Tenglar

mi­vikudagur 13. aprÝlá2011 |

Teigsskˇgur og lei­ B

Gunnlaugur PÚtursson.
Gunnlaugur PÚtursson.
Gunnlaugur Pétursson verkfræðingur skrifar:

 

Þórólfur Halldórsson skrifaði nýlega pistil á Reykhólavefinn og á bb.is um leið B og það gerði einnig Úlfar B. Thoroddsen, sem telur „óbilgjarna afstöðu landeigenda á Hallsteinsnesi“ hafa staðið í vegi fyrir þessari leið. Þetta sama álit kemur fram í fréttaskýringu í Morgunblaðinu þann 8. apríl, þar sem ekki er hægt að skilja annað en að eingöngu „landeigendur hafi staðið í vegi fyrir leið B“. Þar stendur einnig að „Hæstréttur hafi ógilt úrskurð umhverfisráðherra vegna galla í umhverfismati. Þetta hvort tveggja er auðvitað ekki rétt eins og sést hér að neðan. Það var ekki umhverfismatið sem féll í Héraðsdómi og í Hæstarétti vegna galla, heldur úrskurður fyrrverandi umhverfisráðherra í kjölfar þess. Þess má geta að bæði dómstig voru fjölskipuð, 3 dómarar í Héraðsdómi og 5 í Hæstarétti, og enginn þeirra skilaði sératkvæði.

 

Mér finnst því rétt að birta hér brot af umsögnum um Teigsskóg og leið B, því að menn virðast vera búnir að gleyma ýmsu varðandi þetta mál. Allar feitletranir eru mínar og sums staðar er ég með athugasemdir eða skýringar. Ég gæti einnig birt samsvarandi og fjölmargar umsagnir um þveranir Djúpafjarðar og Gufufjarðar, áhrif leiðar B á arnarvörp, uppeldisstöðvar skarkola og þangnám í Djúpafirði og margt fleira, en það verður að bíða, svo og vangaveltur um umferðaröryggi á leiðum B og D og jarðgöng undir Hjallaháls.

 

 

Teigsskógur skv. matsskýrslu Vegagerðarinnar

 

Eins og kemur fram í matsskýrslunni og meðfylgjandi sérfræðiskýrslum liggur leið B gegnum Teigsskóg. Þetta er talinn „stærsti samfelldi birkiskógur á Vestfjörðum“ og er á náttúruminjaskrá. Skógur og birkikjarr nær frá Þórisstöðum og út undir Hallsteinsnes. Teigsskógur er talinn vera 400 ha að stærð í skýrslunum og færu um 50 ha undir veg og námur fyrir utan tilheyrandi rask, m.a. vegarslóða að námum og athafnasvæði.

 

Í skýrslunni um gróðurfar sem fylgdi matsskýrslunni eru ágætar lýsingar á skógunum og er bent sérstaklega á bls. 2 og bls. 16-17, m.a. þetta:

 

 • „Birkiskógurinn er nálægt 400 ha stór, samfelldur frá núverandi vegi og út undir Hallsteinsnes, frá fjöru að nálægt 120 m hæð yfir sjávarmáli. Nokkuð er um opin svæði innst í skóginum og einnig gisnar hann út undir Hallsteinsnesi.“
 • „Þetta er eina stóra skóglendið sem snýr í suður og eitt af tveimur sem er á utanverðum nesjum. Hitt er á Vattarnesi, þar sem vegur fer um nú þegar og þar er nokkur sumarhúsabyggð.“
 • „Mjög fá af þessum svæðum [þ.e. birkisvæðum] eru vaxin svo þéttum skógi og svo ósnortin af mönnum og búsmala sem þessi skógur.“
 • „Slík vistkerfi [þ.e. gamlir birkiskógar] er annars aðeins að finna á litlum svæðum efst til fjalla og í norðurjaðri annarra skóga ...“
 • „Við skoðun vakti mesta athygli hve þéttur en jafnframt fjölbreyttur skógurinn er; fyrr er getið um mismun eftir landslagi þar sem skjól og vatnsmiðlun stýra vaxtarlagi trjánna. Auk þessa er skógurinn opnari og lágvaxnari umhverfis bæina en miðhluti skógarins, (stöðvar 3500 - 8000) er í senn hávaxnari og þéttari.“

 

Í þessari sömu skýrslu er líka lýst afleiðingum vegagerðar þar eftir leið B. Þetta má t.d. finna á bls. 2 og bls. 17:

 

 • Nesin tvö, Hallsteinsnes og Grónes (leiðir B og C), eru svo til ósnortin af mannavöldum og mun vegagerð um þau hafa mikið rask í för með sér. Á vesturströnd Þorskafjarðar og að Hallsteinsnesi (leið B), er þéttur og mikill birkiskógur, Teigsskógur, og mun vegagerð hafa afgerandi áhrif á hann.“
 • Verði þessi leið fyrir valinu raskast heildstætt, nánast ósnortið land frá Þórisstöðum að Hallsteinsnesi, (svæði 8), auk þverunar Djúpa- og Gufufjarða.“
 • Lögun skógarins sem er langur og mjór, veldur því að vegur um hann hefur mun meiri áhrif en landssvæðið sem fer undir veg, segir til um. Líklega eru svæði mjög misjöfn í svona fjölbreyttu landslagi þar sem skiptast á skýldir, rakir bollar og opin holt. Verndargildi lýtur annars vegar að því að hér hefur skógurinn verið mjög lengi og því er um að ræða heildstætt þróað vistkerfi og hins vegar því erfðaefni sem þarna er að finna. Hugsanlega hefur orðið einhver aðgreining á erfðarefni eftir aðstæðum þannig að mikilvægt er að vernda samfelld svæði þar sem aðstæður eru misjafnar.“

 

Í skýrslunni um gróðurfar (bls. 20) er vitnað í ferðalýsingu Sigurðar Blöndal 1980. Sigurður er ekki að skafa utan af hlutunum og segir flest sem segja þarf, þegar hann ritar:

 

 • „Skoðuðum Teigsskóg. Stórkostlega fallegt náttúrufyrirbæri. „Viði vaxið milli ... og fjöru“. Samfellt kjarr. Hæst 4-5 m. Jarðvegur mest frábær ... Sennilega um 200 ha.“

 

 

Nokkrar fyrri skoðanir á vegi um Hallsteinsnes og Teigsskóg

 

Í skýrslunni „Stytting leiða: Frá Reykjavík til Eyjafjarðarsvæðisins, Norðanverðra Vestfjarða [og] Miðausturlands“ frá áætlanadeild Vegagerðarinnar, nóvember 2003, kemur þetta fram:

 

 • „Leiðin um Hallsteinsnes er nefnd hér - en ekki er með henni mælt, þar eð vegagerð þar gæti valdið náttúruspjöllum.“

 

Í drögum að tillögu að matsskýrslunni var leið B einfaldlega hafnað af Vegagerðinni vegna fjárhagslegra sjónarmiða, umhverfissjónarmiða og verndarsjónarmiða (sjá bls. 11 í þeirri skýrslu):

 

 • „Að öllu þessu athuguðu er þessi leið ekki talin raunhæf og því ekki gert ráð fyrir að fjalla um hana í mati á umhverfisáhrifum.“

 

Árið 2000 mynduðu sveitarfélögin í Barðastrandarsýslu og Dalasýslu (Vesturbyggð, Tálknafjarðarhreppur, Reykhólahreppur, Dalabyggð og Saurbæjarhreppur) samstarfshóp til að vinna að sameiginlegum hagsmunamálum þeirra er snerta vegagerð. Hópurinn sendi „Ákall til samgönguráðherra og Alþingis. Vestfjarðavegur, lífæð byggðanna í Barðastrandarsýslu og Dalasýslu“. Þar kemur fram að þeir búast ekki við að vegur út Hallsteinsnes og yfir firði komist í gegnum umhverfismat og taka sérstaklega fram að mikið sé til þess vinnandi að koma í veg fyrir slíka mannvirkjagerð:

 

 • „Afar margt mælir með gerð jarðganga á þessum stað [þ.e. undir Þorskafjörð], ekki síst umhverfissjónarmið. Rökin eru m.a. stytting vegar um 15,6 km, þéttbýlið á Reykhólum færist í þjóðbraut, samgöngur innan sveitar batna verulega, lagðir eru af tveir fjallvegir, komist verður hjá að þvera þrjá firði og um leið að raska mjög sérstöku og fallegu landi, sem eru kjarri vaxin nes og firðir með einstöku fjöru- og fuglalífi.“
 • Ekki er líklegt að þveranir fjarða líkt og í Gilsfirði hafist í gegnum umhverfismat, sem þýðir styttri garða og lengri brýr og meiri kostnað. Margt er til vinnandi til að losna við þá umhverfis- og sjónmengun sem óneitanlega yrði samfara slíkri mannvirkjagerð í hinni einstöku náttúrufegurð sem er á þessum slóðum við Breiðafjörð.“

 

Í umsögn hreppsnefndar Reykhólahrepps frá 22. október 1999 um drög að verndaráætlun Breiðafjarðar segir:

 

 • „Rekstur verksmiðjunnar [þ.e. Þörungaverksmiðjunnar] ... byggir alfarið á því að strandlengja Breiðafjarðar, þar með talið eyjar og sker haldist hreint og verði ekki spillt frá því sem nú er.“ „ ... skal hér tekið undir þau sjónarmið að verndun svæðisins verði fólgin í varðveislu fágætra minja, náttúrulegs umhverfis, sérstaklega margbreytilegu dýralífi og öðrum sérkennum Breiðafjarðar.“

 

Jafnvel hörðustu fylgismenn vegarlagningar eftir leið B um Hallsteinsneshlíð og Teigsskóg telja skóginn einstakan. Þetta stendur m.a. í grein í Mbl. 15. júní 2005:

 

 • „Teigsskógur er helsta bitbeinið en hann er milli Grafar í Þorskafirði og Hallsteinsness. Skógurinn er gríðarlega fallegur en rosalega þéttur, svo þéttur að erfitt er að ganga í gegnum hann.“

 

Og þetta er haft eftir öðrum fylgismanni vegarlagningar á þessu svæði í grein í Mbl. 29. ágúst 2007:

 

 • „Að sjálfsögðu hafnaði Skipulagsstofnun þeirri leið sem Vegagerðin lagði til, um miðjan þéttasta skóginn. Jónína Bjartmars skar svo á hnútinn og heimilaði lagningu vegar með skilyrðum. En í stað þess að fara fjöruleiðina mun ætlunin vera að leggja veginn í 60-70 m hæð yfir sjávarmáli með fjallsrótumum mjög snjóþungt svæði. Símastaurar voru þar nærri í kafi í snjóþungum árum.“

 

 

Umsagnir stofnana um leiðaval

 

Umsögn Umhverfisstofnunar

 

Umhverfisstofnun fjallar í löngu og ítarlegu máli um áhrif vegalagningar á öllum leiðum. Skýrslan er vel unnin að mínu mati og niðurstaðan er alveg skýr. Stofnunin telur ljóst af fyrirliggjandi gögnum:

 

 • „... að fyrirhuguð veglagning skv. leið B muni hafa umtalsverð umhverfisáhrif á birkiskóga, erni, votlendi, strendur, lífríki, landslagsheildir og jarðmyndanir og er hún að áliti Umhverfisstofnunar einnig í andstöðu við markmið laga um vernd Breiðafjarðar vegna áhrifa á lífríki, landslag og jarðmyndanir. Umhverfisstofnun telur að af þeim valkostum sem lagðir eru fram til úrskurðar muni leið B hafa mest umhverfisáhrif. Stofnunin telur að leið C muni einnig hafa í för með sér umtalsverð umhverfisáhrif. Umhverfisstofnun telur að af framlögðum valkostum hafi leið D með ákveðnum breytingum minnst umhverfisáhrif í för með sér, en hún er jafnframt ásættanlegur valkostur út frá vegtæknilegum atriðum.“

 

Umsögn Fornleifanefndar

 

Umsögn Fornleifaverndar er löng, mikil og ítarleg. Hún fjallar auðvitað eingöngu um fornleifar og niðurstaðan er skýr varðandi leiðir B og C:

 

 • Fornleifavernd ríkisins telur leið B lakasta kostinn í áfanga 2. Leiðin liggur nærri friðlýstum fornleifum á Grímkelsstöðum. Þessi leið hefur áhrif á mun fleiri fornleifar en leiðir C og D og það þrátt fyrir að ekki sé búið að skrá fornleifar í Teigsskógi og að líkur bendi til að þar leynist óþekktar fornleifar. Leið D er besti kosturinn í áfanga 2 að mati Fornleifaverndar ríkisins, sérstaklega ef sá hluti leiðarinnar sem kallaður er „Miðhús-Melanes sunnan Brekkuár“ verður fyrir valinu.“

 

Umsögn Breiðafjarðarnefndar

 

Breiðafjarðarnefnd skiptist í tvo hluta í afstöðu sinni til leiðar B. Við lestur umsagnar meirihluta Breiðafjarðarnefndar verður ekki betur séð, en honum þætti ekki tiltökumál að fórna Teigsskógi og taldi leið B hafa minni neikvæð umhverfisáhrif en leið D. Þetta var í hrópandi mótsögn við alla (eða a.m.k. nánast alla) aðra sem sendu inn umsagnir og athugasemdir og fjölluðu um umhverfisáhrifin yfirleitt. Meirihlutinn lagðist alfarið gegn leið C og gerði ýmsar kröfur varðandi leið B, s.s. að vegurinn um Teigsskóg yrði „lagður út en ekki ýtt upp frá hlið“.

 

Minnihluti Breiðafjarðarnefndar fjallaði ítarlega um lög um verndun og alþjóðlegar skuldbindingar okkar. Niðurstaða minnihlutans var skýr:

 

 • „Eftir að hafa skoðað vandlega skýrslu um mat á umhverfisáhrifum, telur minnihluti Breiðafjarðar­nefndar að hafna beri leiðum B og C í 2. áfanga þar sem hún telur að þær leiðir hafi mest neikvæð, óafturkræf áhrif á náttúru Breiðafjarðar og séu í andstöðu við markmið laga nr. 54/1995 um vernd Breiðafjarðar vegna áhrifa á lífríki, landslag og jarðmyndanir. Minnihluti nefndarinnar telur ásættanlegt að velja leið D með ákveðnum breytingum.“

 

 

Umsagnir um Teigsskóg

 

Teigsskógur er eitt af bitbeinunum varðandi leið B. Um hann og hina ósnortnu Hallsteinsnes­hlíð var fjallað ítarlega í öllum gögnum málsins. Það er ljóst að hér er um mikil verðmæti að ræða, sem eiga eftir að vaxa í framtíðinni. Það kemur fram í umsögnum og athugasemdum (m.a. frá Umhverfisstofnun og Skógræktinni), að vegur um hann mun hafa áhrif á hann allan, sama hvaða lína er valin. Í honum verða líka margar námur, sem skerða hann enn frekar. Um Teigsskóg er fjallað hér að framan, en hér á eftir fer nánari umfjöllun umsagnaraðila um Teigsskóg:

 

Áhrif samkvæmt matsskýrslunni

 

Í matsskýrslu Vegagerðarinnar stendur m.a. þetta:

 

 • „Verði þessi leið fyrir valinu raskast heildstætt, nánast ósnortið land frá Þórisstöðum að Hallsteinsnesi, auk þverunar Djúpa- og Gufufjarða.“
 • „Þó að vegagerðin sjálf raski aðeins hluta skógarins, gerir lögun hans það að verkum að nánast allur skógurinn verður fyrir áhrifum af framkvæmdinni. Skógurinn er víðast 200-500 m breiður og því mun vegstæði um hann endilangan og opnun námusvæða einnig hafa veruleg áhrif á það sem eftir stendur. Fimm af sex námusvæðum eru jafnframt klettarranar sem mynda skjól fyrir skóginn þar sem hann er vöxtulegastur.“

 

Í gróðurskýrslunni sem fylgdi umhverfismatsskýrslu Vegagerðarinnar stendur þetta:

 

 • „Þetta er eina stóra skóglendið [þ.e. í A-Barð] sem snýr í suður og eitt af tveimur sem er á utanverðum nesjum. Hitt er á Vattarnesi, þar sem vegur fer um nú þegar og þar er nokkur sumarhúsabyggð.“ ... „Samkvæmt ofannefndri Birkiskógakönnun er nú aðeins ríflega 1% landsins vaxið birkiskógi, og er þar um að ræða misþétta og misstóra skógarteiga. Mjög fá af þessum svæðum eru vaxin svo þéttum skógi og svo ósnortin af mönnum og búsmala sem þessi skógur.“ ... „Við skoðun vakti mesta athygli hve þéttur en jafnframt fjölbreyttur skógurinn er.“ ... „Verndargildi lýtur annars vegar að því að hér hefur skógurinn verið mjög lengi og því er um að ræða heildstætt þróað vistkerfi og hins vegar því erfðaefni sem þarna er að finna. Hugsanlega hefur orðið einhver aðgreining á erfðaefni eftir aðstæðum þannig að mikilvægt er að vernda samfelld svæði þar sem aðstæður eru misjafnar.“

 

Ekki er hægt að lesa annað út úr þessum umsögnum í matsskýrslunni, en að skógurinn verði nánast eyðilagður. Einnig er ljóst að samkvæmt gróðurskýrslunni er skógurinn bæði sérstakur á landsvísu og fjölbreyttur og mikilvægt sé að vernda hann. Þetta er einnig túlkun Umhverfisstofnunar.

 

Umsögn Umhverfisstofnunar

 

Umhverfisstofnun er afar ítarleg og bendir hún á að vegagerð eftir leið B hafi mikið rask í för með sér og veruleg neikvæð umhverfisáhrif. Vegagerð um Teigsskóg muni hafa áhrif á nánast allan skóginn, þegar tekið er tillit til áhrifa sem verða vegna efnisvinnslu og slóðagerðar. Niðurstaðan varðandi leið B er þessi:

 

 • Leið B mun eyðileggja Teigsskóg í núverandi mynd, óháð því hvaða útfærsla á leiðinni verður valin, og arnarsetur við Djúpafjörð, auk þess sem leiðin mun hafa mikil áhrif á landslag. Óvissa ríkir um áhrif þverana á sjávarfitjar og leirur. Umhverfisstofnun telur að leið B muni hafa í för með sér umtalsverð umhverfisáhrif á birkiskóga, erni, votlendi, strendur, lífríki, landslagsheildir og jarðmyndanir og er hún að áliti Umhverfisstofnunar einnig í andstöðu við markmið laga um vernd Breiðafjarðar vegna áhrifa á lífríki, landslag og jarðmyndanir. Umhverfisstofnun telur að leið B sé ekki í samræmi við þær forsendur fyrir vali leiðar sem voru leiðarljós samkvæmt matsskýrslu, að reynt yrði að sneiða fram hjá þeim svæðum sem talin eru lífríkinu mikilvægust.“
 • „Umhverfisstofnun telur að Teigsskógur hafi mikið verndargildi og að það rask á skóginum sem verður vegna fyrirhugaðrar vegagerðar sé með öllu óásættanlegt. Slíkt er enn fremur niðurstaðan í skýrslu Náttúrustofu Vestfjarða um gróður. Í því sambandi skiptir ekki máli hvaða veglína verður fyrir valinu þar sem einstök svæði innan skógarins eru líklega mjög misjöfn í svona fjölbreyttu landslagi þar sem skiptast á skýldir, rakir bollar og opin holt.“

 

Svör Vegagerðarinnar við umsögn Umhverfisstofnunar eru í tveimur bréfum. Í öðru bréfinu er fjallað um gróður og kemur þetta fram:

 

 • „Sett hefur verið fram sú kenning að þau tré sem standa í skóglendum eins og Teigsskógi séu teinungar af aldagömlum rótum, þó að einstaka stofnar séu ekki nema hundrað ára gamlir. Þetta er ekki vitað, en ef rétt er, hlýtur það að auka verndargildi svæðisins.“
 • „Þrátt fyrir það hversu mikið hefur tapast af birkiskógum landsins er enn gengið á þá og ekki einbert að það litla sem eftir er njóti sérstakrar verndar, samanber framlagða leið B í þeirri framkvæmd sem hér er til umræðu. Því ber að fagna þeirri stefnumörkun sem fram kemur í Velferð til framtíðar: Sjálfbær þróun í íslensku samfélagi um að: „Áhersla verði lögð á þær vistgerðir sem hefur verið raskað hvað mest á grunni vinnu við að skilgreina og kortleggja vistgerðir á Íslandi. Forgangsmál í því sambandi eru m.a. votlendi og birkiskógar“.“

 

Skipulagsstofnun bað Umhverfisstofnun um frekara álit á verndargildi Teigsskógar annars vegar og framkvæmdina í heild hins vegar. Umhverfisstofnun svaraði í tveimur bréfum (bæði dags. 30.1.2006). Vegagerðin tekur sérstaklega fram í bréfi til Skipulags­stofnunar (dags. 6.2.2006) að hún geri ekki athugasemdir við umsögn Umhverfisstofnunar á verndargildi Teigsskógar.

 

Umsögn Skógræktarinnar

 

Umsögn Skógræktarinnar er ekki löng en var afar skýr:

 

 • „Skógareyðing vegna vegagerðar um Teigsskóg efri og neðri leið er af slíkri stærðargráðu að ekki verður við unað án sérstakra mótvægisaðgerða.“
 • „Gera má ráð fyrir að vegagerð eftir þessum hlíðum gæti haft áhrif á jarðraka neðan vegar. Vegurinn gæti virkað eins og framræsluskurður eftir endilangri hlíðinni með þeim afleiðingum að dragi úr frjósemi svæðisins. Verulegt rask mun hljótast af fyrirhuguðum framkvæmdum vegagerðar í Teigsskógi.“

 

Í umsögninni er lagt mat á Teigsskóg í Þorskafirði og segir þar:

 

 • „Teigsskógur í Þorskafirði hefur nokkra sérstöðu meðal vestfirskra skóga. Samkvæmt Birkiskógakönnun Skógræktar ríkisins er hann talin vera um 378 ha að flatarmáli og skipar þannig sess með stærstu skóglendum landshlutans. ... Lengd hins fyrirhugaða vegar í skóginum er milli 7-8 km. Breidd skógarins er víðast milli 400-500 m. Þéttleiki birkisins í Teigskógi er einstakur. Á stöku stað í miðhluta skógarins má líta stórvaxinn reynivið sem myndar yfirhæð í frekar lávöxnu birkikjarrinu. ... Forðum var Teigsskógur aðallega nýttur sem beitiskógur. Framtíðarnytjar skógarins kunna að felast í sérstöðu hans sem heildrænu og sérstöku vistkefi. Einnig má ætla að útivist í og við Þorskafjörð vaxi í réttu hlutfalli við byggðaþróun og bættar samgöngur á Vesturlandi.“

 

Skógræktin telur að báðir kostir við vegalagningu um Teigskóg „muni hafa í för með sér mikla skógareyðingu“. Ennfremur fullyrti Skógræktin að skógareyðing sem nemur 50 ha sé „mesta samfellda skógareyðing sem átt hefur sér stað vegna framkvæmda hér á landi í seinni tíð“. Þessu hefur Vegagerðin ekki mótmælt í andsvörum sínum.

 

Niðurstaða Skógræktarinnar er þessi:

 

 • „Að athuguðum þeim kostum sem gerð er grein fyrir í Mati á umhverfisáhrifum Vestfjarðavegar um Þorskafjörð leggur Skógrækt ríkisins til að valin verði leið C.“

 

Aðrar umsagnir

 

Í athugasemdum Þrastar Reynissonar við matsskýrsluna koma fram verulegar áhyggjur af vegi um Teigsskóg og vill hann, ef vegur verður yfirhöfuð lagður, að „vegurinn sé lagður sem mest eftir landinu“. Svör Vegagerðarinnar eru athyglisverð:

 

 • „Þröstur vill að vegur á leið B verði lagður sem mest eftir landinu og nefnir í því sambandi vegagerð í þjóðgörðum. Þessi skoðun Þrastar er samhljóma 35. gr. V. Kafla Náttúruverndarlaga (nr.44/1999) um landslagsvernd.“

 

Síðan skýrir Vegagerðin frá annmörkum slíkra vega hvað varðar greiðfærni og umferðaröryggi og segir:

 

 • „Með því að leggja veg samkvæmt leið B með hraðatakmörkunum hverfur megin ávinningurinn af leiðinni og hún því vart vænlegur kostur eftir.“

 

Svo virðist því að vegur um Teigsskóg, sem sé í samræmi við „V. kafla Náttúruverndarlaga (nr.44/1999) um landslagsvernd“, sé vart vænlegur kostur.

 

 

Úrskurður Skipulagsstofnunar

 

Í úrskurðarorðum Skipulagsstofnunar er lagst gegn leiðum B og C en fallist á leið D með skilyrðum. Í niðurstöðum hennar er gerð nánari grein fyrir þessu og vitnað í fjölmörg lög, reglugerðir og alþjóðleg tilmæli. Þar segir m.a. (í kaflanum um friðuð svæði):

 

 • „Skipulags­stofnun telur að lög um vernd, friðun og veiðar á villtum fuglum og villtum spendýrum, nr. 64/1994 útiloki nánast að vegur verði lagður samkvæmt leið C í 2. áfanga“ og „Skipulagsstofnun telur að leið B stríði um margt gegn verndarákvæðum í ofangreindum lögum og samþykktum. Einkum vegna stöðu Teigsskógar sem er á náttúruminjaskrá ásamt fjörum, fitjum og sjávartjörnum að Grónesi og samkvæmt lögum um náttúruvernd nýtur birkiskógurinn verndar.“

 

Í úrskurði Skipulagsstofnunar tíundar hún það sem fram hefur komið í gögnum sem voru send til hennar:

 

 • „Í umsögnum og athugasemdum hefur komið fram að óráðlegt sé að leggja veg í gegnum Teigsskóg þar sem um fágætt þróað vistkerfi er að ræða sem yrði fyrir miklum spjöllum. Umhverfisstofnun hefur bent sérstaklega á að Teigsskógur er á náttúruminjaskrá og að veglagning gegnum skóginn sé í andstöðu við 39. grein laga um náttúruvernd auk þess sem stjórnvöld hafi lagt fram stefnu til sjálfbærrar þróunar til ársins 2020 þar sem m.a. kemur fram að forðast beri eins og kostur er að skerða frekar birkiskóga. Þá hefur Skógrækt ríkisins bent á að veglagning hefði í för með sér allt að 50 ha skógareyðingu sem verði þá mesta samfellda skógareyðing sem átt hafi sér stað vegna framkvæmda hér á landi í seinni tíð. Skógræktin hefur jafnframt bent á að framtíðarnytjar skógarins kunni að felast í sérstöðu hans sem heildrænu og sérstöku vistkerfi.“

 

Skipulagsstofnun dregur réttilega ákvörðum af þessu og segir í niðurstöðunum:

 

 • „Skipulags­stofnun telur að þó svo að á Vestfjörðum sé hlutfall birkiskóga mun hærra en annars staðar á landinu, eða um 4% af láglendi, þá dragi það hvorki úr verndargildi Teigsskógar né réttlæti skerðingu skógarins án þess að fyrst hafi verið leitað annarra leiða við vegagerð með minni áhrifum eða stuðlað að endurheimt í stað þess sem nauðsynlegt er að eyða. Skipulagsstofnun bendir á að tvö svæði gróin birki á sunnanverðum Vestfjörðum eru á náttúruminjaskrá, þ.e. Vatnsfjörður og Teigsskógur og því liggur fyrir að verndargildi þeirra hefur verið metið meira en annarra birkiskóga á svæðinu. Ennfremur telur Skipulagsstofnun að þrátt fyrir að unnt sé að gróðursetja í jafnstórt eða jafnvel enn stærra svæði en það sem raskast á leið B þá geti sú endurheimt aldrei komið algjörlega í stað þeirrar miklu röskunar sem verði í þróuðu vistkerfi Teigsskógar. Þó svo að mismunandi vegleiðir í gegnum Teigsskóg feli í sér mismikla röskun á skóginum þá er sá munur óverulegur í ljósi þess að allir kostir kljúfa skóginn að endilöngu og rýra hann umtalsvert. Skipulagsstofnun telur að ógerningur sé að leggja veg samkvæmt leið B út vestanverðan Þorskafjörð í gegnum Teigsskóg án þess að það hafi í för með sér umtalsverð umhverfisáhrif og veglagning þar samræmist ekki lögum um náttúruvernd og stefnumörkun stjórnvalda til sjálfbærrar þróunar.“

 

 

Sérfræðiálit ráðgjafa umhverfisráðherra

 

Haustið 2006 bað þáverandi umhverfisráðherra Ásu Aradóttur vistfræðing um sérfræðiálit um Teigsskóg vegna úrskurðar um mat á umhverfisáhrifum Vestfjarðavegar nr. 60. Þar stendur meðal annars:

 

 • „Botngróður Teigsskógar er óvenjulega fjölbreyttur og gefur það honum sérstöðu. Í birkiskógakönnuninni 2 fundust í Teigsskógi 27 tegundir háplantna fyrir utan grastegundir. Aðeins eitt annað skógarsvæði á Vestfjörðum hafði jafn margar tegundir og aðeins á þremur svæðum fundust fleiri en 25 tegundir.“
 • Lagning vegar í gegn um Teigsskóg gengur gegn þeim meginstefjum náttúruverndar (a) að viðhalda skuli heilum, ósnortnum svæðum með náttúrulegu gróðurfari og koma í veg fyrir að þeim verði skipt upp með mannvirkjagerð og (b) að vernda skuli sjaldgæfa landslagsþætti.“
 • „Af framansögðu er ljóst að lagning Vestfjarðarvegar um Teigsskóg mun hafa áhrif á landslag til langframa og skera í sundur heildstætt og fjölbreytt vistkerfi og sérstaka landslagsheild, sem ekki verða endurheimt með ræktun skógar á öðrum stað.“

 

Niðurstaða ráðgjafans er að lagning vegar í gegn um Teigsskóg (leið B) sé ekki í þágu náttúruverndar.

 

 

Úrskurður umhverfisráðherra

 

Í úrskurði umhverfisráðherra (Umhverfisráðuneytisins) 5.1.2007 stóð þetta meðal annars:

 

 • Ráðuneytið telur að lagning Vestfjarðavegar um Teigsskóg muni hafa áhrif á landslag til langframa og skera í sundur heildstætt og fjölbreytt vistkerfi og sérstaka landslagsheild, sem ekki verður endurheimt með ræktun skógar á öðrum stað. Að auki er Teigsskógur á náttúruminjaskrá sbr. 68. gr. náttúruverndarlaga nr. 44/1999 sem felur í sér ákveðna stefnumörkun um verndargildi svæðisins. Birkiskógar njóta verndar skv. 39. gr. náttúruverndarlaga en þar segir að Umhverfisstofnun ásamt Skógrækt ríkisins skuli vinna að verndun og eftirliti með náttúrulegum birkiskógum og skógum til útivistar. Það er mat ráðuneytisins að taka beri sérstakt tillit til birkiskóga og verndargildis þeirra skv. 39. gr. náttúruverndarlaga en að Teigsskógur sé ekki friðaður.“

 

Og þetta stóð þar einnig:

 

 • „Umhverfisstofnun ítrekar í umsögn sinni að veglagning skv. leið D feli ekki í sér óbreytt ástand í vegamálum og að Vegagerðin hafi metið það svo að leiðir B, C og D uppfylli allar gerðar kröfur. Skipulagsstofnun bendir einnig á í umsögn sinni að leiðir B, C og D hafi af hálfu framkvæmdaraðila verið allar taldar ásættanlegar hvað varðar vegtæknilegar forsendur og öryggi og að það atriði hafi verið lykilatriði í mati á umhverfisáhrifum vegagerðarinnar.“

 

Ráðherra voru umferðaröryggissjónarmið ofarlega í huga og sagði:

 

 • „Að mati ráðuneytisins vega umferðaröryggissjónarmið þungt við heildarmat á því hvort framkvæmd geti talist hafa í för með sér umtalsverð umhverfisáhrif í skilningi laga nr. 106/2000 um mat á umhverfisáhrifum.“
 • „Ráðuneytið telur að óumdeilt sé að út frá umferðaröryggissjónarmiðum sé leið B betri kostur en leið C og D og að ef einungis ætti að taka tillit til umferðaröryggissjónarmiða þá væri leið B kostur sem eðlilegt væri að velja.“

 

Hins vegar virtist ráðherra ekki átta sig á því að með mótvægisaðgerðum er einnig hægt að bæta verulega umferðaröryggi á leið D miðað við það sem kom út úr reikningum Línuhönnunar og gera það sambærilegt eða betra en á leið B. Ef ráðuneytið mælir með mótvægisaðgerðum á annað borð, þarf það einnig að líta til mótvægisaðgerða varðandi vegtæknileg atriði. Vegagerðin var nefnilega margoft búin að lýsa því yfir að leið D væri fyllilega frambærileg. Auknar mótvægisaðgerðir á þeirri leið væru líka mun ódýrari en sem nemur mismuninum á kostnaði leiða B og D. - Síðar hefur reyndar komið í ljós að alls óvíst er að umferðaröryggi yrði meira á leið B en á leið D (vísbendingar um þetta höfðu reyndar þegar komið fram á bls.19 í leiðavalsskýrslunni sem fylgdi matsskýrslunni).

 

 

Skýrsla umhverfisráðuneytisins um vernd birkiskóga

 

Hinn 15. júní 2006 skipaði umhverfisráðherra nefnd sem samkvæmt skipunarbréfi var falið það verkefni að móta tillögur um eftirfarandi þætti:

 • Að kortleggja ógnir sem steðja að íslenskum birkiskógum.
 • Að móta tillögur um hvernig megi efla vernd og endurheimt birkiskóga á Íslandi.
 • Að gera tillögur að leiðbeiningum vegna athafna sem hafa áhrif á birkiskóga.

Þessi nefnd skilaði skýrslu sem kom út á vegum umhverfisráðuneytisins í mars 2007. Þar stendur meðal annars:

 

 • „Gamlir íslenskir birkiskógar eru auðlind, sem fela í sér bæði náttúru og nýtingararfleifð sem ekki er annars staðar að finna. Nefndin leggur áherslu á að tilteknir skógar séu friðaðir, t.d. vegna lífríkis, fegurðar, landslags, útivistargildis eða alhliða vistþjónustu. Hafa ber í huga að í vernd birkiskóga felst einnig ákveðin tegund nýtingar. Mikilvægt er að stýra þeirri nýtingu með þeim hætti að skógurinn geti endurnýjað sig. Ekki er ávallt nauðsynlegt að friða skóga með lögum til mjög langs tíma. Hins vegar er mjög mikilvægt að sjá til þess að nytjar birkiskóga séu með þeim hætti að útbreiðsla þeirra aukist.“
 • „Lagt er til að haldið verði áfram að vinna að friðun birkiskóga í samræmi við verndartillögur í Náttúruverndaráætlun 2004-2008, sbr. Aðferðafræði, bls. 73-74/Tillögur Umhverfisstofnunar um friðlýsingar. Auk þess leggur nefndin til að birkiskógar þeir, sem tilgreindir eru á fylgiskjali 1 (bls. 18) með skýrslu þessari og eru hvorki á Náttúruverndaráætlun né njóta verndar umfram það sem lög um skógrækt kveða á um, verði verndaðir/friðlýstir. Nefndin telur þessa birkiskóga vera lykilsvæði þegar hugað er að vernd stórra samfelldra birkiskógavistkerfa og búsvæða ýmissa plantna og dýra sem þar þrífast í skjóli skóganna jafnframt því að vernda líffræðilega fjölbreytni birkis.“

 

Í fylgiskjali því sem minnst er á er Teigsskógur einn 9 skóga sem þar eru taldir upp og að hann sé „samfelldur skógur, kjarnasvæði“. Því var lagt til að hann væri verndaður eða friðlýstur. Athygli vakti að þessi skýrsla var gefin út af sama ráðuneyti og sá umhverfisráðherra stýrði, sem heimilaði að lokum veg í gegnum Teigsskóg!

 

 

- Gunnlaugur Pétursson, verkfræðingur.

 

Skrifa­u athugasemd:


Atbur­adagatal

« Oktˇber 2021 »
S M Ů M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30
31