Tenglar

f÷studagur 8. aprÝlá2011 |

Nokkur or­ til sřslumanns um falskar lausnir Ý vegamßlum

ËlÝna Ůorvar­ardˇttir.
ËlÝna Ůorvar­ardˇttir.
Ólína Þorvarðardóttir alþingismaður skrifar:

 

Langt seilist fyrrverandi sýslumaður Barðstrendinga, Þórólfur Halldórsson, í svari við grein minni um um vegamál á Vestfjörðum, þegar hann fullyrðir að „alþingismaður í Norðvesturkjördæmi skuli nú kjósa að tali máli sérhagsmuna aðstandenda eyðibýlanna Grafar og Hallsteinsness gegn leið B sem fer um hlaðið hjá þeim, og gera lítið úr áralangri baráttu íbúa á sunnanverðum Vestfjörðum.“ Hafi sýslumaðurinn fylgst með málflutningi mínum og blaðaskrifum ætti honum að vera ljóst að þessi ummæli standast enga skoðun.

 

Það er góður siður - sem m.a. er kenndur í lögfræðinni - að finna orðum og máflutningi stað með rökum. Sýslumanninum hefði því verið meiri sæmd í því að ræða málið efnislega - og rökræða færar leiðir - frekar en að búa til óvini úr samherjum í þessu tiltekna máli. Þeirri fullyrðingu hans að ég hafi nokkurs staðar í ræðu eða riti „talað máli“ umræddra sérhagsmuna „gegn leið B“ vísa ég beint heim til föðurhúsa, enda er ekki hægt að finna þeim neinn stað.

 

Þessi málflutningur nær auðvitað engri átt. Það er engu líkara en að hinum löglærða sýslumanni sé það ekki ljóst að fallinn er hæstaréttardómur sem gerir að engu vonir manna um að leið B verði farin. Frekar en að horfast í augu við þá staðreynd kýs hann að skrifa eins og að það sé við þingmanninn að sakast hvernig dómur féll.

 

Staðreynd máls er sú, að leið B verður ekki farin eftir dóm Hæstaréttar. Sá dómur setti málið allt í byrjunarstöðu, og í þeim sporum stöndum við nú. Það er skylda okkar að leita lausna á samgönguvanda Barðstrendinga og skoða nýjar leiðir, frekar en að spóla okkur niður í aurbleytu þessa vandræðamáls. Það ber vott um ótrúlega afneitun að halda því fram að hæstaréttardómurinn „standi ekki í vegi fyrir vegagerð samkvæmt leið B“ eins og Þórólfur fullyrðir í grein sinni. Ef sú skoðun fengi staðist, þá væru menn varla að tala um að knýja fram umrædda vegagerð með sérlögum frá Alþingi.

 

Fram hefur komið að ég hef um langt skeið leitað leiða til þess að unnt verði að leggja láglendisveg um Þorskafjörð, þrátt fyrir hæstaréttardóminn. Hef ég fengið til liðs við mig tvö ráðuneyti, vegagerðina, lögfræðinga, þingmenn kjördæmisins og sveitarstjórnarmenn sem allir hafa lagst á eitt við að finna lagalega lausn á því máli. Frá þessu greindi ég m.a. á síðasta Fjórðungsþingi Vestfirðinga, en hef að öðru leyti ekki barið mér á brjóst. Er skemmst frá því að segja, að þrátt fyrir ítarlega skoðun og margar lögskýringar, þá er lausn ekki í sjónmáli varðandi þessa leið. Það er miður, en þannig er staðan.

 

Sú makalausa hugdetta að það sé hægt að setja sérlög til þess að þvinga fram vilja heimamanna og kjördæmaþingmanna þvert á fallinn hæstaréttardóm og almenn gildandi lög, er hins vegar ekki boðleg stjórnsýsla. Það ætti löglærður maður að vita að það eru engir töfrasprotar til í þessu máli. Lagasetning til þess að knýja fram pólitískan vilja með þeim hætti sem þingmennirnir Einar K. Guðfinnsson, Ásbjörn Óttarsson og Gunnar Bragi Sveinsson hafa nú lagt til, er engin lausn, enda viðbúið að málaferli vegna slíkrar lagasetningar myndu halda áfram. Þá er nær útilokað að slík málsmeðferð fengist samþykkt á Alþingi. Þegar á þetta er bent, er ekki verið að taka afstöðu „gegn leið B“ eins og sýslumaðurinn virðist halda, heldur er einfaldlega horfst í augu við staðreyndir.

 

Nóg hafa íbúar sunnanverðra Vestfjarða þurft að þola og þreyja í samgöngumálum, þó ekki bætist við að lukkuriddarar ríði um héruð með gylliboð um falskar lausnir, veifandi trésverðum í baráttu við vindmyllur. Það er ekki það sem íbúar svæðisins þurfa á að halda.

 

- Ólína Þorvarðardóttir. Höfundur er alþingismaður og situr í samgöngunefnd þingsins.

 

Skrifa­u athugasemd:


Atbur­adagatal

« AprÝl 2021 »
S M Ů M F F L
        1 2 3
4 5 6 7 8 9 10
11 12 13 14 15 16 17
18 19 20 21 22 23 24
25 26 27 28 29 30