Tenglar

mßnudagur 14. febr˙ará2011 |

Sta­reyndir um fer­akostna­

Ůorgeir Pßlsson.
Ůorgeir Pßlsson.
Þorgeir Pálsson, fv. frkvstj. Atvinnuþróunarfélags Vestfjarða skrifar:

Nýlega birtist umfjöllun á heimasíðu bb.is, sem jafnframt birtist á vef Reykhólahrepps, um ferðakostnað atvest í minni tíð sem framkvæmdastjóri. Þrátt fyrir að staðreyndavillur hefðu læðst með í grein BB, þá vil ég engu að síður þakka BB fyrir að hefja máls á þessu, því þar með gafst kærkomið tækifæri til að stuðla að upplýstri umræðu um starfsemi Atvinnuþróunarfélags Vestfjarða, atvest. Og ég geng út frá að það hafi líka verið tilgangur BB með greininni; að stuðla að upplýstri umræðu um félagið og starfsemi þess.

 

Ég geri mér grein fyrir því að í litlu og einangruðu samfélagi verða dagpeningar og ferðakostnaður alltaf skotspónn. Við það hef ég búið frá upphafi starfs míns. Hins vegar er alltaf hættulegt að einblína á tölurnar einar og sér, án þess að vita um staðreyndir málsins. Þeir sem vilja vita þessar staðreyndir, ættu því að lesa áfram, því ég skrifa þessa grein í þeim tilgangi að auka skilning lesenda á starfsemi og umfangi atvest í minni tíð sem framkvæmdastjóri.

 

Ég hóf störf hjá atvest í mars 2008, ekki 2007 eins og kom fram í grein BB. Sú stjórn sem réð mig til starfa lagði fyrir mig þrjú meginverkefni: 1) efla starfsemina, bæta ímyndina og auka ásýnd og sýnileika starfsmanna, 2) auka erlend tengsl og afla erlendra verkefna og 3) sækja meira fjármagn inn á svæðið.

 

Ímynd atvest var á þessum tíma mjög slæm, ásýndin lítil, sérstaklega á sunnanverðum Vestfjörðum og sem dæmi um viðhorf sveitarfélaga til félagsins á þessum tíma má nefna, að Ísafjarðarbær gerði samning við einkafyrirtæki um atvinnuþróun í sveitarfélaginu og Vesturbyggð hafði ráðið til sín starfsmann sem sérstaklega skyldi sinna atvinnuþróun. Staða atvest var slæm og það var óumdeilt.

 

Það lá því fyrir og var beinlínis ákvörðun og stefna stjórnar, að auka umsvifin, fjölga verkefnum, auka sýnileika starfseminnar um alla Vestfirði og efla þannig tengsl félagsins við sveitarfélög, fyrirtæki og einstaklinga. Allir starfsmenn svöruðu þessu kalli stjórnar af samviskusemi. Það þurfti því engum að koma á óvart, að bæði dagpeningar og ferðakostnaður myndu aukast. Það lá hreinlega fyrir. Árið 2009 hafði ásýnd og ímynd atvest breyst verulega til batnaðar, verkefnum fjölgaði, þau urðu stærri og náðu til allra Vestfjarða. Þetta kallaði eðlilega á aukin ferðalög starfsmanna og þar með auknar dagpeningagreiðslur.

 

Hafi einhver sem las grein BB haldið að sá kostnaður sem þar er tilgreindur tengdist mér einum, er rétt að leiðrétta það hér með, því að sjálfsögðu er þarna verið að tala um ferða- og dagpeningakostnað allra starfsmanna félagsins, sem auk mín voru þegar mest var sjö talsins.

 

Og oft var það þannig að sumir starfsmenn ferðuðust meira en ég á vissum tímabilum, einfaldlega vegna þess að verkefnin þeirra kölluðu á það.

 

Á þessum tíma var almenn ánægja með þá breytingu sem orðið hafði á rekstrinum og stjórn atvest studdi heilshugar verkefni félagsins og þann kostnað sem þeim fylgdi. Ég vil þakka stjórnum atvest sem ég vann með, fyrir það þor að leggja í þær aðgerðir til að efla starfsemina sem ráðist var í. Það er ekki auðvelt í samfélagi þar sem allir hafa skoðun á öllu, að ráðast í slíkar aðgerðir. En, það tókst og ég er stoltur af því fyrir hönd starfsmanna og stjórna atvest.

 

Hvað erlendar ferðir varðar, þá lúta þær einnig að því verkefni sem stjórn atvest lagði fyrir mig; að efla erlend tengsl og afla þar verkefna. Ég fór til Japan tvisvar árið 2009 og í bæði skiptin sinnti ég þar einnig hlutverki fyrir Markaðsstofu Vestfjarða, sem tók á sig hluta ferðakostnaðar. Ég tók m.a. þátt í JATA, stærstu ferðasýningu í Asíu, kynnti Vestfirði á ráðstefnu í sendiráði Íslands og hitti fjölda ferðaskrifstofa sem sýndu Vestfjörðum áhuga. Í fyrri ferðinni kynntist ég KINKI-háskóla í Osaka, sem er einn fremsti háskóli í heimi á sviði menntunar og rannsókna í fiskeldi og náðist að skapa góð tengsl við hann. Þessi tenging hefur nú leitt af sér eina heimsókn fulltrúa skólans til Vestfjarða og fyrir liggur vilji háskólans til að fara í formlegt samstarf við Háskólasetur Vestfjarða um skipti á nemendum og prófessorum. Ég veit ekki hvort menn gera sér almennt grein fyrir því tækifæri sem þessi tenging felur í sér, því þessi háskóli getur valið sér samstarfsaðila um allan heim. Hann kaus að veðja á samstarf við Vestfirði.

 

Hvað aðrar ferðir varðar fór ég tvisvar til Skotlands, en þar hefur verið komið á tengingu við Strathclyde-háskóla í Glasgow varðandi verkefni sem snýr að haglýsingum og greiningu á Vestfjörðum sem hagkerfi. Þetta verkefni hefur verið unnið af verkefnastjóra Vaxtarsamnings Vestfjarða. Ferðin var einnig farin í tengslum við uppbyggingu kræklingaeldis á Íslandi, sem atvest vann að á þeim tíma. Vaxtarsamningur Vestfjarða tók þátt í kostnaði við mína ferð. Seinni ferðin tengdist tækifærum er tengjast nýtingu sjávarfalla á Vestfjörðum, en þar er þessi háskóli einnig góð tenging. Háskólasetur Vestfjarða stóð að hluta til að þeirri ferð og greiddi hluta kostnaðar. Á ferðum erlendis fékk ég greidda dagpeninga samkvæmt taxta ríkisskattstjóra, en á ferðum mínum innanlands hef ég aldrei þegið dagpeninga.

 

Það var mitt hlutverk sem framkvæmdastjóri Atvinnuþróunarfélags (allra) Vestfjarða, að vera sýnilegur, sækja fundi, hitta fulltrúa fyrirtækja, sveitarfélaga o.s.frv. Ég lagði mikið á mig til að sinna því hlutverki. Þess vegna er langmestur hluti þess ferðakostnaðar, sem tengist mér, tilkominn vegna ferða innan Vestfjarða. Í öllum þeim ferðum var tilgangurinn fyrst og fremst að standa við það þjónustustig sem stjórn atvest lagði upp með í þeirri stefnumótun sem ég fylgdi og framkvæmdi með starfsmönnum og stjórn félagsins. Ekkert annað atvinnuþróunarfélag sem ég þekki til býr við jafn erfiðar aðstæður m.t.t. samgangna og þess að sinna hlutverki sínu á öllu sínu starfssvæði. Það verða menn að hafa í huga. Það kostar talsvert fjármagn að stunda rekstur á þremur stöðum á Vestfjörðum.

 

Að lokum vil ég segja þetta. Það getur verið hættulegt að taka hráar tölur sem hinn eina sannleik. Og þar að auki eru tölur alltaf afstæðar. Mörgum kann t.d. að þykja, að um 10 milljónir af rúmlega 100 milljón króna veltu atvest sé lítil upphæð í raun, þar sem atvest er með skrifstofur á þremur stöðum, rekur fjölda verkefna með þátttakendur um alla Vestfirði, er með fimm til sex starfsmenn sem sinna slíkum verkefnum o.s.frv. Þessi upphæð er t.d. lægri en sú upphæð sem Ísafjarðarbær greiddi á einu ári til einkafyrirtækis fyrir ráðgjöf og framkvæmd atvinnuþróunar í Ísafjarðarbæ. Og þessi upphæð er miklu lægri en tap af rekstri Fjórðungssambands Vestfirðinga síðastliðin fjögur ár, sem er nú hátt í 20 milljónir samanlagt, eða rúmar 6 milljónir á ári að jafnaði. Sjálfsagt eru góðar og gildar ástæður fyrir þessum kostnaði og tölurnar einar og sér segja því aðeins hálfa söguna. En tölur settar fram með þessum hætti eru sannarlega sláandi, líkt og var raunin í grein BB.

 

Seinni hluta árs 2009 og allt árið 2010 var unnið að niðurskurði og aðhaldi í rekstri atvest, bæði þar sem tekjugrunnur félagsins hafði verið skertur og eins þar sem þessir kostnaðarliðir voru vissulega háir. Sú ákvörðun að skera niður í ferðakostnaði var stjórn og starfsmönnum hins vegar ekki auðveld, því vitaskuld bitnaði hún á ásýnd félagsins, þjónustustigi og samskiptum við grasrótina. Þetta var engu að síður gert og nú var ljóst að fjárhagsstaða atvest bauð ekki upp á að fyrri stefna næði fram að ganga, því verulegur niðurskurður var nú óumflýjanlegur. Ég sá því ekki fram á að geta klárað þau verkefni sem mér voru falin af stjórn atvest á sínum tíma og ákvað því að segja starfi mínu lausu. Um það náðist fullkomin sátt við stjórn. Þetta var alfarið mín ákvörðun og þó ég sjái eftir því að ná ekki að klára mörg veigamikil verkefni, veit ég að þetta var rétt ákvörðun.

 

Ég ætla að þessi grein hafi aukið skilning lesenda á starfsemi atvest og því hvernig og af hverju þessi kostnaður kemur til. Ég reikna með að þessi grein hafi einnig eytt þeirri trú einhverra (sem mér hefur verið bent á) að ég hafi staðið óeðlilega og jafnvel ósiðlega að framkvæmd þessara ferða. Allt slíkt er alrangt og mér algerlega óeiginlegt.

 

Ég hvet lesendur og alla Vestfirðinga til að styðja áfram við starfsemi atvest á öllum starfstöðvum þess á Vestfjörðum. Það kemur að því að landið rís úr rústum þeirrar kreppu sem skall á árið 2008. Þegar það gerist verður að vera til á Vestfjörðum öflugt atvinnuþróunarfélag, sem nýtur skilnings og stuðnings í sínu samfélagi. Þróun menntaumhverfis og atvinnulífs er sú leið sem framtíð Vestfjarða byggir á að mínu mati. Atvinnuþróunarfélag Vestfjarða verður að vera áfram sá miðpunktur og tengiliður samfélaga og atvinnulífs, sem mun leiða þessa þróun.

 

- Þorgeir Pálsson.

 

Fréttin sem Þorgeir Pálsson vitnar til í upphafi greinar sinnar:

10.02.2011  Ferðakostnaður Atvest fjórfaldaðist á tveimur árum

 

Atbur­adagatal

« Oktˇber 2021 »
S M Ů M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30
31