Tenglar

mi­vikudagur 4. oktˇberá2017 | Sveinn Ragnarsson

A­ leggja ni­ur Reykhˇlaprestakall Ý ˇ■÷kk heimamanna

Gunnar Sveinsson
Gunnar Sveinsson

Eftir Gunnar Sveinsson: "Gagnrýni á tillögu kirkjuráðs og biskupafundar að leggja niður Reykhólaprestakall og flytja prest til Patreksfjarðar og prestakallið til Hólmavíkur."

 

Ýmsar eru sendingarnar að sunnan. Sumar góðar, aðrar miður góðar en fleiri arfavondar og vitlausar. Ein slík sending kom 1. maí nú í vor til Reykhólaprestakalls og Vestfjarðaprófastsdæmis frá „sérfræðingunum fyrir sunnan“ eins og bóndinn í Flatey kallar ýmsa „fræðimenn“ í Reykjavík. Þessi sending hljóðaði upp á það að leggja niður prestakall á Vestfjörðum, nánar tiltekið Reykhólaprestakall í Austur-Barðastrandarsýslu.

Kirkjuráð – hvað er það?

Þessi ólánssending kom frá ráði sem almenningur veit trauðla hvert er eða hvað stendur fyrir. Það ráð sem gaf upp þennan ólánsbolta er kirkjuráð sem kosið var 2014 og heyrir undir kirkjuþing. Í kirkjuráði sitja tveir prestar sem fulltrúar vígðra og tveir fulltrúar leikmanna ásamt biskupi Íslands. Til vara eru tveir fulltrúar vígðra og tveir fulltrúar leikmanna. Í reynd fer þetta ráð með framkvæmdavald í málefnum þjóðkirkjunnar. Helstu viðfangsefni ráðsins eru; kirkjuþing, fjármál, nýsköpun og aflvaki, yfirumsjón staða og stofnana, þjónusta við sóknir og önnur verkefni.

Kirkjustarfið heima í héraði

Heima í héraði hefur tekist að halda uppi öflugu kirkju- og safnaðarstarfi. Okkar ágæti prestur hefur verið ötull að rækta barnastarfið og sinna öldruðum á dvalar- og hvíldarheimilinu Barmahlíð svo eftir er tekið. Messað er reglulega og yfirleitt er allt safnaðarlíf í góðum uppgangi í þessu víðfeðma prestakalli. Það sem hefur varpað skugga á þetta góða starf er ástand prestsbústaðarins. Eins og svo fjölmargar byggingar í þessu landi hefur bústaðurinn undanfarin ár verið undirlagður af myglu og rakaskemmdum svo hann hefur nú verið dæmdur óíbúðarhæfur og presturinn neyðst til að flytja með fjölskyldu sína í örlitla íbúð á dvalarheimilinu Barmahlíð. Og hvað er til ráða hjá „Sérfræðingunum fyrir sunnan“? Réttast væri að leggja þetta prestakall niður, flytja prestinn hreppaflutningum „yfir fjöllin“ til Patreksfjarðar og flytja prestakallið eins og hvern annan ómaga yfir „alla Þröskulda“ til Hólmavíkur. Í stað þess að byggja myndarlega upp prestsetrið á Reykhólum með nýju húsi sem gæti kostað um 30 milljónir og um leið selja gamla bústaðinn fyrir ca. 4-5 milljónir og koma hinu nýja húsi fyrir á hinni rúmgóðu lóð sem umlykur gamla prestsbústaðinn vill þetta kirkjunnar fólk í Reykjavík leggja niður prestkallið og um leið eyðileggja allt það góða safnaðarstarf sem búið er að byggja upp í áratugi á Reykhólum. Sér er nú hver viskan hjá þessum kirkjunnar þjónum.

Vér mótmælum öll

Um leið og sendingin að sunnan barst vestur hófust miklar umræður og skoðanaskipti í sóknum Reykhólaprestakalls og reyndar meðal sókna á Vestfjörðum og niðurstaðan var öll á einn veg. Vér mótmælum þessu öll. Prófastur Vestfjarðaprófastsdæmis tók í sama streng og skrifaði Biskupsstofu snarlega bréf þar sem þessu var mótmælt. Héraðsfundur Vestfjarðaprófastsdæmis sem haldinn var í byrjun september sendi frá sér skorinorða ályktun þar sem þessu var sterklega mótmælt og allar sóknir í prestakallinu sendu frá sér ályktanir sem allar voru á einn veg. Vér mótmælum þessum tillögum öll.

Ályktanir heimamanna

Fróðlegt er að grípa niður í þessar ályktanir. Í ályktun héraðsfundar Vestfjarðaprófastsdæmis segir m.a. „Héraðsfundur andmælir framkomnum hugmyndum biskupafundar um að leggja niður embætti sóknarprests á Reykhólum. Niðurlagning þess embættis mun rýra kirkjulega þjónustu í Reykhólaprestakalli....Héraðsfundur væntir þess að í stjórn kirkjunnar séu menn orða sinna og standi við skuldbindingar sínar.“

Í ályktun frá Flateyjarsókn segir m.a. „Hér eru á ferðinni afar róttækar tillögur sem í reynd fela í sér að leggja niður Reykhólaprestakall en um leið er ekki nefnd sérstaða Flateyjarsóknar. Tillögur þessar bera með sér að hafa ekki verið vel ígrundaðar eða hugsaðar til enda og settar fram af aðilum sem ekki þekkja nægilega til í Reykhólaprestakalli....Flateyjarsókn leggst alfarið gegn þessum tillögum biskupafundar...“

Hvað er til ráða?

Það hefur verið áhyggjuefni hjá kirkjunnar fólki hve mikil fækkun hefur orðið í þjóðkirkjunni á tiltölulega fáum árum. Þessar tillögur biskupafundar munu því miður stuðla að enn frekari fækkun í þjóðkirkjunni en um leið eyðileggja það mikla og góða kirkjustarf sem hefur verið stundað í Reykhólaprestakalli á umliðnum árum. Nú verður kirkjuráð, fasteignasvið biskupsembættisins, framkvæmdastjóri kirkjuráðs og okkar þrír biskupar á biskupafundi að bretta upp ermarnar og sýna landsbyggðarfólki samhug í verki og skilning og stuðla að endurreisn prestsbústaðarins á Reykhólum. Ég þykist vita að Reykhólahreppur muni leggja þessu lið, kirkjusóknir sem aflögu eru munu rétta fram hjálparhönd og íbúar Reykhólahrepps sem og brott fluttir Barðstrendingar muni koma til hjálpar til að halda presti sínum heima í sínu kirkjuprestakalli á Reykhólum.


Höfundur er viðskiptafræðingur er situr í kirkjustjórn Flateyjarkirkju en Flateyjarsókn er hluti Reykhólaprestakalls. gunnarsv@landspitali.is

 

 

Skrifa­u athugasemd:


Atbur­adagatal

« Desember 2021 »
S M Ů M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31