Tenglar

mßnudagur 12. marsá2012 |

StˇrhŠkkun orkuver­s er n˙ bo­u­

Einar K. Gu­finnsson.
Einar K. Gu­finnsson.

Einar Kristinn Guðfinnsson alþingismaður skrifar:

 

Hægt og hljótt, en ákveðið og örugglega, er verið að leggja drög að tvöföldun raforkuverðs hér á landi og 50% hækkun innkaupaverðs almenna markaðarins. Þessi skýra stefnumörkun stjórnvalda kom fram í svari Oddnýjar G. Harðardóttur starfandi iðnaðarráðherra við fyrirspurn minni á Alþingi fyrr í þessum mánuði. Þetta mun að óbreyttu hafa gríðarleg áhrif á afkomu heimilanna og þyngja byrðar atvinnulífsins.

 

Spurning mín til ráðherrans var svohljóðandi:

 

Hver verður þróun raforkuverðs á næstu árum, á almennum markaði, miðað við áform Landsvirkjunar um aukna arðsemi og að orkuverð fyrirtækisins fylgi þróun orkuverðs í Evrópu?

 

Svar ráðherrans var skýrt og rímar við það sem fram kemur í skýrslu iðnaðarráðherra um heildstæða orkustefnu fyrir Ísland, sem lögð var fyrir Alþingi fyrr á þessu þingi. En orðrétt sagði ráðherrann í svari sínu til mín:

 

„Hlutdeild orkukostnaðar í rafmagnsreikningi heimilanna er rétt undir 50%. Hin 50% eru vegna kostnaðar við dreifingu og flutning auk 12 aura orkuskatts. Því mun almenn 100% hækkun orkuhlutans valda tæplega 50% hækkun innkaupsverðs almenna markaðarins.“

 

Horfið frá núgildandi stefnu

 

Hér er verið að hverfa frá stefnu sem gilt hefur áratugum saman. Hún hefur falist í því að láta almenna notendur og atvinnulífið njóta þess að við eigum hér mikla endurnýjanlega orku sem hægt er að selja við lægra verði en þekkist víðast í Evrópu. Þessi stefnumörkun hefur verið mjög til hagsbóta fyrir almennt atvinnulíf og almenning. Þannig höfum við fært arðinn af orkuframkvæmdum okkar til fólksins í landinu.

 

Nú er ætlunin að gera breytingu á. Stjórnvöld hyggjast stuðla að mjög mikilli hækkun raforkuverðs og sjá síðan til þess að það fylgi almennri verðþróun í Evrópu. Þar er áætlað að orkuverð tvöfaldist á næstu 20 árum. Vel má vera að þessar hækkanir verði enn stórkarlalegri. Þróun olíuverðs að undanförnu gefur að minnsta kosti ekki miklar vonir um að það fari lækkandi. Og svo vill nú til að jarðefniseldsneyti er ráðandi á orkumarkaði í öðrum löndum. Verðlagsþróun á þeim markaði mun því hafa mjög stefnumarkandi áhrif á verðþróun hér á landi.

 

Ákall um lægra verð til almennings og atvinnureksturs

 

Það er því af sú tíð, þegar við Íslendingar kepptumst við að leggja af olíu sem orkugjafa til heimila, til þess meðal annars að lækka útgjöld þeirra. Nú mun orkuverðið fylgja þeirri verðþróun sem í Evrópu verður.

 

Á sama tíma og stjórnvöld boða þessa miklu hækkun raforkuverðsins heyrum við ákall stórra raforkukaupenda eins og garðyrkjunnar um lægra orkuverð. Og stjórnskipuð nefnd hefur skilað tillögum um lækkun húshitunarkostnaðar á köldum svæðum, sem er mjög brýnt mál. Hætt er við að sú lækkun hverfi fljótt þegar verðstefna stjórnvalda fer að bera ávöxt.

Eða trúir einhver því að pólitískar ráðstafanir dugi til þess til langframa að halda niðri orkuverði, t.d. til húshitunar á svo kölluðum köldum svæðum, eftir að búið er að hækka verð orkuhlutans um 100%; tvöfalda það sem sagt? Þessi spurning svarar sér sjálf.

 

Þróun raforkuverðs frá 2003

 

Því hefur verið haldið fram að þessa stefnumörkun megi rekja til nýrra raforkulaga frá árinu 2003. Það er nokkuð langsótt kenning. Hefði sú löggjöf verið gerandinn í málinu hefði mátt vænta þess að áhrifa hennar hefði gætt nú þegar svo um munaði, tæpum áratug síðar. En er það svo?

 

Frá þeim tíma er liðinn nær áratugur og stjórnvöld hafa frá þeim tíma fylgt þeirri stefnumótun að láta almenning og atvinnulíf njóta þess að hægt sé að framleiða innlenda endurnýjanlega orku á verði sem er langt um lægra þrátt fyrir allt en þekkist til að mynda í Evrópu. Okkur ætti því ekki að vera neitt að vanbúnaði að halda áfram þeirri stefnumörkun að halda orkuverði í skefjum hér innanlands.

 

Hagfræðistofnun Háskóla Íslands var falið af iðnaðarráðherra að skoða áhrifin af þessari lagasetningu. Niðurstaða hennar er afar áhugaverð og kemur nokkuð á óvart. Samkvæmt athugun stofnunarinnar á verðþróun á tímabilinu 2005 til 2010 bendir allt „til þess að ávinningur hafi verið af því að búa til samkeppnisvænni umgjörð raforkumála með aðskilnaði sérleyfis- og samkeppnisreksturs. Ávinningurinn er hvað skýrastur hjá þeim fyrirtækjum og samtökum sem boðið hafa út raforkukaup fyrir umbjóðendur sína.“

 

Ennfremur segir í niðurstöðum Hagfræðistofnunar: „Raforkuverð hækkaði um 20% á tímabilinu 2005-2010, en verðlag hækkaði almennt um 50% á sama tíma. Þar af leiðandi lækkaði raunverð raforku.“

 

Svo einfalt er það. Á árunum eftir að hin umdeildu raforkulög voru sett lækkaði verðið að raungildi, þó okkur þyki örugglega flestum að nógu háir séu nú orkureikningarnir samt sem berast okkur inn um bréfalúguna í mánuði hverjum. Hætt er því við að stjórnvöld verði að leita í aðrar smiðjur en löggfjöfina frá 2003 til þess að útskýra ásetning sinn um stórhækkun orkuverðs.

 

Er hækkun orkuverðsins tilfærsla milli vasa?

 

Því er haldið fram að þessi nýja stefna sé góð fyrir almennt atvinnulíf í landinu og heimilin vegna þess að arðurinn af hærra raforkuverði renni inn í sameiginlegan sjóð okkar, ríkissjóð. Þetta sé eins konar tilfærsla milli vasa! En er það svo? Er ekki skynsamlegra að gæta hófs í verðlagningunni og gefa atvinnulífinu og heimilunum betra svigrúm? Er það ekki líklegra til þess að bæta hér lífskjör og styrkja samfélagslegar forsendur okkar?

 

Það er brýnt að ræða þessi mál með efnislegum hætti. Svona stórpólitískar ákvarðanir, sem hafa munu miklar afleiðingar í för með sér, á ekki að taka án þess að mönnum sé ljóst til hvers þær muni leiða.

 

– Einar Kristinn Guðfinnsson, alþingismaður.

 

Skrifa­u athugasemd:


Atbur­adagatal

« Oktˇber 2021 »
S M Ů M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30
31