Tenglar

mi­vikudagur 10. j˙nÝá2009 |

Bi­in endalausa ß Vestfjar­avegi

Einar K. Gu­finnsson.
Einar K. Gu­finnsson.
Einar Kristinn Guðfinnsson skrifar:

 

Sú hörmulega staða er nú komin upp að vegaframkvæmdir á Vestfjarðavegi í Austur-Barðastrandasýslu eru að mestu í fullkominni óvissu. Það er eins og þessar bráðnauðsynlegu framkvæmdir séu harðlæstar inni í einhverjum kerfislás og þaðan verði engu um þokað. Þetta er hörmuleg íkoma.

 

Sorgarsöguna um veginn um og yfir Þorskafjörð og þverun Gufufjarðar og Djúpafjarðar í Gufudalssveitinni þarf ekki að rekja í löngu máli. Þar gengur allt á afturfótunum. Að loknum vönduðum og fínum úrskurði þáverandi umhverfisráðherra, Jónínu Bjartmarz, töldu flestir að málið væri komið á beina braut. En því var ekki aldeilis að heilsa. Þá tóku við kærur sem aldrei fyrr og nú er málið á hægu róli á milli dómstiga. Fallinn er dæmalaus héraðsdómur sem freistandi væri að hafa um nokkur orð, en verður ekki gert núna. Hann setti málið í algjöran lás. Málinu hefur verið vísað til Hæstaréttar og samkvæmt upplýsingum sem við þingmenn Norðvesturkjördæmis fengum á fundi með fulltrúa Vegagerðarinnar er dóms að vænta á haustdögum, ekki fyrr því miður.

 

Keðjaðir bílar á sumardögum

 

Á meðan verður ekkert aðhafst og vegfarendur þurfa að klöngrast um vegleysurnar á meðan og keðja jafnvel stóra bíla á Ódrjúgshálsinum á blautum sumardögum.

 

Ég og margir aðrir höfðum hvatt til þess að hraðað yrði undirbúningi við aðra hluta leiðarinnar, ef sú ólukkans uppákoma yrði á veginum í Gufudalssveitinni sem nú er raunin á. Stefnt var að útboði á kaflanum úr Vatnsfirði, fyrir Hjarðarnes og inn í Kjálkafjörð, að Þverá. Ástæðan fyrir því að þessi áfangi var valinn, er sú að ætlunin er að þvera fjörðinn við Þverá og koma í land ekki fjarri Skiptá hinum megin fjarðarins. Því miður tafðist þetta útboð von úr viti. Fyrirheit voru gefin um að verkið yrði boðið út vorið 2008, en það dróst hér um bil um heilt ár. Tilboð í vegarkaflann voru ekki opnuð fyrr en nú í febrúarlok.

 

Augljóst hvað umhverfisráðherra gerir

 

Næst var ætlunin að taka kaflann frá Eiðinu í Vattarfirði og að Þverá. En allt er það á sömu bókina lært. Skipulagsstofnun ákvað að verkið sé háð umhverfismati og allt var klossfast. Ég beitti mér þá fyrir því ásamt Ásbirni Óttarssyni alþingismanni að þess yrði freistað að taka út úr tiltekna kafla á þessari leið, sem hafnir væru yfir allan vafa um að hefðu ekki áhrif á umhverfið. Þetta eru vegakaflar sem fylgja að öllu leyti eða því sem næst veglínunni sem nú er til staðar. Þessa kafla vildum við láta bjóða út.

 

En enn eitt flækjustigið kom þá í ljós. Búið er að kæra úrskurð Skipulagsstofnunar til umhverfisráðherra og á meðan sá úrskurður liggur ekki fyrir má ekki taka einstaka kafla út úr. Þetta eru að verða eins og álög á þessari leið, þegar kemur að vegagerð.

 

Nú vita það allir sem vilja vita að umhverfisráðherra úr röðum Vinstri grænna, Svandís Svavarsdóttir, mun ekkert gera annað en að staðfesta úrskurð Skipulagsstofnunar. Eða dettur einhverjum í hug að hún hafi pólitíska stöðu til þess að gera minni kröfur um umhverfismat en ein undirstofnana ráðuneytis hennar? Vitaskuld ekki. Þetta snýst ekki um efnisatriði, heldur er þetta bara pólitískt mat.

 

Nýtum biðina

 

Því virðumst við vera dæmd til að bíða og bíða enn. Bíða eftir því hvað Hæstiréttur segir í haust. Bíða eftir úrskurði Svandísar Svavarsdóttur. Bíða eftir Godot. Bíða með bráðnauðsynlegar framkvæmdir. Bíða á meðan að byggðirnar sem mestra hagsmuna eiga að gæta í Vestur- og Austur-Barðastrandasýslu skaðast. Þetta er hörmuleg staða.

 

En þessa hörmungarbið eigum við að nýta. Gera tæknilega klára alla vinnu varðandi þverun Gufufjarðar og Djúpafjarðar svo hægt sé að bjóða verkið. Rýna vel niðurstöðu Héraðsdóms til þess að átta sig á hvað mögulega kunni að þurfa að gera til frekari undirbúnings, til dæmis með því að framkvæma þær rannsóknir á lífríki umræddra fjarða sem vikið var að í dóminum. Skilgreina þau svæði á leiðinni frá Kjálkafirði í Vattarfjörð sem fylgja sem næst núverandi veglínu og sem mögulega megi þá bjóða út þegar Salómonsdómurinn kemur úr umhverfisráðuneytinu. Við megum bara engan tíma missa. Það er ekki hægt að láta bjóða sér þetta ástand lengur. Um það hljóta menn að vera sammála.

 

- Einar Kristinn Guðfinnsson, alþingismaður.

 

Atbur­adagatal

« Oktˇber 2021 »
S M Ů M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30
31