Tenglar

■ri­judagur 18. marsá2014 | vefstjori@reykholar.is

┴grip af s÷gu Bar­strendingafÚlagsins

ËlÝna KristÝn Jˇnsdˇttir, forma­ur Bar­strendingafÚlagsins Ý ReykjavÝk.
ËlÝna KristÝn Jˇnsdˇttir, forma­ur Bar­strendingafÚlagsins Ý ReykjavÝk.

- flutt á 70 ára afmæli þess 15. mars 2014

 

Ágætu samkomugestir. Til hamingju með daginn.

 

Það er með stolti sem ég rek sögu og störf Barðstrendingafélagsins í nokkrum orðum. Ég get ekki sleppt því að minnast Vikars Davíðssonar og Ólafs A. Jónssonar, sem báðir hafa tekið efni saman og ég gat því leitað í viskubrunn þeirra, sem varðveittur er á prenti.

 

Rétt er að byrja á upphafinu, en það var fyrir sléttum 70 árum, að kvöldi 15. mars 1944, sem stofnfundur Barðstrendingafélagsins var haldinn í Alþýðuhúsinu við Hverfisgötu. Deilur innan Breiðfirðingafélagsins munu hafa átt verulegan þátt í að félagið var stofnað á þessum tíma. Ekki voru allir á eitt sáttir um áform Breiðfirðinga að fara í framkvæmdir í Reykjavík, til dæmis að kaupa og reka félagsheimili og veitingahús. Var það tilgangur átthagafélags? Hópur fólks sagði því skilið við Breiðfirðingafélagið og fór að skoða stofnun átthagafélags sem næði yfir báðar Barðastrandarsýslurnar. Það varð til þess að stofnfundur „brottfluttra úr Barðastrandarsýslu“ var haldinn. Stofnfélagar voru 192. Þegar mest lét voru félagar nærri 600 en þeim hefur heldur fækkað.

 

Í fyrstu stjórn félagsins var formaður Helgi Hermann Eiríksson frá Tungu í Örlygshöfn, varaformaður Guðmundur Jóhannesson frá Skáleyjum, ritari Jón úr Vör frá Patreksfirði, gjaldkeri Eyjólfur E. Jóhannsson frá Kollabúðum, og meðstjórnendur voru Jón Hákonarson frá Reykhólum, Finnbogi Rútur Þorvaldsson frá Sauðlauksdal og Böðvar Bjarnason frá Reykhólum. Varamenn voru Einar Jónasson frá Suður-Hamri á Barðaströnd, Gunnar Sigurðsson frá Auðshaugi og Þorvaldur Kolbeins, ættaður frá Reykhólum.

 

Alls hafa 14 formenn stýrt félaginu þessu 70 ár, allt frá tveimur og upp í 22 ár. Þeir eru:

 • Helgi Hermann Eiríksson frá Tungu, 1944-1946
 • Guðmundur Jóhannesson frá Skáleyjum, 1946-1948
 • Jón Hákonarson frá Reykhólum, 1948 til dánardags 1952
 • Alexander Guðjónsson frá Geitagili, 1952-1956
 • Guðbjartur G. Egilsson frá Sjöundá, 1956-1978
 • Bolli A. Ólafsson frá Patreksfirði, 1978-1980
 • Kristinn Óskarsson frá Eyri, 1980-1982
 • Fríða Valdimarsdóttir frá Múla á Barðaströnd, 1982-1985
 • Ólafur A. Jónsson frá Grund, 1985-1989
 • María Jónsdóttir frá Hvallátrum, 1989-1993
 • Daníel P. Hansen frá Patreksfirði, 1993-1997
 • Erna Árnadóttir frá Patreksfirði, 1997-2001
 • Snorri R. Jóhannesson frá Bæ á Bæjarnesi, 2001-2013
 • Ólína Kristín Jónsdóttir frá Mýrartungu II, frá 2013

 

Í fyrstu lögum félagsins er fjallað um tilgang þess: „Að efla og viðhalda kynningu milli Barðstrendinga nær og fjær, að varðveita frá gleymsku sögulegar minjar í sýslunni og sérhvað annað viðvíkjandi menningu og lifnaðarháttum sýslubúa og styðja eftir megni öll þau mál, sem miða að framförum og menningu héraðsins.“ Tilgangur þessi er enn skráður í lög félagsins, nú 70 árum síðar, og hefur ýmsu verið áorkað.

 

Viku eftir stofnfundinn var fyrsti félagsfundurinn haldinn og var hann vel sóttur. Þar voru gerð plön fyrir framtíðina og ljóst að áhugi og bjartsýni réðu ríkjum. Í fundargerðarbók má sjá að rætt var um útgáfu blaðs á vegum félagsins og ræddir möguleikar á að láta gera kvikmynd um atvinnuhætti og merka staði heima í Barðastrandarsýslu.

 

Það er við hæfi að koma nánar að kvikmyndagerðarhugmyndinni, því að nú í vikunni kom út DVD-diskur með tveimur kvikmyndum sem teknar voru í Vestureyjum Breiðafjarðar árin 1959 og 1967. Það var í mars 1958 sem Böðvar Pétursson frá Selskerjum bar fram tillögu um að kjósa sérstaka nefnd til að hrinda þessu máli í framkvæmd. Með Böðvari voru kosnir í nefndina Bergsveinn Skúlason frá Skáleyjum og Páll Ágústsson frá Bíldudal. Nefndin hófst þegar handa og var fyrsta ferðin vestur farin 1959 og aftur var farið 1967 til að taka myndir af náttúru og vinnubrögðum í Breiðafjarðareyjum. Ekkert hafði verið unnið með upptökurnar og voru þær geymdar á Kvikmyndasafni Íslands. Í kringum 1990 voru þær afritaðar á disk sem var í eigu félagsins en lítið notaður. Lengi hefur verið í umræðunni að gera eitthvað fyrir myndirnar til að sá fróðleikur sem þær geyma glatist ekki. Að lokum var ákveðið að tala inn á myndinar alveg óunnar. Það var Ólafur A. Gíslason frá Skáleyjum sem talaði inn á myndirnar og á hann einróma lof skilið fyrir hlutverk sitt í að koma disknum af koppnum. Diskurinn er til sölu hér á hátíðinni og hægt verður að nálgast hann hjá félaginu og á völdum stöðum í framtíðinni. Hann kostar litlar 2.500 krónur. Það má segja að nú hafi 70 ára gamall draumur ræst.

 

En aftur að félagsfundinum og upphafi starfsins. Þar var skipað í fyrstu kvennanefnd félagsins en sú nefnd breyttist síðar í sjálfstæða Kvennadeild, sem starfar enn í þágu aldraðra Barðstrendinga og ýmissa góðgerðamála tengdra sýslunum. Fyrsti formaður Kvennadeildarinnar var Jóhanna Valdimarsdóttir frá Hvallátrum á Breiðafirði en núverandi formaður er Kristín Þórarinsdóttir frá Tálknafirði.

 

Málfundadeild var stofnuð en komst ekki á skrið fyrr en 1951 að frumkvæði Kristjáns Erlendssonar. Þar fóru fram fjörugar umræður um hin margvíslegustu mál og oft var hart deilt. Einnig voru ýmis atriði til skemmtunar og fróðleiks á málfundunum; upplestrar, söngur og fleira. Nú eru mörg ár síðan málfundadeildin starfaði.

 

Fljótlega komu fram hugmyndir um að koma á fót kór innan félagsins og var hann stofnaður á fyrsta vetri. Var dr. Hallgrímur Helgason ráðinn söngstjóri og starfað sá kór í þrjú eða fjögur ár. Aftur var stofnaður kór á árunum fyrir 1960 og starfaði sá kór undir stjórn Jóns Ísleifssonar í nokkur ár. Um skeið starfaði innan félagsins tvöfaldur karlakvartett. Leiðbeinandi piltanna var Skúli Halldórsson tónskáld en aðalhvatamaðurinn að þeirri starfsemi mun hafa verið Sigurður Jónasson frá Borg í Reykhólasveit, en hann var í mörg ár í stjórn félagsins.

 

Fljótlega var farið að ræða um möguleika á útgáfustarfi og þá einna helst útgáfu tímarits. Ennfremur var rætt um að endurútgefa svonefnda Barðstrendingabók sem Kristján Jónsson frá Garðsstöðum gaf út 1942; ekkert varð af því. Vikar Davíðsson telur einna helst að framkvæmdir í heimabyggð, sem voru orkufrekar, tímamiklar og dýrar, hafi hamlað útgáfustarfi. Árið 1966 var þó gerð tilraun til útgáfu blaðs en þá var gefinn út fjórblöðungur sem Andrés Davíðsson ritstýrði með nafninu „Annáll Barðstrendingafélagsins“. Hann kom einungis út í tvö skipti.

 

Árið 1988 var enn hugað að útgáfu og lítið, ljósritað blað leit dagsins ljós. Var það nefnt Sumarliði póstur eftir Sumarliða Guðmundssyni frá Borg í Reykhólasveit, en hann var landpóstur í Barðastrandarsýslu. Daníel Hansen frá Patreksfirði var hugmyndasmiður að þessu blaði og gerði hann það að góðum tengiliði í félaginu. Nú hafa komið út 190 tölublöð af Sumarliða pósti og lifir hann enn góðu lífi og auglýsir viðburði félagsins ásamt því að koma á framfæri ýmsum fróðleik og frásögnum að vestan. Mæðgurnar Unnur Helga Jónsdóttir og Aðalheiður Hallgrímsdóttir frá Mýrartungu II sitja í ritnefnd og til þeirra má koma efni til birtingar.

 

Barðstrendingafélagið gaf um tíma út Árbók Barðastrandarsýslu, tók við því verkefni af sýslunefndunum árið 1990, en um 10 árum síðar var útgáfan færð til Sögufélags Barðastrandarsýslu og kemur nú bókin út á hverju ári.

 

Þegar skógrækt hófst í Heiðmörkinni var félagasamtökum boðið að gerast aðilar í því. Stjórn félagsins greip tækifærið og fékk útmældan reit sem nefndur var Barðalundur. Fyrsta vinnuferðin þangað var 1952 og í nokkur ár þar á eftir var lundinum vel sinnt. Einhver ládeyða kom í vinnuferðirnar, en nú hefur Heiðmerkurnefnd félagsins sinnt lundinum vel og árleg vinnuferð í júní er skemmtileg samverustund sem þó mætti vera betur mætt í. Það eru Helga Játvarðardóttir frá Miðjanesi í Reykhólahreppi og Hjörvar Garðarsson frá Patreksfirði sem nú eru í Heiðmerkurnefnd og sinna því af mikilli natni.

 

Í upphafi árs 1955 var komið á fót bridsdeild innan félagsins. Þar varð strax góð þátttaka og var deildin mjög virk lengi þó að nú séu allnokkur ár síðan hún lagðist út af. Deildin átti merk samskipti við bridsfélögin í Barðastrandarsýslu. Annað árið komu félög frá Tálknafirði, Patreksfirði og Barðaströnd suður og hitt árið fóru deildarmenn vestur. Gaf Kristinn Guðbrandsson frá Patreksfirði bikar sem keppt var um á þessum mótum.

 

Ferðalög hafa alltaf átt stóran þátt í starfsemi félagsins. Upphaflega var mikið farið vestur í Bjarkalund og var það oftast í tengslum við fjáröflunarsamkomur félagsins þar um verslunarmannahelgi. Þá var nokkrum sinnum farið í eins dags berjaferðir hér sunnanlands.

 

Nokkru fyrir 1980 var farið að efna til eins dags ferðar síðari hluta sumars og þá gjarnan eitthvað inn í óbyggðir. Þessar ferðir eru enn farnar, kallast sumarferðir, og eru yfirleitt um miðjan ágúst. Erla Gísladóttir og Auður Kristinsdóttir, báðar frá Patreksfirði, eru í ferðanefndinni.

 

Það er ekki hægt að tala um ferðalög nema að nefna líka Jónsmessuferð Kvennadeildarinnar, en þær bjóða eldri borgurum félagsins í árlega ferð.

 

Allt frá fyrstu tíð hefur félagið staðið fyrir samkomuhaldi í Reykjavík og gefið þannig félagsmönnum tækifæri til að hittast og halda við fornum kynnum og skapa ný við fólk úr öðrum byggðarlögum sýslunnar. Eins og með annað hefur mæting á þessar samkomur verið með hæðum og lægðum en tíma voru troðfull hús á hverri einustu skemmtun.

 

Félagið hafði lengi vel ekkert fast húsnæði og voru stjórnarfundir haldnir á heimilum og stjórnarfólk sá um að geyma eigur félagsins. Það var því mikil lyftistöng fyrir félagið þegar Konráð Júlíusson frá Koti arfleiddi félagið að 2,6 milljónum króna. Var þá ráðist í að kaupa húsnæði fyrir félagið að Hverfisgötu 105 og salurinn að sjálfsögðu nefndur Konnakot til heiðurs Konráði. Þetta var árið 1995. Þegar húsnæðið var keypt kom í ljós hinn góði hugur félagsmanna, því allt sem gera þurfti innanhúss var unnið í sjálfboðavinnu félagsmanna og stundum komust færri að en vildu. Öll starfsemi félagsins fer fram í Konnakoti, fyrir utan stærri samkomur.

 

Menningarsjóður var stofnaður 1990 og til hans rennur ákveðin prósenta félagsgjalda. Úr honum hafa verið veittir styrkir til minnisvarða og bókaútgáfu, svo eitthvað sé nefnt.

 

Stærstu verkefni Barðstrendingafélagins er óhætt að telja byggingu og rekstur hótelanna Bjarkalundar og Flókalundar. Strax á fyrsta hausti félagsins kom það til umræðu, en það var Gísli Jónsson, þáverandi þingmaður Barðastrandarsýslu, sem kom því á framfæri við stjórnina hvort ekki væri verðugt verkefni fyrir félagið að reisa gisti- og veitingaskála í Austur- og Vestur-Barðastrandarsýslu. Gísli lagði ekki bara hugmyndina til heldur lagði hann fram 20 þúsund krónur til byrjunarframkvæmda, tíu þúsund til skálabyggingar að Kinnarstöðum og tíu þúsund til byggingar á Brjánslæk. Þetta varð höfuðviðfangsefni félagsins í nærri 30 ár.

 

Nú 70 árum frá upphafinu er starf Barðstrendingafélagsins í góðri rútínu, en auðvitað viljum við alltaf fá fleira fólk í félagið og á þá viðburði sem við höldum. Það verður sjálfsagt endalaus barátta, en mikið er gaman að sjá ykkur hér í kvöld að fagna þessum merka áfanga með okkur. Við höldum ótrauð áfram.

 

Svona félag væri lítils virði ef ekki væri fyrir fólkið sem starfar í því. Ég ætla að fá Helga Sæmundsson varaformann til að koma hingað upp til mín og aðstoða mig við að heiðra nokkra góða félaga með merki félagsins, fyrir óeigingjörn störf í þágu félagsins í gegnum árin. Við þökkum þeim af öllu hjarta fyrir allt það góða sem þau hafa gert í starfi félagsins.

 

Ég ætla að fá þau öll hingað til okkar og kalla þau upp í stafrófsröð og nefna lítil dæmi um af hverju þau eru heiðruð hér í dag.

 • Ásta Jónsdóttir var í stjórn félagsins.
 • Erla Gísladóttir starfaði í ferðanefnd og er fyrrverandi formaður Kvennadeildar.
 • Guðrún Hafliðadóttir var umsjónarmaður Konnakots til margra ára.
 • Gunnlaugur M. Olsen starfaði í ferðanefnd og var skoðunarmaður reikninga.
 • Helga Játvarðardóttir er enn í Heiðmerkurnefnd félagsins.
 • Snorri Jóhannesson er fyrrverandi formaður félagsins.
 • Sæmundur Guðmundsson var í stjórn félagsins.

 

Megi Barðstrendingafélagið halda áfram að dafna næstu 70 árin hið minnsta.

 

Okkar skál!

 

- Ólína Kristín Jónsdóttir.

 _____________________________________

 

Hér má skoða fjölda mynda sem Jóhann Magnús Hafliðason tók í afmælisfagnaðinum.

 

Skrifa­u athugasemd:


Atbur­adagatal

« Nˇvember 2021 »
S M Ů M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30