á sínum tíma?


Þá var málið að Rauðbrystingurinn færi í útrýmingarhættu en svo varð ekki. Nú er það Teigskógur, en ef til vill fengju fleiri að njóta hans og sjá en nú er. T.d.fatlað fólk og gamlingjar sem orðnir eru fótafúnir en langar að sjá landið sitt. Það þarf að horfa á landið frá mörgum sjónarhornum og erfitt að svara spurningunni: Hvað á að gera og hvað er best fyrir framtíð lands og þjóðar?

Stundum breytir landið sér sjálft. Það er nóg efni iðrum þess til að breyting gæti orðið á svipstundu. Vonandi verður það ekki í bráð eða valdið slysum.


Ég óska sveitungum alls góðs og kær kveðja til ljósubarnanna minna í sveitinni.

 

Kristín Ingibjörg Tómasdóttir, ljósmóðir.

 

  

fimmtudagur 25. oktˇberá2018

Vestfjar­avegur (60), R lei­ vs Ů-H lei­

Magn˙s Sigurgeirsson
Magn˙s Sigurgeirsson

Hej-a Norge, þetta er eitt stórt samsæri! Það var þá rétt hjá Erni Árnasyni í Spaugstofunni forðum daga þegar hann varaði okkur við misvitrum ráðum Norðmanna, sem nú beinast gegn Þ-H leiðinni.

 

Ég er ekki svo einfaldur að trúa því að það sé hlutlaust mat þegar aðilar velja sér verkfræðistofu og óska eftir útkomu sem er önnur en Þ-H leiðin. Það er þannig þegar þjónusta er keypt af tilteknum aðila þá reynir sá sem hana selur að þóknast þeim sem hana kaupir. Þannig tel ég að þessi norska skýrsla hafi orðið til.


Það er stutt á milli fjalls og fjöru hvort heldur er út Barmahlíðina eða Reykjanesið og vanhugsuð hugmynd að mínu mati að leggja þar veg sem spannar 60 m. Umferð er alltaf neikvæð þar sem fólk býr. Að mati skýrsluhöfunda eru helstu rökin fyrir veginum þau að hann muni hafa góð samfélagsleg áhrif. Í mínum huga eru áhrifin þveröfug og mun ég gera grein fyrir þeim í eftirfarandi sex liðum:


 Í fyrsta lagi mun umferðin á þessu svæði verða hröð og einkennast af miklum þungaflutningum. Með aukinni umferð eykst slysahætta, ef hægt er að tala um eitthvað sem er óafturkræft þá eru það líf og limir fólks sem lendir í slysum;


 Í öðru lagi mun mikil hljóðmengun hljótast af framkvæmdinni, niður frá umferðinni kemur alltaf til með að bergmála frá fjallinu út Reykjanesið;


 Í þriðja lagi geta veður út Reykjanesið verið varasöm. Í norðanáttum myndast gjarnan mjög snarpar vindkviður á svæðinu;


 Í fjórða lagi er ljóst að umferð á svæðinu mun hafa veruleg neikvæð áhrif á fjölskrúðugt fuglalíf sem þar er fyrir;


 Í fimmta lagi er verið að skerða verulega búsetu þeirra bænda sem þarna búa og styð ég þá heilshugar í baráttu þeirra gegn vegalagningunni.


 Í sjötta og síðasta lagi vil ég benda á staði eins og Búðardal og Hólmavík. Ég get ekki séð þau jákvæðu samfélagslegu áhrif sem umferðin hefur haft á þessi bæjarfélög þó hún hafi legið í gegnum þau til margra ára. Í því samhengi er talað um að minni hagsmunir eigi að víkja fyrir meiri hagsmunum. Þessa hugsun skil ég ekki og spyr hver ætlar að meta hagsmuni hvers og eins?


Nokkur orð um Þ-H leiðina sem ég hef alltaf stutt, ekki síst vegna þess að þar er ekki búseta. Svæðið gjörþekki ég eftir að hafa stundað þar smalamennsku til fjölda ára. Í mínum huga er enginn munur á birkikjarrinu þar í samanburði við annars staðar á Vestfjörðum. Það er alls staðar jafn fallegt. Þá hef ég heldur ekki orðið var við að ferðafólk fari mikið um svæðið til að njóta þess enda er það mjög ógreiðfært yfirferðar.

 

Ég tel að vegalagning um svæðið eigi því eftir að sóma sér vel í þessu umhverfi og verði til þess að fleiri fái að njóta þess en ella, við skulum ekki gleyma þeim sem ekki komast um gangandi. Þá er nauðsynlegt að minna á að framkvæmdir við Þ-H leiðina eru algjörlega óháðar annarri umferð og ljóst að mikil óþægindi munu fylgja vinnu við Þjóðveg 60 út Barmahlíðina og Reykjanesið fyrir íbúa svæðisins. Reykhólar eru í fínu vegasambandi í dag, komst á við þverun Gilsfjarðar, þangað kemur fólk í dag til að njóta kyrrðar og öryggis.


Það er dapurlegt til þess að vita að einstaklingar sem hvorki eru fæddir eða uppaldir á þessu svæði reyni hvað þeir geta að knýja fram svokallaða R-leið óháð kostnaði og gegn vilja megin þorra íbúa á svæðinu. Allt til þess eins að Þ-H leiðin verði ekki farin. Ég ætla rétt að vona og geri þá kröfu að sveitastjórnin kalli til sín sérfræðinga á sviði umferðaröryggismála til að vega saman kosti og galla.

 

Þá finnst mér löngu tímabært að teknar verði saman upplýsingar um hvað búið er að eyða af almanna fé í sérfræðiálit og skýrslur vegna áforma um vegalagningu á umræddu svæði sem staðið hafa yfir í á annan áratug. Nú er mál að linni. Hefjumst handa við Þ-H leiðina nú þegar. Það skal tekið fram að ég er ekki á móti jarðgöngum.


Með vinsemd og virðingu
Magnús Sigurgeirsson


  

mßnudagur 2. j˙lÝá2018

Vegur yfir Ůorskafj÷r­

Sæl öll !

Við eigum Vegagerðinni margt gott að þakka og ekki má skorta þakklæti til þeirra Vegagerðarstjórnenda, Magnúsar Vals Jóhannssonar framkvæmdastjóra mannvirkjasviðs, Guðmundar Vals Guðmundssonar forstöðumanns og Ingva Árnasonar svæðisstjóra Borgarnesi, fyrir jákvæðar undirtektir þeirra við tillögu um að leggja nýjan veg yfir Þorskafjörð, frá Reykjanesi yfir á Skálanes, sem yrði góður kostur, og mikil breyting frá því ég fór þarna fyrst um fyrir 65 árum síðan.


Ég kom í Vestfjarðaleiðarrútuna á Akranesvegamótunum (erfiður á Akranesi, á leið í sveitina) og endaði í Bjarkalundi, eftir akstur um vel grýttar fjörur Gilsfjarðar, - en þar er nú eitt glæsivirki Vegagerðarinnar, vegurinn yfir Gilsfjörð -. Var svo sóttur á báti frá Skálanesi, að Hofsstöðum í Þorskafirði og fluttur til Skálaness, 8 ára. Ógleymanlegt.


Ég hef síðan farið þó nokkrar ferðir vestur til Skálaness og reyndar líka til baka (bý í Reykjavík) og alltaf glaðst yfir hverjum nýjum vegarkafla á þessari leið, sem Vegagerðin hefur byggt upp og lagt á bundið slitlag. Enn get ég ekið um nokkuð af gamla malarveginum, það sem enn er eftir: Hjallaháls, Djúpifjörður, Ódrjúgsháls, Gufufjörður og út á Skálanes, beygjur, hæðir og holur, frá Gull-Þórisstöðum og til Skálaness, en ekki lengur ofan í lækjarsprænurnar, Krossgil, "Síkið" í Djúpadal, Brekkuána eða Krakána á Skálanesi.                                                                             Miklar breytingar.


Ég óska Vegagerðinni velfarnaðar með þennan lokaáfanga og að verkið verði Vegagerðarstjórnendum til lofs um langan aldur, og ekki ætti að skaða, að biðja Almættið um vernd yfir verkið, eins og Jón fóstri minn á Skálanesi, hefði gert.

Ingvi frá Skálanesi.

  

Karl Kristjßnsson
Karl Kristjßnsson

Tilboð um kostun á óháðu rýni er tilkomið vegna minnar bókunar á sveitarstjórnarfundi 8.mars, þar sem tekin var ákvörðun um að leið Þ-H yrði lögð til grundvallar við breytingu á aðalskipulagi;

 "KK lét bóka vegna atkvæðis gegn tillögunni. Hagsmunir Reykhólahrepps eru skýrir í þessu máli, að farin verði sú leið sem veldur minnstum umhverfisspjöllum, liggur nær bæjunum í Gufudalssveitinni og sátt getur orðið um. Allur samanburður leiða Þ-H og D2 grundvallast af því hvernig þær eru hannaðar og útfærðar. Lengd jarðgangna undir Hjallaháls vekur furðu, sem og brattur sneiðingur upp á Ódrjúgsháls, framanlega á hálsinum en ekki utar þar sem hálsinn er lægri og snjóléttari. Vegagerðin ein hefur komið að því verki að hanna og úrfæra veglínurnar, en engir hlutlausir fagaðilar með aðra sýn, reynslu og hugmyndir að lausnum. Betur útfærð jarðgangnaleið er eina raunhæfa leiðin til að losa málið úr þeim átakafarvegi sem það hefur verið í allt of lengi og sættir sjónarmið umhverfis og vegagerðar. Skammtíma fjárhagshagsmunir eiga ekki að ráða för þegar teknar eru ákvarðanir um framkvæmdir sem valda óafturkræfu raski á viðkvæmri náttúru og lífríki. Okkur ber að skila landinu í ásættanlegu horfi til komandi kynslóða."

 

Í aðalskipulagi setur sveitarfélagið fram sína stefnu um landnotkun, skipulaginu fylgir umhverfisskýrsla, samkvæmt lögum um umhverfismat áætlana. Sveitarfélagið á ekki að notast eingöngu við upplýsingar frá framkvæmdaaðila í sinni skipulagsvinnu og það þarf að vera tryggt að ákvarðanir um landnotkun séu byggðar á bestu fáanlegu upplýsingum.

 

Vinna Norsku verkfræðistofunnar er til að byggja betur undir ákvarðanir sveitarstjórnar.  

Það er vilji sveitarstjórnar að íbúum verði gefinn kostur á að koma að sjónarmiðum og beina spurningum til verkfræðinga Multiconsult. Það er eðlilegt að Multiconsult fari gróft yfir alla kosti og rýni útreikninga Vegagerðarinnar og athugi hvort betur sé hægt að útfæra leiðir.

 

 Þ-H er sú leið sem Vegagerðin vill og ætlar sér að fara, D2 er sú leið sem veldur minnstum umhverfisspjöllum samkvæmt niðurstöðu umhverfismats framkvæmdarinnar, þess vegna var unnið með þær báðar í skipulagsvinnunni til að byrja með en meirihluti sveitarstjórnar tók síðan ákvörðun 8.mars um að Þ-H yrði lögð til grundvallar við breytingu á aðalskipulaginu.

 

Til upplýsingar.

 Það er tvennt sem nýtur sérstakrar verndar varðandi vegagerð um Gufudalssveit. Grunnsævið er skilgreint sem votlendi og nýtur sérstakrar verndar samkv. 61.gr náttúruverndarlaganna, „því má ekki raska nema brýna nauðsyn beri til“. Lög um vernd Breiðafjarðar ná líka til fjarðanna og ákvæði Ramsarsamningsins um vernd votlendis eiga líka við.

 

Teigsskógur nýtur líka sérstakrar verndar „honum má ekki raska nema brýna nauðsyn beri til“ og ákvæði Bernarsamningsins um villtar plöntur og dýr og lífssvæði þeirra eiga líka við um hann. Á Hallsteinsnesinu er líka svæði 303 á náttúruminjaskrá. Hvorttveggja skógurinn og grunnsævið er einstakt á landsvísu og það eru ríkir framtíðarhagsmunir fyrir Reykhólahrepp að varðveita skóginn óraskaðann og komast hjá því eins og kostur er að þvera firðina.

 

Bestu kveðjur 

Kalli á Kambi

 

 

  

laugardagur 5. maÝá2018

Ůa­ ß a­ sko­a allar lei­ir

Gunnbj÷rn Ëli Jˇhannsson
Gunnbj÷rn Ëli Jˇhannsson
1 af 3

Vegna umfjöllunar um vegagerð um Teigsskóg, endurútreikning og endurhönnun af norskum aðila á leiðum sem þar hafa verið settar fram af hálfu svokallaðra umhverfissinna og kostunnarmanna þeirra, fóru undirritaðir að athuga hvaða leiða ætti að líta til, og viti menn; það á að skoða, reikna og ef til vill endurhanna leið D (göng um Hjallaháls) sem er bara hálfnað verk. Það þarf þá önnur göng Djúpifjörður-Gufufjörður á móti ÞH þverun fjarða og um Teigsskóg.

 

Líklega á að taka til skoðunnar A leið sem hefur aldrei verið inni hjá Vegagerðinni vegna kostnaðar. En það á EKKI að taka leið I til skoðunar sem er eins og ÞH leiðin sem Vegagerðin hefur ákveðið að fara, nema fer ekki yfir þrætueplið Teigsskóg heldur á að liggja frá Hallsteinsnesi og yfir í Laugalandshraun tengja bæði Bjarkalund og hringtengja Reykhóla við Vestfjarðaveg 60.

 

Eða má bara  gera hvað sem er við landið annars staðar en við Teigsskóg og i landi Grafar í Þorskafirði, til dæmis skera hlíðar í Djúpafirði og klaungrast upp á Ódrjúgsháls og niður í Gufufjörð ?

 

Það hlýtur að vera krafa sveitarstjórnar og samfélagsins að skoðaðar verði allar leiðirnar sem Vegagerðin hannaði og reiknaði kostnað á, til að geta borið allt saman. Og síðast en ekki síst þarf að liggja fyrir áætlun hvenær hægt sé að keyra viðkomandi leiðir sem Vegagerðin hefur hannað.

 

Það skyldi þá ekki vera að þessir svokölluðu umhverfissinnar og eigendur þessara jarða sem ekki vilja veginn um Teigsskóg séu að kaupa sér leið framhjá sínu landi með kostunarmönnunum sem telja sig umhverfissinna!

 

Með vinsemd og virðingu  

Gunnbjörn Óli Jóhannsson,  Gústaf Jökull Ólafsson

 

 

  

mi­vikudagur 11. aprÝlá2018

Fri­lřsum Teigsskˇg

Karl Kristjßnsson
Karl Kristjßnsson

Í Íslendingabók Ara fróða Þorgilssonar segir að við upphaf byggðar á Íslandi hafi landið verið „viði vaxið milli fjalls og fjöru.“ Landnámið er talið hafa gengið hratt fyrir sig og að landið hafi verið fullnumið þegar Alþingi var stofnað á Þingvöllum 930. Með komu fyrstu landnámsmanna byrjar búseta mannsins að setja mark sitt á landslag og gróður. Í fyrstu er það eldurinn og búféð sem mestum breytingum veldur á viðkvæmum gróðri og ásýnd landsins og er talið að skógurinn hafi að mestu verið horfinn 250 árum eftir landnám. Seinna, á tuttugustu öldinni, koma til sögunnar stórvirkar vinnuvélar, jarðýtur, gröfur sem og sprengiefni. Vegur er ruddur heim að hverju byggðu bóli, mýrar ræstar fram og búskapur aukinn. Þéttbýli myndast með tilheyrandi raski og ágengar plöntur breiðast út, t.d. lúpína og kerfill og einnig skógrækt með framandi tegundum.

Nú er svo komið að á láglendi landsins er búsetulandslag ríkjandi. Afmörkuð landsvæði sem kalla má „landnámsland“ og eru lítið eða óröskuð af búsetu mannsins má telja á fingrum annarrar handar. Teigsskógur í Þorskafirði er eitt þeirra svæða. Hlíðin á milli Grafar og Hallsteinsness í Þorskafirði er eitt heilstæðasta vistkerfið sem til er á landinu sem er „viði vaxið milli fjalls og fjöru.

 

Fjölskrúðugt lífríki

Prófessor Ólafur Arnalds segir í grein 12. sept. 2016: „Gönguleiðin um Teigsskóg, frá Hallsteinsnesi að Gröf í Þorskafirði, er meðal þeirra fallegustu sem finnast á landinu. Landið er ósnortið og viði vaxið, birki með stökum reynitrjám, sem mörg hver eru ansi státin. Skóglendið er illfært gangandi fólki svo nota verður leiðina neðan skógar nærri flæðarmálinu. Fjaran einkennist af gríðarlega miklum fjölbreytileika: hvers kyns flæður og leirur, ofar eru votlendi af misjöfnu seltustigi, en síðan tekur skógarþykknið við. Hér er að finna einna mestan mun flóðs og fjöru á landinu og þótt víðar væri leitað sem eykur mjög á fjölbreytni strandsvæðisins. Boðaföll og fossar á innflæðinu auka náttúrufegurðina. Lífríkið er feykilega fjölskrúðugt, hér búa margar fuglategundir: mófuglar, votlendistegundir og ýmsar tegundir sem treysta á fjöruna og sjóinn. Ernir nýta innlögnina og svífa inn með hjallanum og sækja sér æti að vild. Óðalið úti fyrir nesinu. Óvíða á landinu er að finna jafn heillandi óraskaða heild frá fjöru til fjalls en að auki hefur skógurinn mjög sérstaka stöðu sem óraskaður birkiskógur. Ljóst að þessi gönguleið er einna fallegust á öllum Vestfjörðum og ætti tvímælalaust að sinni henni betur.“

 

Áskorun um verndun

Íbúar í Reykhólahreppi eiga ekki að þurfa að fórna dýrmætum náttúruperlum fyrir umbætur í vegamálum. Teigsskóg á að friðlýsa og vernda sem óraskað land. Ég skora á sveitunga mína að standa vörð um náttúru, umhverfi og lífríki sveitarinnar, þar liggja framtíðar möguleikar og tækifæri til uppbyggingar í ferðaþjónustu, og láta ekki undan þrýstingi og hótunum um að eina færa leiðin til vegabóta í Gufudalssveit sé í gegnum Teigsskóg og um mynni Djúpafjarðar og Gufufjarðar.

Ég skora á Vegagerðina, þingmenn kjördæmisins, Fjórðungssambandið og nágrannasveitarfélög að losa málið úr því átakaferli sem það hefur verið í alltof lengi og virða niðurstöðu Hæstaréttar frá 2009, virða náttúruverndarlög og lög um vernd Breiðafjarðar, niðurstöðu umhverfismatsins frá 23. mars í fyrra og láta af fordæmalausu þráhyggjustagli við að reyna að þræla vegi í gegnum skóginn og eyðileggja með því fágæta náttúruperlu en snúa sér frekar af krafti að því að fullhanna og fjármagna nýjan veg um Gufudalssveit með jarðgöngum undir Hjallaháls.

Skammtíma fjárhagshagsmunir eiga ekki að ráða för þegar teknar eru ákvarðanir um framkvæmdir sem valda óafturkræfum umhverfisspjöllum. Það eina sem íslenskt samfélag hefur ekki efni á að gera er að eyðileggja síðustu leifarnar sem eftir eru af „landnámslandinu“.

 

 

Karl Kristjánsson, Kambi.

Sveitarstjórnarfulltrúi í Reykhólahreppi.

 


  

Kristinn H. Gunnarsson
Kristinn H. Gunnarsson

 

Sagan endalausa um vegagerð í Gufudalssveit dregst enn á langinn og hefur þó staðið nokkuð samfleytt frá 2002. Þar er Teigsskógur ásteytingarsteinninn. Tekist hefur að gera andstöðu við veg um jaðar Teigsskógs að sérstöku baráttumáli sem er til sannindamerkis um áhrif umhverfisverndarsinna. Þannig hefur málið sjálft horfið í skuggann af valdabaráttu. Stöðvun framkvæmda um Teigsskóg hefur þannig orðið mælikvarði á völd og áhrif. Samtök eins og Landvernd og ríkisstofnunin Skipulagsstofnun hafa tekið Teigsskóg í gíslingu og hafa ótæpilega misbeitt áhrifum sínum og valdi. Meira að segja hefur Skipulagsstofnun svikið nýlegt samkomulag við samgönguráðherra og torveldað vegagerðina.

Löðrungur Vinstri grænna

Skýrasta dæmið til sönnunar því að málefnið sjálft er aukaatriði eru fjölmörg dæmi um tvöfeldni í viðhorfum til umhverfisverndar. Innan áhrifasvæðis höfuðborgarinnar eru lögin túlkuð á annan hátt en utan þess og reglum beitt eða öllu heldur misbeitt í samræmi við tvöfeldnina. þetta gerir stöðu Vestfirðinga afar erfiða sem ekki batnar við sívaxandi áhrif öfgakenndra skoðana innan stjórnmálaflokkanna. Þar gengur flokkur forsætisráðherra lengst í því að samsama sig öfgunum og fórnar hiklaust hag veikra byggða til þess að afla fylgis á höfuðborgarsvæðinu þar sem stífustu jaðarskoðanir í umhverfismálum eiga hvað mestan hljómgrunn. Skipun tveggja lykilmanna úr Landvernd í æðstu pólitísku stöður í Umhverfisráðuneytinu staðfesta að flokkurinn vill fjárfesta pólitískt í ýtrustu viðhorfum í umhverfismálum. Vestfirðingar hafa ekki áður verið löðrungaðir verr á ögurstundu en einmitt nú.

Engin umhverfisrök

Staðreyndin er sú að hin efnislegu rök gegn vegagerð í jaðri Teigsskógs eru fátækleg og veikburða. Því er helst borið við að það þurfi að vernda birkilendið almennt og sérstaklega í Teigsskógi vegna umfangsmeiri og heilsteyptari gróðurþekju en annars staðar. Þetta fæst ekki staðist þegar opinber gögn eru skoðuð. Fjölmargir birkiflákar á Vestfjörðum eru til og margir þeirra eru stærri en Teigsskógur. Bara í Þorskafirðinum einum er birkilendið liðlega 2000 hektarar, þar af er Teigsskógur um 670 hektarar (ha). Á Vestfjörðum eru samtals um 30.900 ha. Teigsskógur er bara lítið brot af skóglendinu eða um 2%. Talið er að aðeins 18,9 ha spillist tímabundið vegna vegagerðarinnar. Það er svo lítill hlutis birkilendis í Þorskafirðinum að ekki tekur því að tala um það, að ekki sé minnst á Vestfirðina í heild.
Þá er birkið í mikilli sókn um allt land vegna hlýnandi veðurfars, en merkilegt nokk, hvað mest á Vestfjörðum. Á 23 ára tímabili frá 1989 til 2012 jókst birkilendi á Vestfjörðum um 4400 ha. Það er eins og gefur að skilja alls konar landssvæði sem hefur bæst við það sem fyrir var. Teigsskógur verður bara eitt af mörgum svæðum sem bæta landið og þykja sérstök. Á hverjum 3 – 4 árum bætist við birkilendi á stærð við Teigsskóg og ný svæði verða til. Þetta mun halda áfram næstu áratugina svo mikið er víst. Náttúrufræðilegu rökin eru einfaldlega ekki frambærileg.

Engin kostnaðarrök

Þá er heldur ekki að finna neitt haldreipi gegn vegagerð um Teigsskóg í kostnaðinum. Þvert á móti þá krefjast allir helstu andstæðingar Teigsskógsleiðarinnar að farin verði önnur leið sem kostar nærri tvöfalt meira. Þetta er krafa Skipulagsstofnunar og Landverndar. Þegar framkvæmdastjóri Landverndar er orðinn umhverfisráðherra fyrir flokk forsætisráðherra er það yfirlýsing þess efnis að forsætisráðherrann og flokkur hans styður kröfuna um milljarða króna óþarfa útgjöld.
Teigsskógsleiðin kostar um 7,3 milljarða króna sem er mikið fé fyrir 20 km veg. En krafa Skipulagsstofnunar og fleiri um jarðgöng í gegnum Hjallaháls þýðir að kostnaðurinn verður um 13,3 milljarðar króna. Viðbótarútgjöldin eru 6 milljarðar króna.
Þessir peningar liggja ekki á lausu hjá ríkinu. Krafa um dýrari leið þýðir að framkvæmdum verður ýtt til hliðar. Fyrir 6 milljarða króna má gera mikið í vegamálum. Sem dæmi þá kosta ný mislæg gatnamót í Hafnarfirði 1,1 milljarða króna og breikkun Vesturlandsvegar í 1+2 veg kostar 3 – 4 milljarða króna. Það væri hægt að borga báðar þessar framkvæmdir fyrir umframútgjöldin sem krafist er. Málið er enn verra þegar litið er til umferðarinnar. Umferðin í Gufudalssveit er um 170 bílar á dag að jafnaði og gæti aukist upp í 300 – 350 bíla. Til samanburðar á fara um 8.100 bílar á dag að jafnaði um Vesturlandsveg og þar er daglega kallað á úrbætur.

Ábyrgðarleysi

Það á að fara vel með opinbert fé. Það lýsir miklu ábyrgðarleysi að ætla að eyða 6 milljörðumm króna meira í eina framkvæmd en nauðsynlegt er. Sérstaklega er það alvarlegt þegar opinber stofnun eins Skipulagsstofnun ríkisins setur fram þessa kröfu. Það er slíkt ábyrgðarleysi af forstöðumanni stofnunarinnar að við það verður ekki unað. Slíkt verður að hafa afleiðingar. Nú líður að því að 5 ára ráðningartími fostöðumanns rennur út. Það á að auglýsa starfið og ráða annan og ábyrgari í það.


Kristinn H. Gunnarsson
 

  

f÷studagur 29. desemberá2017

Ífgar leiddar til ÷ndvegis

Kristinn H. Gunnarsson
Kristinn H. Gunnarsson

 

Á síðustu árum hefur málflutningur í umhverfismálum orðið hvassari og öfgakenndri en áður hefur þekkst. Áherslurnar hafa færst frá því að lágmarka áhrif einstakra framkvæmda eða annarra mannlegra athafna á umhverfið yfir í að koma í veg fyrir framkvæmdir og banna nýtingu og umferð. Sérstaklega hefur þetta ágerst eftir hrun viðskiptabankanna. Þá virðast hafa orðið vatnaskil að þessu leyti. Það kemur einna skýrast fram í því að þarfir fólks eru orðnar víkjandi fyrir náttúrunni, rétt eins og náttúran sé orðið sjálfstæð persóna í lífríkinu sem er öllu öðru æðri. Hún er orðin hinn nýi guð sem fallið er frammi fyrir í tilbeiðslu.

Tveir heimar – tvær þjóðir

Að vísu á þetta bara við um náttúruna utan höfuðborgarsvæðisins. Einhvers staðar utan við það svæði er dregin lína. Innan hennar eru það framfarirnar sem eru hinn mikli guð en þar fyrir utan er það náttúran. Afleiðingin verður að tvær ólíkar umhverfisstefnur eru reknar í landinu. Innan höfuðborgarsvæðisins má leggja vegi um viðkvæm hraun, jafnvel á Þingvöllum, en utan þess má ekki hrófla við kjarrgróðri. Innan þess má byggja hótel hvarvetna, meðal annars á elsta kirkjugarði landsins. Utan þess má ekki reisa hótel við Mývatn eða í Kerlingarfjöllum. Innan höfuðborgarsvæðisins má þvera firði og voga og reisa hábrýr en utan þess má ekki sneiða hjá mestu snjóalögunum í fjörðunum við Breiðafjörð.

Með markvissum áróðri og með skírskotun til verndar náttúru lands og sjávar hefur orðið til þessu tvöfalda umhverfisstefna sem nýtur umtalsverðrar hylli meðal landsmanna, sérstaklega á höfuðborgarsvæðinu þar sem kjósendur eru flestir. Nú á tímum er fólk meðvitað um ótrúlegan eyðingarmátt hins tæknivædda iðnaðarþjóðfélags og við blasir sá möguleiki að jörðin geti orðið óbyggileg. Óttinn er tilfinning sem óprúttnir geta auðveldlega spilar á. Með vísan til tortímingar eða heimsendis er auðvelt að afla stuðnings við annars mjög umdeilanleg markmið.

Við þessar aðstæður verða ávallt öfgarnar árangursríkar. Það hefur gerst hér á landi eins og annars staðar. En hin íslenska útgáfa er þó sérstök að því leyti að þeir sem lengst ganga vilja ekki búa við afleiðingar eigin málflutnings. Þess vegna byrjar umhverfisstefnan ekki fyrr en komið er út fyrir hina eiginlegu og óeiginlegu borgarmúra. Innan þess er framfarasvæðið og ekkert skal til sparað til þess að bæta efnahaginn, atvinnumöguleikana og lífskjörin. Verndunarstefna verður því öfgakenndari og ósveigjanlegri eftir því sem framfarasvæðið fjarlægist meir. Það er búið að skipta landi og þjóð í tvo aðskilda heima með ólíku gildismati á náttúrunni og stöðu hennar.

Hinn sanni tónn

Því meir sem fólk óttast um framtíðina verður það móttækilegra fyrir öfgakenndum málflutningi. Stjórnmálaflokkar hafa áttað sig á því að það borgar sig að vera vinur náttúrunnar. Það gefur aukið fylgi í kosningum. Í vaxandi mæli hefur verið teflt fram umhverfismálum sem stefnumáli flokkanna. Það er til þess fallið að setja flokkinn í jákvætt ljós. Það er hins vegar ekki vinsælt að boða lífskjaraskerðingu, samdrátt í atvinnu eða annað af því taginu. Svo þannig varð til sú „snjalla“ lausn að færa umhverfismálin bara út fyrir efnahagsumhverfi fjöldans. Þá er hægt að vera sannur umhverfisflokkur sem sýnir aðdáunarverða fórnfýsi og er reiðubúinn að tala fyrir erfiðum ákvörðunum - utan þjónustusvæðis vaxtarsvæðisins.

Landvernd Vinstri grænna

Á stuttum tíma hefur orðið eðlisbreyting á markmiðum og starfsemi Landverndar. Fylgt hefur verið harðari og öfgakenndri stefnu en áður. Í stað þess að leggja áherslu á bæta áform er nú lagst af hörku gegn framkvæmdum. Rekin er sú stefna að kæra mál á öllum stigum , tefja og þæfa þau með lagakrókum. Nú er áherslan á að stöðva mál en ekki lagfæra. Á síðasta starfsári Landverndar var lögð fram 21 kæra, auk þess sem rekin voru dómsmál. En það er einkennandi að allir krafturinn beinist gegn framkvæmdum á landsbyggðinni. Sjö kærur voru gegn raflínulögn frá Þeistarreykjum til Húsavíkur og aðrar kærur voru til höfuðs hótelbyggingum í Mývatnssveit og í Kerlingarfjöllum. Ekkert mál var rekið fyrir náttúruna á höfuðborgarsvæðinu.

Það er til marks um uppgang öfganna í þessum efnum að höfuðarkitektar svartstakkastefnu Landverndar eru nú í boði Vinstri grænna orðnir hæstráðendur í Umhverfisráðuneytinu, annar sem ráðherra og hinn sem aðstoðarmaður ráðherrans. Það er meðvituð ákvörðun um að fórna minni hagsmunum fyrir meiri, að þeirra mati. Vestfirðingar falla undir minni hagsmunina.

Kristinn H. Gunnarsson
 

 

Atbur­adagatal

« Oktˇber 2020 »
S M Ů M F F L
        1 2 3
4 5 6 7 8 9 10
11 12 13 14 15 16 17
18 19 20 21 22 23 24
25 26 27 28 29 30 31