Tenglar

laugardagur 20. septemberá2008 |

Gu­mundur Ý Kˇpavogi og ekkjan Ý Reykhˇlasveit

Jˇn Bjarnason al■ingisma­ur.
Jˇn Bjarnason al■ingisma­ur.

Jón Bjarnason skrifar um póstþjónustu á landsbyggðinni

 

Varaformaður stjórnar Íslandspósts, Guðmundur Oddsson, ritar athyglisverða grein í eitt dagblaðið nýverið um póstþjónustu og súr ber. Þar reynir hann að réttlæta niðurskurð og skerðingu á póstþjónustu, einkum í dreifbýli. Hann hælir sér af því að hafa verið mörg ár í stjórn Íslandspósts og tekið þátt í að stýra honum inn í „breytt rekstrarumhverfi," les markaðsvæðingu.

 

Það er í sjálfu sér áhyggjuefni þegar maður með svo eindregna afstöðu markaðshyggju er settur í stjórn almannaþjónustufyrirtækis eins og Íslandspósts. Þess sjást enda ýmis merki að nú eigi að búa í haginn fyrir einkavæðingu og sölu fyrirtækisins á komandi árum.

 

Undan því verður hins vegar ekki vikist enn sem komið er að Íslandspóstur er í 100% eigu ríkisins og samgönguráðherra fer með eina hlutabréfið. Íslandspóstur á að þjóna jafnt öllum landsmönnum óháð búsetu - og óháð duttlungum mismunandi stjórnarmanna eða ráðherra.

 

Talsmenn landsbyggðarinnar koma úr VG

 

Nú getur það svo sem verið erfitt fyrir þéttbýlisbúann og markaðshyggjumanninn Guðmund Oddsson, sem fær sinn póst reglulega inn um bréfalúguna á hverjum degi, að setja sig inn í aðstæður á landsbyggðinni.

 

Ég velti hins vegar fyrir mér hvað Guðmundur í Kópavogi myndi segja við því að vera gert að sækja póstinn sinn í póstkassa sem stæði við þjóðveginn uppi í Ártúnsbrekku. Guðmundur talar um „sjálfskipaða talsmenn landsbyggðarinnar úr VG" sem vilja verja þjónustu póstsins á landsbyggðinni. Það er alveg hárrétt. En þar eigum við samleið með fjölmörgum öðrum íbúum landsbyggðarinnar, sveitarstjórnum sem sent hafa bréf, beiðnir og kærur til Íslandspósts, til stjórnvalda um að vera ekki settir á „dauðalista" Íslandspósts. Að vera taldir svo óarðbærir og samfélagslega íþyngjandi að verði að skera af þeim þjónustuna. Hér fylgir útdráttur úr bréfi sveitarstjóra Reykhólahrepps frá 26. ágúst sl., en fleiri slík hafa borist úr öðrum héruðum:

 

14 kílómetrar í póstkassann

 

„Eins og þér er kunnugt um eru uppi áform um að fækka póstburðardögum í hluta Reykhólahrepps úr fimm í þrjá á viku. Mun þetta taka gildi frá 1. sept. 2008 að telja. Sömuleiðis er búið að ákveða að leggja niður einu póstafgreiðsluna í sveitarfélaginu sem er í Króksfjarðarnesi. Við mótmæltum, en árangurslaust, og bentum á að flytja bæri póstafgreiðsluna úr dreifbýlinu og í þéttbýliskjarnann sem er hér á Reykhólum. Hér búa um 130 manns í þorpinu en engin póstafgreiðsla er hér. Hér eru fyrirtæki í fullum rekstri og við þurfum á þessari þjónustu að halda, hvað sem aðrir halda.

 

Hluta af kostnaði við póstdreifingu er velt yfir á móttakendur póstsins, t.d. á einum bæ er póstkassinn í 7 km fjarlægð frá heimilinu, þar sem ein ekkja býr og þarf hún að aka 14 km til að tæma póstkassann sinn eða til að komast að því að hann er tómur. Hingað til hefur þessi kona fengið póstinn sinn heim eins og aðrir."

 

Á „dauðalista" Íslandspósts

 

Þegar nú Íslandspóstur ákveður upp á sitt eindæmi að fækka póstferðum, skilja póstinn eftir úti við þjóðveg langt frá bæjum sem áður var keyrður heim rétt eins og í stórþéttbýlinu eða loka einu póstafgreiðslunum í heilum byggðarlögum, þá er hann að setja þær byggðir á „dauðalista" sinn: Það sé ekki arðbært að þjónusta þær þó svo í lögum sé skýrt kveðið á um að jafnræðisregla stjórnarskrárinnar gildi í póstþjónustu landsmanna.

 

Fyrir Kópavogsbúann Guðmund getur það virst einföld aðgerð að loka póstafgreiðslu og skera niður póstferðir í heilum byggðarlögum og segja starfsmönnum upp. En með því er ekki aðeins verið að skera niður þjónustuna og skerða samkeppnishæfni búsetunnar heldur er verið gefa skýr skilaboð um að íbúarnir séu annars og þriðja flokks: Guðmundur í Kópavogi sé þjóðinni miklu mikilvægari og arðbærari en ekkjan í Reykhólasveit; það sé rétt og eðlilegt að mismuna fólkinu í landinu. Þar skilur á milli okkar Guðmundar.

 

- Höfundur er þingmaður Vinstrihreyfingarinnar - græns framboðs í Norðvesturkjördæmi.

 

Skrifa­u athugasemd:


Atbur­adagatal

« Oktˇber 2021 »
S M Ů M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30
31