Tenglar

mi­vikudagur 14. desemberá2011 | Hlynur ١r Magn˙sson

Villig÷tur Skipulagsstofnunar

١rˇlfur Halldˇrsson.
١rˇlfur Halldˇrsson.

Þórólfur Halldórsson skrifar:

 

Klisjukenndir og yfirdrepssamir frasar eru áberandi í áliti Skipulagsstofnunar um mat á umhverfisáhrifum framkvæmdarinnar Vestfjarðavegur (60) milli Eiðis í Vattarfirði og Þverár í Kjálkafirði, Reykhólahreppi og Vesturbyggð, sem stofnunin auglýsti í Morgunblaðinu fyrir helgi.

 

Í áliti sínu segir Skipulagsstofnun m.a.: „Þá er ljóst að þveranirnar eru á svæði sem nýtur verndar samkvæmt sérlögum um vernd Breiðafjarðar, m.a. vegna landslags, en einnig fjörur og leirur, og að mati Skipulagsstofnunar munu fyrirhuguð mannvirki rýra gildi svæðisins.“

 

Ég hef setið í Breiðafjarðarnefnd frá upphafi, og tekið þátt í gerð allra umsagna nefndarinnar vegna skipulags, umhverfismats og framkvæmda sem snerta verndarsvæði Breiðafjarðar, þ.m.t. um þá framkvæmd sem hér um ræðir. Mér blöskrar því hvernig Skipulagsstofnun virðir lögbundnar umsagnir nefndarinnar að vettugi. Í umsögn Breiðafjarðarnefndar til Skipulagsstofnunar 17. ágúst sl. um þessa framkvæmd segir:

  • Breiðafjarðarnefnd fór yfir fyrirliggjandi gögn og leggst ekki gegn þeirri veglínu sem Vegagerðin leggur til. Nefndin telur að neikvæðum umhverfisáhrifum sé haldið í því lágmarki sem unnt er miðað við þá þröngu kosti sem landsvæðið býður upp á til vegagerðar. Nefndin telur að þau áform um mótvægisaðgerðir og vöktun sem fram koma í frummatsskýrslunni séu ásættanleg.

Hér verður að hafa í huga að landrými til vegagerðar á þessum slóðum er mjög takmarkað vegna þess hversu stutt er milli fjalls og fjöru. Vegur sem er lagður þvert yfir fjörð skerðir aðeins fjörur og leirur sem nemur breidd vegpúðans og er mun öruggari. Full sjávarföll eru tryggð innan þverana með lengd brúa. Vegur sem er lagður fyrir fjarðabotna fer um mun stærri hluta fjara, leira og fitja, auk þess sem hann liggur undir hlíðum þar sem bæði er hætta af skriðum, grjóthruni og snjóflóðum og jafnvel algerri lokun vegna snjóþyngsla, sbr. skaflinn sem lokaði veginum í Kjálkafirði og Ómar Ragnarsson flutti fréttir af fram í ágúst árið 1995.

 

Samkvæmt tillögu Vegagerðarinnar verður Kjálkafjörður sem betur fer þveraður allnokkuð fyrir utan þennan illræmda skafl, sem verður til við það að ríkjandi norðaustlægar áttir feykja snjó niður af Glámuhálendinu.

 

„Að mati Skipulagsstofnunar munu fyrirhuguð mannvirki rýra gildi svæðisins.“ Hvaða gildi eru þetta, með leyfi að spyrja? Þetta hlýtur að vera einangrað gildismat þeirra sem skrifa þennan texta Skipulagsstofnunar, sem er alveg eins líklegt að aldrei hafi komið á þessar slóðir. Ég fullyrði að þessar framkvæmdir munu auka mjög verulega gildi svæðisins að mati þeirra sem eiga heima í þessum landshluta, þreyja þar þorrann og góuna, og þurfa að aka um þennan veg árið um kring, ekki bara til spari um hásumar. Ef þetta er gildismat farfuglanna sem Skipulagsstofnun er að tíunda, þá er það rangt mat, því gildi svæðisins til fæðuöflunar fyrir farfugla rýrnar minna við það að þvera firðina heldur en að leggja vegi um fjarðarbotna.

 

Skipulagsstofnun telur að helstu neikvæðu áhrif framkvæmdanna verði „áhrif á landslag og sjónræn áhrif ...“ Mér er spurn, hljóta ekki áhrif á landslag alltaf að vera sjónræn út frá sjónarhorni mannsins? Er kannski hægt að þefa þau uppi eða greina þau með því að leggja við hlustir? Þarf álit heillar ríkisstofnunar til að átta sig á því að framkvæmdir á yfirborði jarðar hafa sjónræn áhrif fyrir þá sem þangað horfa? Nýtt stórhýsi Náttúrufræðistofnunar Íslands í hrauninu við Urriðaholt hefur t.d. mjög neikvæð áhrif á landslag í sínu umhverfi og skiptir þar upp landslagsheildum - hvað sagði Skipulagsstofnun um það?

 

Sem betur fer eru sveitarstjórnir ekki bundnar af áliti Skipulagsstofnunar við töku ákvörðunar um útgáfu framkvæmdaleyfis en þurfa þó að taka rökstudda afstöðu til álits stofnunarinnar, sem hljómar ankannalega í ljósi þess hversu stofnunin sjálf skautar fimlega framhjá því að byggja á marktækum rökstuðningi í áliti sínu.

 

Viska Skipulagsstofnunar um erni er svo kapítuli út af fyrir sig, og efni í aðra grein.

 

___________________________

 

Grein þessi birtist í Morgunblaðinu í dag. Þórólfur Halldórsson er fyrrv. sýslumaður Barðstrendinga og mikill áhugamaður um samgöngumál á svæðinu. Hann á sæti í Breiðafjarðarnefnd fyrir hönd Vestur-Barðstrendinga.

 

Skrifa­u athugasemd:


Atbur­adagatal

« Nˇvember 2017 »
S M Ů M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30