Tenglar

mi­vikudagur 22. aprÝlá2009 |

Samfylkingin er ˇtr˙ver­ugur stjˇrnmßlaflokkur

Sturla B÷­varsson.
Sturla B÷­varsson.

Sturla Böðvarsson skrifar:

 

Samfylkingin er í mikilli vörn um þessar mundir. Hún stendur þannig að málum á vettvangi ríkisstjórnar að allt er komið í óefni og vinnubrögðin öll með ólíkindum. Jóhanna Sigurðardóttir, forsætisráðherra, virðist vera að missa tökin á sínu fólki, sem og Vinstri grænum, sem fara sínu fram og gera lítið úr verkstjórn Jóhönnu þegar við á. Steingrímur J. er eins og sögupersónan Jón sterki í Skuggasveini. Hann talar og talar en minna fer fyrir vitrænu verklagi. Það þekkja þeir sem með honum hafa unnið í þinginu. Samstarf Samfylkingar við Vinstri græna virðist vera farin að skapa ólgu, óvissu og óróleika vegna ólíkra skoðana á mikilsverðum málum.

 

Viðskiptaráð hefur vakið athygli á því í sérstakri útgáfu að ríkisstjórnin er ekki á réttri leið. Þar segir: „Á þeim tíu vikum sem liðnar eru frá því að ný stjórn tók við völdum hefur lítið miðað í úrlausn erfiðra skammtímavandamála". Þetta ástand ógnar nú stjórnarfari í landinu og skapar ekki bjartsýni. Kjósendur eiga þess kost að stöðva ruglið hjá Jóhönnu og Steingrími J. í kosningunum á laugardaginn.

 

Samfylkingin vill ekki muna að hún bar ábyrgð í ríkisstjórn

 

Samfylkingin virðist æði oft gleyma því að hún sat í ríkisstjórn með Sjálfstæðisflokknum. Ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar tók við mjög góðu búi af ríkisstjórn Sjálfstæðisflokksins og Framsóknarflokksins. Sú ríkisstjórn hafði bæði unnið vel að uppbyggingu innviða samfélagsins og skapað hér efnað samfélag sem hafði greitt niður skuldir ríkisins. Samfylkingin var hinsvegar í ríkisstjórn með Sjálfstæðisflokknum þegar yfir okkur skall bankakreppa sem lagði að velli alla stóru bankana. Fortíð Samfylkingar í stjórnarsamstarfi er sú að hafa hlaupist undan merkjum og svikið samstarfsmenn sína þegar þjóðin hafði mikla þörf fyrir samstöðu og styrk á Alþingi og í stjórnarráðinu.

 

Eftir bankahrunið hafa fjölmargar fjölskyldur lent í vandræðum og orðið fyrir miklu efnahagslegu tjóni. Núverandi stjórnarflokkar leggja sig alla fram við að kenna Sjálfstæðisflokknum um afleiðingar bankakreppunnar og kenna hana stjórnarforystu flokksins og þá væntanlega samstarfi við Alþýðuflokkinn 1991 til 1995, samstarfi við Framsóknarflokkinn 1995 til 2007 og samstarfi við Samfylkinguna í tæp tvö ár. Varla hafa hinir „sókndjörfu" Alþýðuflokksmenn og Samfylkingarfólk látið Sjálfstæðisflokkinn ráða þau tæplega sex ár sem þessir flokkar störfuðu saman í ríkisstjórn. Árásir Samfylkingarinnar á Sjálfstæðisflokkinn eru bæði ómaklegar og ómálefnalegar. Þær hitta það fólk sjálft fyrir fyrr en seinna.

 

Samfylkingin er ekki stjórntæk

 

Samfylkingin getur ekki vikið sér undan því að hafa verið í ríkisstjórn með Sjálfstæðisflokknum og ber því ábyrgð á viðbrögðum í aðdraganda bankahrunsins. Það kom í ljós að Samfylkingin er ekki stjórntæk vegna innbyrðis sundrungar og togstreitu. Það voru vissulega mikil mistök að ganga til samstarfs við Samfylkinguna um myndun ríkisstjórnar. Frá fyrsta degi vann Samfylkingin í raun gegn stjórninni og gróf undan ríkisstjórninni sem hún var þátttakandi í. Það var því ekki við góðu að búast. Það má nefna eftirfarandi dæmi, en af mörgu er að taka.

 

* Samfylkingarráðherrar ríkisstjórnarinnar töluðu gegn íslenska gjaldmiðlinum, töluðu niður krónuna. Þar var fremstur i flokki viðskiptaráðherrann fyrrverandi. Slíkt háttarlag er væntanlega einsdæmi af hendi ráðherra og hefði auðvitað átt að leiða til þess að forsætisráðherra setti viðkomandi ráðherra þegar frá störfum.

 

* Samfylkingarráðherrar ríkisstjórnarinnar töluðu gegn stjórnarsáttmálanum með því að byrja fljótlega að klifa á inngöngu í Evrópubandalagið þrátt fyrir að ekki væri gert ráð fyrir því í stjórnarsáttmálanum. Sú framganga skapaði óvissu og veikti ríkisstjórnina þegar mest lá við.

 

* Samfylkingarráðherrarnir unnu eftir hugmyndafræði Borgarnesræðunnar þar sem áhersla var lögð á persónulegar árásir á sjálfstæðismenn í þeirri von að það væri þóknanlegt þeim í viðskiptalífinu sem veittu Samfylkingunni skjól.

 

* Samfylkingarráðherrarnir höfðu uppi miklar kröfur um ríkisútgjöld sem gerðu ríkissjóð veikari til þess að mæta erfiðari aðstæðum eftir bankahrunið.

 

* Samfylkingarráðherra réði viðskiptaráðuneytinu og var yfir Fjármálaeftirlitinu sem framkvæmdi álagspróf á bönkunum og veitti þeim heilbrigðisvottorð.

 

* Samfylkingarráðherrarnir sneru sér að því strax eftir bankahrunið að koma höggi á samstarfsflokkinn í stað þess að ganga til verka til varnar heimilum og fyrirtækjum. Þeir fórnuðu þannig hagsmunum þjóðarinnar fyrir stundarhag flokksins.

 

Ég tel mikilvægt að draga þetta fram og vekja athygli á því að Samfylkingin er ótrúverðugur flokkur.

 

- Sturla Böðvarsson alþingismaður.

 

Atbur­adagatal

« Oktˇber 2021 »
S M Ů M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30
31