Tenglar

■ri­judagur 8. oktˇberá2013 | vefstjori@reykholar.is

┴rßs ß landsbygg­ina

Lilja Rafney Magn˙sdˇttir.
Lilja Rafney Magn˙sdˇttir.

 

Lilja Rafney Magnúsdóttir alþingismaður skrifar

 

Nýútkomið frumvarp til fjárlaga vekur litla hrifningu, þar er skorið niður hægri vinstri og þeim síst hlíft sem hlífa skyldi. Eftir erfiðan óhjákvæmilegan niðurskurð eftir Hrunið var loksins farið að sjá fyrir endann á niðurskurði og metnaðarfull uppbyggingaráætlun sett af stað með fjárfestingaráætlun, þar sem fjöldi brýnna atvinnuskapandi verkefna í samgöngum, umhverfis- og ferðamálum og nýsköpun voru sett af stað og fjármagnað að hluta til með sérstökum veiðigjöldum.

 

Nú virðist það vera ásetningur þessara stjórnvalda að rífa allt það niður sem fyrri ríkisstjórn kom af stað við erfiðar aðstæður og henda frá sér tekjumöguleikum eins og í sérstöku veiðigjaldi, auðlegðarskatti og skatti á stórfyrirtæki, sem hefði gert kleift að fjármagna stórsókn í uppbyggingu velferðar og atvinnu í landinu.

 

Ef sett eru upp landsbyggðargleraugu og rýnt í fjárlagafrumvarpið og skoðuð þau mál sem snúa að landsbyggðinni og niðurskurði á málaflokkum sem skipta dreifðar byggðir miklu máli, þá kemur fram að það er verið að gera ótrúlega aðför að landsbyggðinni.

 

Fyrst vil ég nefna Sóknaráætlun landshluta, sem miklar vonir eru bundnar við víða um land og mikil vinna og tími hefur farið í af hálfu landshlutasamtakanna og heimamanna í að þróa þetta framsækna verkefni. Markmið hennar er að færa ákvörðunartöku nær heimamönnum sem þekkja best til aðstæðna á hverjum stað. Verkefnin sem eru fjármögnuð í gegnum sóknaráætlun eru á sviði atvinnumála, nýsköpunar, markaðsmála og mennta- og menningarmála.

 

Þær 400 milljónir króna sem fóru í þetta verkefni á þessu ári og áætlað var að auka það fjármagn verulega á því næsta eru þurrkaðar út í þessu frumvarpi.

 

Niðurgreiðsla húshitunarkostnaðar á köldum svæðum er lækkuð um 76 milljónir króna. Stjórnarflokkarnir boðuðu í stefnuyfirlýsingu sinni jöfnun á raforku og húshitunarkostnaði. Þetta eru efndirnar. Það þekkja allir þann gífurlega háa kyndingarkostnað sem íbúar á köldum svæðum búa við og þessari lækkun niðurgreiðslu er því ekki á bætandi.

 

Dreifbýlisstyrkir eru skornir niður um 8,8 milljónir króna, en þeir skipta miklu máli fyrir þá nemendur sem stunda framhaldsnám fjarri heimili sínu og eru skref í þá átt að jafna námskostnað óháð búsetu. Hjá mörgum heimilum getur þessi stuðningur skipt sköpum fjárhagslega í að jafna aðgengi ungs fólks að framhaldsnámi.

 

Jöfnun flutningskostnaðar: Ekki er gert ráð fyrir neinu framlagi til þessa verkefnis á næsta ári en 196,5 milljónir króna fóru í þetta verkefni í ár. Markmið þessara laga sem sett voru á síðasta kjörtímabili er að styðja við framleiðslu og útflutningsgreinar sem eru fjarri innanlandsmarkaði og útflutningshöfnum og búa því við skerta samkeppnisstöðu.

 

Menningarsamningar eru skornir niður á landsbyggðinni en þeir hafa stuðlað að öflugra menningarlífi og í gegnum þá hefur verið hægt að styðja við ýmis góð og atvinnuskapandi verkefni.

 

Ríkisstyrktar flugleiðir innanlands sem eru á óarðbærum leiðum eru skornar niður um 76 milljónir króna. Í samgönguáætlun er innanlandsflug skilgreint sem mikilvægur hluti af almenningssamgöngum. Þetta á ekki hvað síst við afskekktar byggðir þar sem flugið skiptir gífurlega miklu máli við að treysta byggð og tryggja þjónustu við fólk og fyrirtæki.

 

Mikill niðurskurður er í almennri vegagerð. Það er verulegt áhyggjuefni þar sem almennt viðhald og uppbygging hefur verið í lágmarki undanfarin ár en stærri verkefni eins og vegagerð á suðurhluta Vestfjarða hafa verið í forgangi eftir Hrun. Nú þegar við eigum að hafa efni á að fara að spýta í lófana í almennri vegagerð kýs ríkisstjórnin að skerða stórlega markaða tekjustofna Vegagerðarinnar, sem bitna mun harkalega á nýframkvæmdum og viðhaldi.

 

Framkvæmdir við uppbyggingu heilbrigðisstofnana eins og á Selfossi og í Stykkishólmi lenda undir niðurskurðarhnífnum og skorið er niður í heilbrigðiskerfinu og sett á legugjöld og há komugjöld og stefnt að sameiningu stofnana. Engin niðurskurðarkrafa var í ár gerð á heilbrigðisstofnanir af fyrri stjórnvöldum.

 

Háskólarnir á landsbyggðinni lenda harkalega í niðurskurði og miklar áhyggjur eru af framtíð þeirra í ljósi þessara fjárlaga.

 

Framhaldsskólarnir sem þurftu að taka á sig skerðingar vegna Hrunsins og áttu nú von á viðsnúningi miðað við fyrri plön stjórnvalda eru skornir enn frekar niður.

 

Framkvæmdarsjóður ferðamannastaða, þjóðgarðar og friðlýst svæði eru skorin niður og við það tapast fjöldi starfa.

 

Til stendur að fækka til muna stofnunum með færri en 30 starfsmönnum, sem bitna mun harkalega á landsbyggðinni og skera á einnig niður hjá menningarsöfnum á landsbyggðinni.

 

Skorið er niður hjá Fjarskiptasjóði og hefur maður verulegar áhyggjur af því að það bitni á uppbyggingu háhraðatenginga á landsbyggðinni.

 

Að lokum vil ég nefna, að það aukaframlag til Byggðastofnunar sem var ætlað til að styðja og vinna með brothættum byggðum er fellt niður. Þetta kalla ég vond skilaboð.

 

Það er ekki hægt að segja að þessi upptalning sé landsbyggðarvæn og er þó aðeins stiklað á stóru. Sveitarstjórnarmenn víða á landsbyggðinni fórna líka höndum við lestur þessa frumvarps. Þeir kalla þetta frumvarp „Aðför að landsbyggðinni“ og tel ég það ekki vera ofmælt.

 

Þingið hefur möguleika á að snúa ofan af þessari niðurrifsstefnu stjórnvalda gagnvart landsbyggðinni og treysti ég því að við getum tekið höndum saman um það réttlætismál.

 

- Lilja Rafney Magnúsdóttir alþingismaður.

 

Skrifa­u athugasemd:


Atbur­adagatal

« AprÝl 2021 »
S M Ů M F F L
        1 2 3
4 5 6 7 8 9 10
11 12 13 14 15 16 17
18 19 20 21 22 23 24
25 26 27 28 29 30