Tenglar

laugardagur 11. oktˇberá2014 | vefstjori@reykholar.is

MˇtvŠgisa­ger­ir vi­ rÝkisstjˇrnina!

Lilja Rafney Magn˙sdˇttir.
Lilja Rafney Magn˙sdˇttir.

Lilja Rafney Magnúsdóttir alþingismaður skrifar

 

Verandi nýkomin úr kjördæmaviku er þetta það sem kemur upp í hugann eftir fundi með sveitarstjórnarmönnum og heimamönnum í Norðvesturkjördæmi. Kjördæmið er að mörgu leyti ólíkt innbyrðis hvað atvinnu og samgöngur snertir en skilaboð og áherslur til okkar þingmanna voru gegnumgangandi þessi: „Leyfið því að standa og þróast áfram sem vel hefur tekist til og byggið áfram á þeim grunni þótt fyrri ríkisstjórn hafi komið því á legg, og takið á með okkur íbúunum í uppbyggingu innviða samfélagsins.“

 

Menntun

 

Norðvesturkjördæmi hefur verið skilgreint með lágt menntunarstig og átak er í gangi í því að lyfta því upp með auknu samstarfi við símenntunarmiðstöðvar og framhaldsskóla á svæðinu um aukna menntun á vinnumarkaði. Dreifnám hefur víða byggst upp, sem skipt hefur sköpum fyrir nemendur og eflingu byggða. Sá mikli niðurskurður sem beinist að fjarnámi, starfs- og verknámi og það að útiloka nemendur eldri en 25 ára frá framhaldsskólunum gengur þvert gegn því markmiði, og einnig þeirri yfirlýstu stefnu að framhaldsskólarnir séu fyrir alla. Einn gamalreyndur sveitarstjórnarmaður hafði það á orði, að ef ekki yrði snúið af þessari niðurrifsbraut, þá yrði það héraðsbrestur fyrir svæðið.

 

Það eru orð að sönnu, og sú fjárhags-þumalskrúfa sem Landbúnaðarháskólinn á Hvanneyri hefur verið settur í, er annar brestur í héraði, sem við þingmenn kjördæmisins verðum að vinda ofan af ásamt hollvinum skólans og tryggja skólanum ásættanlegan rekstrargrundvöll. Annað væri eyðilegging á því metnaðarfulla skólastarfi sem þar hefur byggst upp í gegnum árin.

 

Samgöngur

 

Mikill niðurskurður er til samgöngumála og þeir litlu fjármunir sem ætlaðir voru til nýframkvæmda fara í viðhald vega. Í kjördæminu er hlutfall héraðs- og tengivega mjög hátt og lélegir vegir standa íbúaþróun og uppbyggingu atvinnulífs víða fyrir þrifum, hvort sem við horfum til ferðaþjónustu eða uppbyggingar fiskeldis. Stórframkvæmdir eins og Vestfjarðavegur 60 og Dýrafjarðargöngin eru í uppnámi, þar sem ekki hefur verið tryggt fé til framkvæmdanna. Brýnar framkvæmdir eins og endurbætur á Skagastrandarvegi og Þverárfjalli bíða úrlausnar, en þar er umferðin orðin mikil og umferðaröryggi í hættu.

 

Niðurskurður til innanlandsflugs og hafnarframkvæmda kemur hér til viðbótar, og orðaði einn sveitarstjórnarmaður það svo snyrtilega, að framlag í hafnabótasjóð væri brandari.

 

Innanlandsflugið er ekkert annað en almenningssamgöngur og niðurskurður til flugvalla og ríkisstyrktra leiða veldur ótta um mikla þjónustuskerðingu til þeirra staða sem þurfa að reiða sig á öruggar flugsamgöngur.

 

Sameining heilbrigðisstofnana og sýslumannsembætta

 

Mikillar óánægju gætti vegna lítils samráðs við sveitarstjórnarmenn um sameiningu þessara stofnana og að ekki væri tekið tillit til málefnalegrar gagnrýni og tillagna heimamanna um þessa málaflokka, sem skipta svo miklu máli fyrir búsetu og þjónustustig. Dregið var til baka það loforð að löglærður aðili yrði til staðar í þeim útibúum þar sem sýslumaður sæti ekki.

 

Ekkert hefur heldur frést af ráðgefandi stjórn sem átti að setja á fót vegna sameiningar heilbrigðisstofnana né heldur var haft samráð við heimamenn, svo ekkert liggur fyrir um hvernig skipta á fjármagni á milli stofnana eða hvernig þjónustustigið verður á hverjum stað.

 

Fjarskipti og orkumál

 

Algjör samhljómur var á milli sveitarstjórnarmanna um að góð fjarskipti og raforkuöryggi væri undirstaða þess að viðhalda og efla búsetu. Þar er verk að vinna og óásættanlegt að bilun í gömlum búnaði valdi algjöru sambandsleysi í langan tíma eins og gerðist á Vestfjörðum nýlega. Loforð stjórnvalda um að bæta þar úr er létt í vasa ef ekki fylgir nægt fjármagn til framkvæmda. Tryggja verður að allir landsmenn sitji við sama borð hvað varðar öryggi í fjarskiptum og afhendingaröryggi rafmagns og jöfnun orkuverðs. Norðvesturkjördæmi á þar langt í land og þær tillögur um jöfnun á dreifingu rafmagns sem boðaðar eru sleppa stóriðjunni og stórfyrirtækjum alfarið við að greiða til jöfnunar orkuverðs. Niðurgreiðslur til húshitunar eru alltof lágar og við bætist hærri virðisaukaskattur á rafmagn og heitt vatn sem er ekki á bætandi og kaldar kveðju til svokallaðra kaldra svæða með hátt orkuverð.

 

Ríkið þarf að taka á með landsmönnum

 

Niðurskurður á Sóknaráætlun landshlutanna og Framkvæmdasjóði ferðamannastaða er ekki til þess fallinn að létta róður þeirra staða sem hafa verið að byggja upp eftir Hrun og treyst á ríkisvaldið að standa við sinn hlut. Hækkun virðisaukaskatts á matvöru bitnar líka enn frekar á íbúum þeirra svæða þar sem flutningskostnaður er mikill og matvara dýrari en þar sem aðgengi er að lágvöruverslunum.

 

Það er því ekki að undra að maður spyrji sig: „Hvaða mótvægisaðgerðir duga til að opna augu ríkisstjórnarinnar fyrir því að nú þurfi að snúa vörn í sókn með landsmönnum í öflugri uppbyggingu innviða samfélagsins?“ Árangur erfiðra aðgerða í kjölfar Hrunsins má ekki glatast. Hann á að skila sér í bættum hag allra landsmanna en ekki bara sumra!

 

- Lilja Rafney Magnúsdóttir, alþingismaður Norðvesturkjördæmis.

 

Skrifa­u athugasemd:


Atbur­adagatal

« Desember 2021 »
S M Ů M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31