Tenglar

mi­vikudagur 11. aprÝlá2018

Fri­lřsum Teigsskˇg

Karl Kristjßnsson
Karl Kristjßnsson

Í Íslendingabók Ara fróða Þorgilssonar segir að við upphaf byggðar á Íslandi hafi landið verið „viði vaxið milli fjalls og fjöru.“ Landnámið er talið hafa gengið hratt fyrir sig og að landið hafi verið fullnumið þegar Alþingi var stofnað á Þingvöllum 930. Með komu fyrstu landnámsmanna byrjar búseta mannsins að setja mark sitt á landslag og gróður. Í fyrstu er það eldurinn og búféð sem mestum breytingum veldur á viðkvæmum gróðri og ásýnd landsins og er talið að skógurinn hafi að mestu verið horfinn 250 árum eftir landnám. Seinna, á tuttugustu öldinni, koma til sögunnar stórvirkar vinnuvélar, jarðýtur, gröfur sem og sprengiefni. Vegur er ruddur heim að hverju byggðu bóli, mýrar ræstar fram og búskapur aukinn. Þéttbýli myndast með tilheyrandi raski og ágengar plöntur breiðast út, t.d. lúpína og kerfill og einnig skógrækt með framandi tegundum.

Nú er svo komið að á láglendi landsins er búsetulandslag ríkjandi. Afmörkuð landsvæði sem kalla má „landnámsland“ og eru lítið eða óröskuð af búsetu mannsins má telja á fingrum annarrar handar. Teigsskógur í Þorskafirði er eitt þeirra svæða. Hlíðin á milli Grafar og Hallsteinsness í Þorskafirði er eitt heilstæðasta vistkerfið sem til er á landinu sem er „viði vaxið milli fjalls og fjöru.

 

Fjölskrúðugt lífríki

Prófessor Ólafur Arnalds segir í grein 12. sept. 2016: „Gönguleiðin um Teigsskóg, frá Hallsteinsnesi að Gröf í Þorskafirði, er meðal þeirra fallegustu sem finnast á landinu. Landið er ósnortið og viði vaxið, birki með stökum reynitrjám, sem mörg hver eru ansi státin. Skóglendið er illfært gangandi fólki svo nota verður leiðina neðan skógar nærri flæðarmálinu. Fjaran einkennist af gríðarlega miklum fjölbreytileika: hvers kyns flæður og leirur, ofar eru votlendi af misjöfnu seltustigi, en síðan tekur skógarþykknið við. Hér er að finna einna mestan mun flóðs og fjöru á landinu og þótt víðar væri leitað sem eykur mjög á fjölbreytni strandsvæðisins. Boðaföll og fossar á innflæðinu auka náttúrufegurðina. Lífríkið er feykilega fjölskrúðugt, hér búa margar fuglategundir: mófuglar, votlendistegundir og ýmsar tegundir sem treysta á fjöruna og sjóinn. Ernir nýta innlögnina og svífa inn með hjallanum og sækja sér æti að vild. Óðalið úti fyrir nesinu. Óvíða á landinu er að finna jafn heillandi óraskaða heild frá fjöru til fjalls en að auki hefur skógurinn mjög sérstaka stöðu sem óraskaður birkiskógur. Ljóst að þessi gönguleið er einna fallegust á öllum Vestfjörðum og ætti tvímælalaust að sinni henni betur.“

 

Áskorun um verndun

Íbúar í Reykhólahreppi eiga ekki að þurfa að fórna dýrmætum náttúruperlum fyrir umbætur í vegamálum. Teigsskóg á að friðlýsa og vernda sem óraskað land. Ég skora á sveitunga mína að standa vörð um náttúru, umhverfi og lífríki sveitarinnar, þar liggja framtíðar möguleikar og tækifæri til uppbyggingar í ferðaþjónustu, og láta ekki undan þrýstingi og hótunum um að eina færa leiðin til vegabóta í Gufudalssveit sé í gegnum Teigsskóg og um mynni Djúpafjarðar og Gufufjarðar.

Ég skora á Vegagerðina, þingmenn kjördæmisins, Fjórðungssambandið og nágrannasveitarfélög að losa málið úr því átakaferli sem það hefur verið í alltof lengi og virða niðurstöðu Hæstaréttar frá 2009, virða náttúruverndarlög og lög um vernd Breiðafjarðar, niðurstöðu umhverfismatsins frá 23. mars í fyrra og láta af fordæmalausu þráhyggjustagli við að reyna að þræla vegi í gegnum skóginn og eyðileggja með því fágæta náttúruperlu en snúa sér frekar af krafti að því að fullhanna og fjármagna nýjan veg um Gufudalssveit með jarðgöngum undir Hjallaháls.

Skammtíma fjárhagshagsmunir eiga ekki að ráða för þegar teknar eru ákvarðanir um framkvæmdir sem valda óafturkræfum umhverfisspjöllum. Það eina sem íslenskt samfélag hefur ekki efni á að gera er að eyðileggja síðustu leifarnar sem eftir eru af „landnámslandinu“.

 

 

Karl Kristjánsson, Kambi.

Sveitarstjórnarfulltrúi í Reykhólahreppi.

 


  

Kristinn H. Gunnarsson
Kristinn H. Gunnarsson

 

Sagan endalausa um vegagerð í Gufudalssveit dregst enn á langinn og hefur þó staðið nokkuð samfleytt frá 2002. Þar er Teigsskógur ásteytingarsteinninn. Tekist hefur að gera andstöðu við veg um jaðar Teigsskógs að sérstöku baráttumáli sem er til sannindamerkis um áhrif umhverfisverndarsinna. Þannig hefur málið sjálft horfið í skuggann af valdabaráttu. Stöðvun framkvæmda um Teigsskóg hefur þannig orðið mælikvarði á völd og áhrif. Samtök eins og Landvernd og ríkisstofnunin Skipulagsstofnun hafa tekið Teigsskóg í gíslingu og hafa ótæpilega misbeitt áhrifum sínum og valdi. Meira að segja hefur Skipulagsstofnun svikið nýlegt samkomulag við samgönguráðherra og torveldað vegagerðina.

Löðrungur Vinstri grænna

Skýrasta dæmið til sönnunar því að málefnið sjálft er aukaatriði eru fjölmörg dæmi um tvöfeldni í viðhorfum til umhverfisverndar. Innan áhrifasvæðis höfuðborgarinnar eru lögin túlkuð á annan hátt en utan þess og reglum beitt eða öllu heldur misbeitt í samræmi við tvöfeldnina. þetta gerir stöðu Vestfirðinga afar erfiða sem ekki batnar við sívaxandi áhrif öfgakenndra skoðana innan stjórnmálaflokkanna. Þar gengur flokkur forsætisráðherra lengst í því að samsama sig öfgunum og fórnar hiklaust hag veikra byggða til þess að afla fylgis á höfuðborgarsvæðinu þar sem stífustu jaðarskoðanir í umhverfismálum eiga hvað mestan hljómgrunn. Skipun tveggja lykilmanna úr Landvernd í æðstu pólitísku stöður í Umhverfisráðuneytinu staðfesta að flokkurinn vill fjárfesta pólitískt í ýtrustu viðhorfum í umhverfismálum. Vestfirðingar hafa ekki áður verið löðrungaðir verr á ögurstundu en einmitt nú.

Engin umhverfisrök

Staðreyndin er sú að hin efnislegu rök gegn vegagerð í jaðri Teigsskógs eru fátækleg og veikburða. Því er helst borið við að það þurfi að vernda birkilendið almennt og sérstaklega í Teigsskógi vegna umfangsmeiri og heilsteyptari gróðurþekju en annars staðar. Þetta fæst ekki staðist þegar opinber gögn eru skoðuð. Fjölmargir birkiflákar á Vestfjörðum eru til og margir þeirra eru stærri en Teigsskógur. Bara í Þorskafirðinum einum er birkilendið liðlega 2000 hektarar, þar af er Teigsskógur um 670 hektarar (ha). Á Vestfjörðum eru samtals um 30.900 ha. Teigsskógur er bara lítið brot af skóglendinu eða um 2%. Talið er að aðeins 18,9 ha spillist tímabundið vegna vegagerðarinnar. Það er svo lítill hlutis birkilendis í Þorskafirðinum að ekki tekur því að tala um það, að ekki sé minnst á Vestfirðina í heild.
Þá er birkið í mikilli sókn um allt land vegna hlýnandi veðurfars, en merkilegt nokk, hvað mest á Vestfjörðum. Á 23 ára tímabili frá 1989 til 2012 jókst birkilendi á Vestfjörðum um 4400 ha. Það er eins og gefur að skilja alls konar landssvæði sem hefur bæst við það sem fyrir var. Teigsskógur verður bara eitt af mörgum svæðum sem bæta landið og þykja sérstök. Á hverjum 3 – 4 árum bætist við birkilendi á stærð við Teigsskóg og ný svæði verða til. Þetta mun halda áfram næstu áratugina svo mikið er víst. Náttúrufræðilegu rökin eru einfaldlega ekki frambærileg.

Engin kostnaðarrök

Þá er heldur ekki að finna neitt haldreipi gegn vegagerð um Teigsskóg í kostnaðinum. Þvert á móti þá krefjast allir helstu andstæðingar Teigsskógsleiðarinnar að farin verði önnur leið sem kostar nærri tvöfalt meira. Þetta er krafa Skipulagsstofnunar og Landverndar. Þegar framkvæmdastjóri Landverndar er orðinn umhverfisráðherra fyrir flokk forsætisráðherra er það yfirlýsing þess efnis að forsætisráðherrann og flokkur hans styður kröfuna um milljarða króna óþarfa útgjöld.
Teigsskógsleiðin kostar um 7,3 milljarða króna sem er mikið fé fyrir 20 km veg. En krafa Skipulagsstofnunar og fleiri um jarðgöng í gegnum Hjallaháls þýðir að kostnaðurinn verður um 13,3 milljarðar króna. Viðbótarútgjöldin eru 6 milljarðar króna.
Þessir peningar liggja ekki á lausu hjá ríkinu. Krafa um dýrari leið þýðir að framkvæmdum verður ýtt til hliðar. Fyrir 6 milljarða króna má gera mikið í vegamálum. Sem dæmi þá kosta ný mislæg gatnamót í Hafnarfirði 1,1 milljarða króna og breikkun Vesturlandsvegar í 1+2 veg kostar 3 – 4 milljarða króna. Það væri hægt að borga báðar þessar framkvæmdir fyrir umframútgjöldin sem krafist er. Málið er enn verra þegar litið er til umferðarinnar. Umferðin í Gufudalssveit er um 170 bílar á dag að jafnaði og gæti aukist upp í 300 – 350 bíla. Til samanburðar á fara um 8.100 bílar á dag að jafnaði um Vesturlandsveg og þar er daglega kallað á úrbætur.

Ábyrgðarleysi

Það á að fara vel með opinbert fé. Það lýsir miklu ábyrgðarleysi að ætla að eyða 6 milljörðumm króna meira í eina framkvæmd en nauðsynlegt er. Sérstaklega er það alvarlegt þegar opinber stofnun eins Skipulagsstofnun ríkisins setur fram þessa kröfu. Það er slíkt ábyrgðarleysi af forstöðumanni stofnunarinnar að við það verður ekki unað. Slíkt verður að hafa afleiðingar. Nú líður að því að 5 ára ráðningartími fostöðumanns rennur út. Það á að auglýsa starfið og ráða annan og ábyrgari í það.


Kristinn H. Gunnarsson
 

  

f÷studagur 29. desemberá2017

Ífgar leiddar til ÷ndvegis

Kristinn H. Gunnarsson
Kristinn H. Gunnarsson

 

Á síðustu árum hefur málflutningur í umhverfismálum orðið hvassari og öfgakenndri en áður hefur þekkst. Áherslurnar hafa færst frá því að lágmarka áhrif einstakra framkvæmda eða annarra mannlegra athafna á umhverfið yfir í að koma í veg fyrir framkvæmdir og banna nýtingu og umferð. Sérstaklega hefur þetta ágerst eftir hrun viðskiptabankanna. Þá virðast hafa orðið vatnaskil að þessu leyti. Það kemur einna skýrast fram í því að þarfir fólks eru orðnar víkjandi fyrir náttúrunni, rétt eins og náttúran sé orðið sjálfstæð persóna í lífríkinu sem er öllu öðru æðri. Hún er orðin hinn nýi guð sem fallið er frammi fyrir í tilbeiðslu.

Tveir heimar – tvær þjóðir

Að vísu á þetta bara við um náttúruna utan höfuðborgarsvæðisins. Einhvers staðar utan við það svæði er dregin lína. Innan hennar eru það framfarirnar sem eru hinn mikli guð en þar fyrir utan er það náttúran. Afleiðingin verður að tvær ólíkar umhverfisstefnur eru reknar í landinu. Innan höfuðborgarsvæðisins má leggja vegi um viðkvæm hraun, jafnvel á Þingvöllum, en utan þess má ekki hrófla við kjarrgróðri. Innan þess má byggja hótel hvarvetna, meðal annars á elsta kirkjugarði landsins. Utan þess má ekki reisa hótel við Mývatn eða í Kerlingarfjöllum. Innan höfuðborgarsvæðisins má þvera firði og voga og reisa hábrýr en utan þess má ekki sneiða hjá mestu snjóalögunum í fjörðunum við Breiðafjörð.

Með markvissum áróðri og með skírskotun til verndar náttúru lands og sjávar hefur orðið til þessu tvöfalda umhverfisstefna sem nýtur umtalsverðrar hylli meðal landsmanna, sérstaklega á höfuðborgarsvæðinu þar sem kjósendur eru flestir. Nú á tímum er fólk meðvitað um ótrúlegan eyðingarmátt hins tæknivædda iðnaðarþjóðfélags og við blasir sá möguleiki að jörðin geti orðið óbyggileg. Óttinn er tilfinning sem óprúttnir geta auðveldlega spilar á. Með vísan til tortímingar eða heimsendis er auðvelt að afla stuðnings við annars mjög umdeilanleg markmið.

Við þessar aðstæður verða ávallt öfgarnar árangursríkar. Það hefur gerst hér á landi eins og annars staðar. En hin íslenska útgáfa er þó sérstök að því leyti að þeir sem lengst ganga vilja ekki búa við afleiðingar eigin málflutnings. Þess vegna byrjar umhverfisstefnan ekki fyrr en komið er út fyrir hina eiginlegu og óeiginlegu borgarmúra. Innan þess er framfarasvæðið og ekkert skal til sparað til þess að bæta efnahaginn, atvinnumöguleikana og lífskjörin. Verndunarstefna verður því öfgakenndari og ósveigjanlegri eftir því sem framfarasvæðið fjarlægist meir. Það er búið að skipta landi og þjóð í tvo aðskilda heima með ólíku gildismati á náttúrunni og stöðu hennar.

Hinn sanni tónn

Því meir sem fólk óttast um framtíðina verður það móttækilegra fyrir öfgakenndum málflutningi. Stjórnmálaflokkar hafa áttað sig á því að það borgar sig að vera vinur náttúrunnar. Það gefur aukið fylgi í kosningum. Í vaxandi mæli hefur verið teflt fram umhverfismálum sem stefnumáli flokkanna. Það er til þess fallið að setja flokkinn í jákvætt ljós. Það er hins vegar ekki vinsælt að boða lífskjaraskerðingu, samdrátt í atvinnu eða annað af því taginu. Svo þannig varð til sú „snjalla“ lausn að færa umhverfismálin bara út fyrir efnahagsumhverfi fjöldans. Þá er hægt að vera sannur umhverfisflokkur sem sýnir aðdáunarverða fórnfýsi og er reiðubúinn að tala fyrir erfiðum ákvörðunum - utan þjónustusvæðis vaxtarsvæðisins.

Landvernd Vinstri grænna

Á stuttum tíma hefur orðið eðlisbreyting á markmiðum og starfsemi Landverndar. Fylgt hefur verið harðari og öfgakenndri stefnu en áður. Í stað þess að leggja áherslu á bæta áform er nú lagst af hörku gegn framkvæmdum. Rekin er sú stefna að kæra mál á öllum stigum , tefja og þæfa þau með lagakrókum. Nú er áherslan á að stöðva mál en ekki lagfæra. Á síðasta starfsári Landverndar var lögð fram 21 kæra, auk þess sem rekin voru dómsmál. En það er einkennandi að allir krafturinn beinist gegn framkvæmdum á landsbyggðinni. Sjö kærur voru gegn raflínulögn frá Þeistarreykjum til Húsavíkur og aðrar kærur voru til höfuðs hótelbyggingum í Mývatnssveit og í Kerlingarfjöllum. Ekkert mál var rekið fyrir náttúruna á höfuðborgarsvæðinu.

Það er til marks um uppgang öfganna í þessum efnum að höfuðarkitektar svartstakkastefnu Landverndar eru nú í boði Vinstri grænna orðnir hæstráðendur í Umhverfisráðuneytinu, annar sem ráðherra og hinn sem aðstoðarmaður ráðherrans. Það er meðvituð ákvörðun um að fórna minni hagsmunum fyrir meiri, að þeirra mati. Vestfirðingar falla undir minni hagsmunina.

Kristinn H. Gunnarsson
 

 

mßnudagur 11. desemberá2017

Vestfir­ingar utan ■jˇnustusvŠ­is

Kristinn H. Gunnarsson
Kristinn H. Gunnarsson

Það er ekki ofmælt að Vestfirðingum hafi verið illilega brugðið þegar í ljós kom að innsta forysta Vinstri grænna valdi framkvæmdastjóra Landverndar í embætti umhverfisráðherra. Hinn nýi ráðherra hefur verið allt frá 2011 aðaltalsmaður Landverndar og hefur beitt sér af fullum þunga gegn flestum framfaramálum á landsbyggðinni. Landvernd hefur árum saman beitt sér af alefli gegn atvinnuuppbyggingu á Húsavík og staðið að kærum á öllum þáttum málsins hvort sem það lýtur að virkjun Þeistareykja, lagningu raforkulínu þaðan til Húsavíkur eða kísilmálverksmiðjunni sjálfri. Við lá um tíma að samtökunum tækist með lagakrókum og kæruflóði að koma í veg fyrir að verksmiðjan fengi rafmagn. Allt í nafni náttúrunnar.

 

Umhverfisofstæki

 

Það hefur ekki áður sést viðlíka ofstæki í andstöðu við almenn framfaramál og birst hefur undanfarin ár í framgöngu Landverndar. Samtökin hafa beint spjótum sínum gegn uppbyggingu og framförum á Vestfjörðum. Gildir einu hvort um er að ræða vegagerð ,atvinnuppbyggingu eða öruggt aðgengi að raforku. Lagst er gegn öllum tilraunum á Vestfjörðum til þess að gera lífskjör í fjórðungnum sambærileg við það sem er annars staðar á landinu. 

 

Það má ekki leggja veg um Teigsskóg af umhyggju fyrir umhverfinu. Engu máli skiptir þótt íbúar fjórðungsins líði dag hvern fyrir frumstæða vegaslóða. Engu máli skiptir þótt framgangur birkis sé sá mesti á landinu og þúsundir hektara af birkigróðri hafi bæst við á Vestfjörðum á undanförnum árum og engu máli skiptir þótt fyrirsjáanlegt sé að þúsundir hektara af nýjum birkigróðri muni bætast við á næstu árum. Engu máli skiptir þótt skaðinn af vegagerð um Teigsskóg sé lítið brotabrot af nýliðun birkis á Vestfjörðum. Mannfólkið á Vestfjörðum og velferð þess skal víkja fyrir brenglaðri mynd og veruleikafirringu svokallaðra umhverfissinna.

 

Því miður er veruleikafirringin að verða útbreidd eins og Vestfirðingar urðu varir við í sumar í umræðu um Hvalárvirkjun. Það er ótrúlega virkur og áhrifamikill hópur fólks sem vinnur á þessum hugmyndafræðilega öfugsnúna grundvelli. Þar má nefna stofnanir eins og Skipulagsstofnun og Náttúrufræðistofnun Íslands. Ríkisstjórnin, sem sat frá 2009 til 2013, mátti ekki heyra á það minnst að leggja veg um Teigsskóg og umhverfisráðherra þeirrar ríkisstjórnar lagði sig fram um að girða fyrir alla möguleika til þess að fá vegagerðina samþykkta. Þau ummæli heyrðust á þeim tíma að fyrr myndi frjósa í helvíti en að vegur yrði lagður um Teigsskóg.

 

Hinn nýi umhverfisráðherra er handvalinn af þeim sem mestu réðu um stefnuna þá og hann mun ekki hvika um tommu. Það vekur athygli að umhverfisráðherrann fær þau ummæli frá félögum sínum í Vinstri grænum, sem rætt hefur verið við, að vera svartstakkur í umhverfismálum, ósveigjanlegur í skoðunum og frekjuhundur sem skammi fólk ótæpilega ef það er ekki nógi fljótt til að beygja sig undir hans vilja. 

 

Hvað varðar laxeldið í sjó á Vestfjörðum og sérstaklega í Ísafjarðardjúpi þá gildir það sama og um Teigsskóginn, að hinn nýi umhverfisráðherra hefur verið hatrammur á móti því í fyrra starfi sínu og sama á við um fyrirhugaða virkjun Hvalár.Frammistaða hans í þessum þremur málum hefur verið pólitískri ráðningarskrifstofu hans, Vinstri grænum, vel að skapi. 

 

Vestfirðingum ofaukið

 

Rauði þráðurinn í þessari stökkbreyttu umhverfisstefnu, sem hefur breytt henni í illvígt krabbamein, er sá að framtíðarhlutverk Vestfjarða er að vera þjóðgarður þar sem náttúran er varðveitt í sem upprunalegastri mynd fyrir komandi kynslóðir. Þörfin fyrir þjóðgarðinn kemur til af því að óhjákvæmilegt er talið að ganga á náttúruna og auðlindir hennar á höfuðborgarsvæðinu og nálægum uppbyggingarsvæðum. Framfarirnar eru nauðsynlegar til þess að bæta lífskjörin og náttúrunni syðra verður að fórna til þess. Þar má því leggja vegi hvar sem er, þar má alls staðar virkja, þar má byggja hótel hvar sem, jafnvel ofan á elsta kirkjugarði Reykvíkinga, þar má í stuttu máli gera allt sem skapar peninga. Þessa miklu fórn er svo ætlað að bæta upp með því að friða Vestfirði og gera fólkið þar að útlögum í eigin heimabyggð. Vestfirðingum er eiginlega ofaukið á Vestfjörðum. Það má segja þeir séu utan þjónustusvæðis hins íslenska ríkis.

 

Við er tekin ríkisstjórn hagsmunaöfganna. Vinstri grænir tefla fram framkvæmdastjóra öfgasamtaka og Sjálfstæðisflokkurinn þjónar öðrum öfgasamtökum og setur handlangara helsta útgerðarauðvaldsins í sjávarútvegsráðuneytið. Hvorugt verður Vestfirðingum eða landsmönnum til neinnar gæfu.

 

Kristinn H. Gunnarsson

 

f÷studagur 8. desemberá2017

Herna­urinn gegn mannlÝfi ß Vestfj÷r­um

Jˇna Valger­ur Kristjßnsdˇttir
Jˇna Valger­ur Kristjßnsdˇttir

Gilsfjarðarbrúin.

Í Morgunblaðinu 30 nóvember s.l  er grein sem ber yfirskriftina  Hernaðurinn gegn fjörðunum við norðanverðan Breiðafjörð.  Þar skrifa menn sem vilja hafa firðina  fyrir sig óbreytta um ókomna framtíð.  Þeir segja að það hafi verið  „umhverfisskemmdarverk“ að brúa Gilsfjörð, en sú framkvæmd komst í gagnið 1998.  Veturinn 1996-1997 þurfti ég að keyra  gamla veginn um Gilsfjörðinn 2svar í mánuði til að sækja fundi í Reykjavík.  Oft var  blindbylur, lítið skyggni og hálka á vegi.  Með hugann við það hve mörg  mannskæð slys höfðu orðið þar á liðnum árum vegna skriðufalla og snjóflóða hlakkaði ég  mikið til þess  að vera laus við þennan veg ,  þegar brúin kæmi yfir fjörðinn.  Gilsfjarðarbrúnni var mótmælt á sínum tíma  en aðallega vegna þess að Rauðbrystingurinn þyrfti að hafa þar viðdvöl á leirunum til fæðuöflunar, á ferðum sínum vor og haust. Helst var að heyra á þeim sem þannig töluðu að fuglategundin myndi deyja út eftir  þessa brúargerð.  En hvað skeði? Jú, fuglinn leitaði sér fæðu í öðrum fjörðum í kring og reyndar mynduðust smám saman  nýjar leirur fyrir neðan brúna. þar sem sjá má mikið fuglalíf.  Náttúran er nefnilega síbreytileg og lagar sig að aðstæðum.  Gamli vegurinn um  Gilsfjörðinn er eftir sem áður keyrður að sumarlagi og hægt að njóta þar náttúrunnar  þegar vel viðrar.  

Nú  vilja þeir menn sem skrifuðu greinina um Hernaðinn gegn fjörðunum við norðanverðan Breiðafjörð  koma í veg fyrir að fleiri firðir séu brúaðir  á þeirri leið.  Rökin eru m.a. að það sé sjónmengun  að horfa út firðina  og sjá  mannvirkin  þar sem vegurinn muni liggja yfir fjörðinn. Nú eru brýrnar lengri og betri vatnaskipti.  En   geta  ferðamenn  ekki notið náttúrunnar þó að einhver merki séu um mannlíf og atvinnulíf?   Nú fær botn fjarðanna að vera í friði og þar  þrífst bæði gróður og fuglalíf.  En það er gott að vera laus við að aka undir bröttum hlíðum þar sem hætta er á snjóflóði eða skriðuföllum.  Að tala um eyðileggingu fjarðanna við þverun  finnst mér alveg fráleitt.  Gilsfjörður var brúaður fyrir 20 árum.   En þó Gilsfjörðurinn líti í dag  út eins og  fallegt stöðuvatn  þá sé ég ekkert  athugavert við það. Mikið er rætt um virkjun sjávarfalla.  Í framtíðinni mætti nota straumröstina undir brúnni til að framleiða rafmagn.   Það er nóg til af fjörðum  við Ísland  sem  aldrei verða brúaðir.  

Teigskógur:

Allir Íslendingar þekkja umræðuna um Teigskóg og vegalagningu þar.   Fyrir um 20 árum var auglýst skipulag í Reykhólahreppi með vegalagningu um Teigsskóg og fyrir Hallsteinsnes sem kæmi í stað hins stórhættulega vegar yfir Hjallaháls.  Það lenti í mótmælum og málaferlum sem stóðu í mörg ár og var  lokið með dómi Hæstaréttar sem hafnaði vegalagningunni. En ekki vegna skógarins heldur vegna þess að ekki væru nægar rannsóknir til  á botnlífi fjarðanna sem átti að brúa um leið.   Á þeim tíma  sögðu mótmælendur að gera ætti jarðgöng í gegnum Hjallaháls í staðinn.  Ekkert bólar á slíkri tillögu af neinu viti og engar rannsóknir hafa farið fram .  Nú er búið að rannsaka botn fjarðanna og þar er heldur dauft botndýralíf, enda tæmast firðirnir af sjó tvisvar á sólarhring.  Teigskógur er gamall beitarskógur, birkihríslur eins og  sjá má í öllum dölum  á sunnanverðum Vestfjörðum.  Eftir að hafa fylgst með vegarlagningu um  Barmahlíð fyrir 20 árum, en þar er einnig  birkiskógur treysti ég Vegagerðinni fullkomlega til að fara með gætni í gegnum Teigsskóg  þó þar verði lagður  vegur.  Við bíðum ekki í önnur 20 ár til þess að komast á jarðgangalistann.  Til gamans má geta þess að s.l. 15 ár hef ég ræktað skóg á mínu landi  í Reykhólahreppi og þar af  gróðursett  u.þ.b. 45.000 birkiplöntur, og fræið er tínt á þessum slóðum.  

Lokaorð. 

Við Vestfirðingar erum búin að fá meira en nóg af því  fólki sem býr við bestu aðstæður allt árið hvað varðar samgöngur og þjónustu, en  vill fá að ráða því   að Vestfirðir verði aðeins  sumarparadís fyrir  ferðamenn og þar megi helst  ekkert gera til að bæta mannlíf og atvinnulíf.    Er það aðeins náttúran sem á að njóta vafans en aldrei mannfólkið sem vill búa með náttúrunni?  Vilja menn  að allir Vestfirðir verði eyðibyggðir?  Hver á  þá að þjóna ferðamönnunum sem leggja þangað leið sína?   Samfélög verða að fá að þróast og taka þátt í þeirri uppbyggingu sem á sér stað í landinu. Nátturan er lifandi og síbreytileg.   Vestfirðir geta áfram verið náttúruparadís þó  lagðir verði öruggir vegir til að ferðast um.   


Jóna Valgerður Kristjánsdóttir


laugardagur 21. oktˇberá2017

A­skilna­ur stjˇrnmßla og vi­skipta

Kristinn H. Gunnarsson
Kristinn H. Gunnarsson

Það sem helst má draga fram sem ástæðu stjórnarslitanna og snemmbúinna Alþingiskosninga er gífurlega uppsöfnuð gremja almennings út í klíkuskap og sérmeðferð útvalinna í þjóðfélaginu. Skemmst er að minnast þingkosninganna í fyrra sem urðu af sömu ástæðu. Panama skjölin drógu fram að hópur fólks í þjóðfélaginu geymdi fé sitt erlendis og leyndi auðævum sínum. Ekki var endilega um lögbrot að ræða heldur fremur að vel tengdir og efnaðir einstaklingar nutu innherjaupplýsinga um stöðu fjármálakerfisins og nýttu sér rúmt svigrúm laganna til þess að flytja fé sitt milli landa í tæka tíð. Minna má á skýrslu Rannsóknarnefndar Alþingis sem staðfestu að nokkrir stjórnmálamenn voru tengdir viðskiptabönkunum á ábatasaman hátt fyrir þá. 

Panama skjölin

Reiði almennings vegna uppljóstrunarinnar í Panamaskjölunum varð gífurleg og feykti tiltölulega vinsælum forsætisráðherra úr valdastólnum á augabragði og ríkisstjórnin varð að boða til kosninga. Þarna varð opinbert að til er á Íslandi þjóðfélagshópur sem deilir ekki kjörum með öðrum landsmönnum. Aðgangur að upplýsingum var lykilatriði og annað sem almenningi varð líka ljóst er að í þessum hópi auð- og valdamanna voru menn sem gátu ráðið miklu eða jafnvel öllu um löggjöf. Það er að sjálfsögðu mjög hentugt og skapar mikinn freistnivanda eins og það heitir á frekar kurteisu máli í hagfræðinni. Þegar menn svo falla í freistnina þá er það hreinræktuð spilling á öllum tungumálum, jafnvel íslensku.

Uppreistir en ærulausir

Að þessu sinni sauð upp úr þegar í ljós kom að afbrotamenn gagnvart börnum höfðu sumir hverjir fengið uppreista æru fyrr en meginregla laganna mælir fyrir um og án staðfestrar vitneskju um betrun. Fyrir almenningi birtist málið þannig að með því að þekkja réttu mennina væri hægt að fá sérmeðferð í kerfinu og því var svo reynt í lengstu lög að leyna. Annar Engeyingurinn í ríkisstjórninni var svo gersneyddur skilningi á alvarleik málsins að hann var settur af sem formaður flokksins til þess í nauðvörn að freista þess að bjarga flokknum undan reiði kjósenda. Í þessari atburðarás má segja að kristallist átakalínurnar í þjóðfélaginu. Það er uppreisn þjóðarinnar gegn sérstöðu og sérstakri aðstöðu útvalinna í þjóðfélaginu sem sigla annan sjó en almenningur.

Uppreisn gegn klíkuskap

Það er ekki aðeins klíkuskapur varðandi ærumálin heldur bætist sífellt í málafjöldann sem staðfestir að valdamiklir stjórnmálamenn hafa sérstakan aðgang að upplýsingum til þess að annað hvort að auðgast eða verjast fjárhagslegum skakkaföllum.
Engeyingarnir í ríkisstjórn eru svo umsvifamiklir í viðskiptalífinu að furðu sætir að þeir hafi nokkurn tíma til þess að sinna stjórnmálalegum skyldum sínum. Forsætisráðherrann er þó sýnu fremri að þessu leyti.
Upplýst er að hann fékk árið 2006, þegar allt var í vellukkunar standi 50 mkr kúlulán til þriggja ára til þess að kaupa ábatasöm hlutabréf. Skömmu fyrir hrun, þegar innvígðir höfðu upplýsingar sem almenningur hafði ekki um stöðu fjármálakerfisins, var skuldið færð yfir á félag og forsætisráðherrann losaður undan ábyrgð. Af því var svo afskrifað skuldbindingum upp á milljarða króna. 

Á þessum tíma var núverandi forsætisráðherra umsvifamikill á fjármálamarkaði og varði háum fjárhæðum í fjárfestingar til skamms tíma í von um ábata. Það þarf ekki að stafa ofan í fólk að fjárfestir sem jafnfram er innsti koppur í búri í stærsta stjórnmálaflokki landsins á þeim tíma er ekki líklegur til þess að skilja rétt á milli eigin hagsmuna og almannahags. 

Svo er hart barist fyrir auðmenn og spillta valdamenn að sett er lögbann á frekari upplýsingar um fjármálaumsvif Engeyinganna og sérstaklega um fráfarandi forsætisráðherra. Er nú bankaleyndin notuð sem skálkaskjól til þess að leyna sannleikanum í aðdraganda alþingiskosninga. 


Borgun

Borgunmálið er eitt málið sem þyrlar upp grunsemdum um innherjaupplýsingar fengnar í krafti ráðheraembættis hafi verið nýttar til fjárhagslegs ávinnings innan ættarinnar. Hlutur Landsbankans í Borgun var seldur á verði sem ekki tók tillit til vitneskju um að verðmæti Borgunar myndi hækka stórlega. Í Morgunblaðinu kom fram í ársbyrjun 2016 að ríkisbankinn Landsbankinn hefði tapað á annan tug milljarða króna á þessari „handvömm“. Fyrirtæki í eigu föðurbróður forsætisráðherrans, sem þá var fjármálaráðherra var aðili að kaupunum og hagnaðist vel.

Auðvitað er því haldið fram að allt séu þetta tilviljanir. Stundum má trúa því að svo hafi verið. En það þarf mikla trú til þess að afneita öllum þeim málum sem komið hafa upp og varðað hafa stjórnmálamenn og viðskiptalífið. Nóg er komið af gruggugum málum. Lögbannið tekur steininn úr ósvífninni. Heilbrigð stjórnmál verða fyrst með fullum aðskilnaði stjórnmála og viðskipta. Það er krafa almennings.

Kristinn H. Gunnarsson. 

 


■ri­judagur 10. oktˇberá2017

RÝsi­ upp Vestfir­ingar

Kristinn H. Gunnarsson
Kristinn H. Gunnarsson

Alþingiskosningar brustu á fyrirvaralaust og þær verða fyrir lok næsta mánaðar. Trúnaðarbrestur milli manna í ríkisstjórninni varð ríkisstjórninni að falli. Það er sérstaklega athyglisvert að allar þrjár síðustu ríkisstjórnir sem Sjálfstæðisflokkurinn hefur átt sæti í hafa hvellsprungið áður en kjörtímabilið var liðið. Fráfarandi ríkisstjórn er skammlífasta meirihlutastjórn sem sögur fara af. Frá hruni fjármálakerfisins 2008 hefur verið mikill óróleiki í þjóðfélaginu. 

Vantraust

Vantraust almennings í garð auðs og valds, þar með pólitískra valdhafa, er mikið og fer frekar vaxandi með árunum. Krafa kjósenda til stjórnmálamanna er um heilindi og trúnað við almenna hagsmuni. Stjórnmálaflokkarnir eiga í erfiðleikum með að laga sig að þessum kröfum almennings eftir hrun eins og sést á miklum fylgissveifum, stofnun nýrra flokka og sundrungar í eldri flokkum. Sjálfstæðisflokkurinn er fastheldnari en aðrir flokkar á fyrirhruns viðmið og það hefur orðið samstarfsflokkum hans um megn í stjórnarssamstarfi. Þeir stjórnmálaflokkar sem leita aftur fyrir hrun að pólitískum viðmiðunum og starfsháttum standa helst í vegi fyrir réttlátari leikreglum í þjóðfélaginu, en þær eru forsenda þess að gjáin milli þings og þjóðar verði brúuð.

Tækifæri Vestfirðinga

Í komandi kosningum , sem verða þær fjórðu frá hruni fjármálakerfisins, takast á þeir sem vilja að stjórnmál mótist fyrst og fremst af almennum hagsmunum þar sem jafnræði ríkir um tækifærin og gæðin í þjóðfélaginu og hinna gömlu viðhorfa um sérreglur fyrir innvígða og innmúraða. Almannahagsmunir gegn sérhagsmunum. Hagur almennings gegn gengdarlausri auðsöfnum kvótagreifa og ættstórra fjármálamanna. Sömu reglur fyrir háa sem lága. Þessar Alþingiskosningar verða tækifæri fyrir Vestfirðinga til þess að rétta sinn hlut. Gengið hefur verið á hlut þeirra í hverju málinu á fætur öðru. Nú eiga Vestfirðingar að rísa upp sem einn maður og krefjast jafnréttis á við aðra landsmenn. Þeir eiga að krefjast sömu tækifæra og öðrum standa til boða og þeir eiga að krefjast sömu lífskjara og aðrir búa við. Það er sama hvar í flokki menn standa, ranglætið brennur á þeim öllum. Það er sama að hvaða flokki kröfunni er beint, þeir eiga allir að vinna að jöfnum rétti og tækifærum Vestfirðingum til handa. 

Jaðarsettir Vestfirðingar 

Þrjú mál hafa brunnið heitast á Vestfirðingum síðustu mánuði. Áralöng árangurslaus barátta fyrir góðum vegi um Teigsskóg í Gufudalssveit, virkjun Hvalár í Ófeigsfirði og áframhaldandi uppbygging laxeldis í sjó. Ákveðin atriði koma fram í þeim öllum og eru sameiginleg. Einstaklingar, samtök og stofnanir hafa lagst gegn framgangi þeirra af mikilli hörku í nafni umhverfis- og náttúruverndar. Það má ekki spilla gróðri í Þorskafirði, vatnafari og ásýnd fossa í Ófeigsfirði og ekki heldur má ala lax í Ísafjarðardjúpi. Hvert þessara mála mun færa aðstæður á Vestfjörðum nær því sem annars staðar gerist. Vegir munu batna, raforkuöryggi mun aukast og atvinna mun verða meir og fjölbreyttari. Þetta eru eðlileg framfaraskref sem hafa verið tekin annars staðar á landinu íbúunum þar og þjóðinni allri til hagsbóta. Okkur Vestfirðingum er neitað um framfarir og of margir stjórnmálamenn verða þvöglumæltir og jafnvel óskiljanlegir þegar þeir eru krafðir um stuðning. Vestfirðingar eru jaðarsettir í eigin landi og neitað um sömu tækifæri og öðrum bjóðast. 

Tvöfeldni í náttúru- og umhverfisvernd

Langflestir andstæðingar framfaranna á Vestfjörðum búa á höfuðborgarsvæðinu við bestu aðstæður. Gildir það um landeigendur, embættismenn, lækna og stjórnmálamanna sem horfa til atkvæðastuðnings á mölinni. Svo virðist sem þessi stóri hópur hafi tekið upp tvöföld viðhorf í umhverfis- og náttúruverndarmálum. Á heimaslóðum stendur ekkert í vegi fyrir framförum og nýjum atvinnurekstri. Það má alls staðar leggja vegi, yfir holt, hraun, fjörur og annað sem fyrir verður. Gálgahraun hvað? Það má alls staðar byggja hótel, sneinsnar frá hinu stílhreina Alþingishúsi og jafnvel kirkjugarði er sópað burt án þess að nokkur Teigsskógarvinurinn depli auga. Þar eru framfarir og tekjusköpun í fyrirúmi. Þegar komið er út fyrir höfuðborgarsvæðis breytist hljóðið í þessum hópi landsmanna. Þá fer gróður og náttúra að verða mikilvægari en allt annað, þar með talið mannfólkið. Vestfirðingar hafa lent illilega í þessum tvískinnungi. Það er eins og andmælendur Vestjarða bæti sér upp virðingarleysið við náttúruna á heimaslóðum með því að hefja upp til skýjanna náttúruna á Vestfjörðum. Öfgarnar slá þá út í hina áttina.

Kannski er þetta sálfræðilegt atriði sem minnir á syndina og yfirbótina í kaþólskunni þar sem syndararnir teka yfirbótina út á Vestfirðingum. En þessi tvöfeldni getur aldrei verið ásættanleg fyrir Vestfirðinga né heldur aðra landsmenn sem verða fyrir þessari sömu ógæfu. Það verða að gilda sömu viðhorf um allt land, sömu tækifæri til þess að lifa og starfa á landinu og auðlindum þess. Vestfirðingar vilja hafa vinnu, aka vegi og framleiða orku á hagkvæman hátt rétt eins og aðrir landsmenn og vera hluti af samofnu neti samskipta og viðskipta þar sem hver landshluti er órjúfanlegur þáttur í þjóðfélaginu. Fyrir þessari kröfu eiga Vestfirðingar að rísa upp, sem einn maður. Eigi víkja! 

Kristinn H. Gunnarsson 

laugardagur 7. oktˇberá2017

Vaskur hˇpur VG

Bjarni Jˇnsson, Lilja Rafney Magn˙sdˇttir, R˙nar GÝslason og Dagr˙n Ësk Jˇnsdˇttir
Bjarni Jˇnsson, Lilja Rafney Magn˙sdˇttir, R˙nar GÝslason og Dagr˙n Ësk Jˇnsdˇttir

Kosningar til alþingis á hverju ári er ekki óskastaða en bregðast verður við þegar ríkisstjórnin ræður ekki við hlutverk sitt eins og raun ber vitni.

Nú liggur fyrir öflugur listi VG í  norðvesturkjördæmi sem ætlar að berjast fyrir hag landsbyggðarinnar og réttlátu og heiðarlegu samfélagi sem gerir ungu fólk kleift að mennta sig og stofna heimili og öldruðum og öryrkjum fært að lifa mannsæmandi lífi. Fátækt er óásættanleg í ríku samfélagi.


Við viljum færa íslenskt samfélag af braut eiginhagsmunahyggju og græðgisvæðingar og byggja á samfélagslegri ábyrgð og félagshyggju þar sem afrakstur sameiginlegra auðlinda og skattfés nýtist almenningi í landinu í alhliða innviðauppbyggingu.

Við viljum að landsbyggðin byggi á styrkleikum sínum í sátt við umhverfið og fái að njóta auðlinda sinna í sínu nærumhverfi á sjálfbæran hátt.


Við viljum styðja við nýsköpun og framþróun sem nær til landsins alls og jafna búsetuskilyrðin.

Hvert og eitt einasta samfélag á Íslandi er dýrmætt atvinnulega, menningarlega, félagslega og sögulega. Hellissandur, Hofsós, Þingeyri, Akranes eða Árneshreppur; allt eru þetta staðir sem okkur sem samfélagi ber að standa vörð um þegar erfiðleikar steðja að. Það sama á við um aðra bæi, sveitir og þorp um allt land sem geta lent í áföllum.

Því oftar en ekki eru áföllin komin til af mannanna verkum, leikreglum sem settar hafa verið af stjórnmálamönnum og leiða til afleiðinga sem bitna harkalega á fólki og fyrirtækjum.

Við verðum að taka á vitlausu kvótakerfi sem stuðlað hefur að samþjöppun í greininni og bitnað harkalega á mörgum byggðarlögum sem geta ekki rönd við reist þegar fjármagnið eitt stjórnar ferðinni og ekkert tillit er tekið til fólksins sem skapað hefur arðinn. Þessi þróun hefur leitt til auðs og valda fárra aðila sem eru ráðandi í greininni í dag og skapað óvissu og óöryggi íbúa sjávarbyggða sem vita ekki hvort eða hvenær kvótinn verður seldur úr byggðarlaginu.

Það er nauðsynlegt að byggðafesta aflaheimildir að hluta og að ríkið geti leigt og úthlutað aflaheimildum úr leigupotti og að strandveiðar verði efldar og kerfið opnað fyrir nýliðun. Þá þurfa veiðigjöldin að endurspegla hagnað í greininni eftir útgerðarflokkum.


Landbúnaðurinn er okkur mikilvægur og fólk er orðið meðvitað um hve mikilvægt er að neyta heilnæmra afurða sem framleiddar eru í nærumhverfinu. Það er umhverfisvænt að flytja ekki matvæli um hálfan hnöttinn sem við getum framleitt sjálf og tryggir okkur matvælaöryggi og grundvöll fyrir matvælaiðnaði í landinu með fjölda afleiddra starfa. Það þarf að vinna að varanlegri lausn á vanda sauðfjárbænda í samvinnu við greinina og neytendum til hagsbóta og koma í veg fyrir þá miklu kjaraskerðingu sem blasir við sauðfjárbændum og er óásættanleg.


Það þarf virkilega að spýta í lófana hvað varðar viðhald helstu innviði landsins svo sem vega, hafna, flugvalla og fasteigna ríkisins. Uppsöfnuð þörf þar er talin vera hátt í 400 milljarðar sem sýnir að það verður okkur dýrt ef við förum ekki að forgangsraða og taka til hendinni nú þegar vel árar. Það er óásættanlegt að fjöldi fólks búi enn við malarvegi og ótryggt rafmagn og hafi ekki möguleika á að tengjast þriggja fasa rafmagni eða góðum háhraðatengingum.  

Fjárlagafrumvarpið sem fráfarandi ríkisstjórn mælti fyrir sýndi að áfram ættu t.a.m heilbrigðisstofnanir, menntastofnanir, löggæslan og nátttúrustofurnar að vera fjársveltar og samgöngur vanfjármagnaðar. Það er ólíðandi þegar svokallað góðæri ríkir.

Hvenær ætlum við að endurreisa innviðina eftir hörmungar hrunsins ef ekki þegar betur árar og skilað þjóðinni til baka hagnaði af betra árferði?


Við Vinstri græn höfum haldið uppi öflugum málflutningi á Alþingi m.a. fyrir alþýðu þessa lands, fyrir nátttúruna, fyrir landsbyggðina, fyrir öflugt heilbrigðis- og menntakerfi, fyrir femínisma og réttindum minnihlutahópa og talað fyrir samfélagslegri ábyrgð.

Við getum gert svo miklu betur í okkar góða samfélagi og byggt á réttlæti og jöfnuði.

Gerum betur með Vinstri grænum.


Lilja Rafney Magnúsdóttir, alþingismaður norðvesturkjördæmis.

 

 

Gunnar Sveinsson
Gunnar Sveinsson

Eftir Gunnar Sveinsson: "Gagnrýni á tillögu kirkjuráðs og biskupafundar að leggja niður Reykhólaprestakall og flytja prest til Patreksfjarðar og prestakallið til Hólmavíkur."

 

Ýmsar eru sendingarnar að sunnan. Sumar góðar, aðrar miður góðar en fleiri arfavondar og vitlausar. Ein slík sending kom 1. maí nú í vor til Reykhólaprestakalls og Vestfjarðaprófastsdæmis frá „sérfræðingunum fyrir sunnan“ eins og bóndinn í Flatey kallar ýmsa „fræðimenn“ í Reykjavík. Þessi sending hljóðaði upp á það að leggja niður prestakall á Vestfjörðum, nánar tiltekið Reykhólaprestakall í Austur-Barðastrandarsýslu.

Kirkjuráð – hvað er það?

Þessi ólánssending kom frá ráði sem almenningur veit trauðla hvert er eða hvað stendur fyrir. Það ráð sem gaf upp þennan ólánsbolta er kirkjuráð sem kosið var 2014 og heyrir undir kirkjuþing. Í kirkjuráði sitja tveir prestar sem fulltrúar vígðra og tveir fulltrúar leikmanna ásamt biskupi Íslands. Til vara eru tveir fulltrúar vígðra og tveir fulltrúar leikmanna. Í reynd fer þetta ráð með framkvæmdavald í málefnum þjóðkirkjunnar. Helstu viðfangsefni ráðsins eru; kirkjuþing, fjármál, nýsköpun og aflvaki, yfirumsjón staða og stofnana, þjónusta við sóknir og önnur verkefni.

Kirkjustarfið heima í héraði

Heima í héraði hefur tekist að halda uppi öflugu kirkju- og safnaðarstarfi. Okkar ágæti prestur hefur verið ötull að rækta barnastarfið og sinna öldruðum á dvalar- og hvíldarheimilinu Barmahlíð svo eftir er tekið. Messað er reglulega og yfirleitt er allt safnaðarlíf í góðum uppgangi í þessu víðfeðma prestakalli. Það sem hefur varpað skugga á þetta góða starf er ástand prestsbústaðarins. Eins og svo fjölmargar byggingar í þessu landi hefur bústaðurinn undanfarin ár verið undirlagður af myglu og rakaskemmdum svo hann hefur nú verið dæmdur óíbúðarhæfur og presturinn neyðst til að flytja með fjölskyldu sína í örlitla íbúð á dvalarheimilinu Barmahlíð. Og hvað er til ráða hjá „Sérfræðingunum fyrir sunnan“? Réttast væri að leggja þetta prestakall niður, flytja prestinn hreppaflutningum „yfir fjöllin“ til Patreksfjarðar og flytja prestakallið eins og hvern annan ómaga yfir „alla Þröskulda“ til Hólmavíkur. Í stað þess að byggja myndarlega upp prestsetrið á Reykhólum með nýju húsi sem gæti kostað um 30 milljónir og um leið selja gamla bústaðinn fyrir ca. 4-5 milljónir og koma hinu nýja húsi fyrir á hinni rúmgóðu lóð sem umlykur gamla prestsbústaðinn vill þetta kirkjunnar fólk í Reykjavík leggja niður prestkallið og um leið eyðileggja allt það góða safnaðarstarf sem búið er að byggja upp í áratugi á Reykhólum. Sér er nú hver viskan hjá þessum kirkjunnar þjónum.

Vér mótmælum öll

Um leið og sendingin að sunnan barst vestur hófust miklar umræður og skoðanaskipti í sóknum Reykhólaprestakalls og reyndar meðal sókna á Vestfjörðum og niðurstaðan var öll á einn veg. Vér mótmælum þessu öll. Prófastur Vestfjarðaprófastsdæmis tók í sama streng og skrifaði Biskupsstofu snarlega bréf þar sem þessu var mótmælt. Héraðsfundur Vestfjarðaprófastsdæmis sem haldinn var í byrjun september sendi frá sér skorinorða ályktun þar sem þessu var sterklega mótmælt og allar sóknir í prestakallinu sendu frá sér ályktanir sem allar voru á einn veg. Vér mótmælum þessum tillögum öll.

Ályktanir heimamanna

Fróðlegt er að grípa niður í þessar ályktanir. Í ályktun héraðsfundar Vestfjarðaprófastsdæmis segir m.a. „Héraðsfundur andmælir framkomnum hugmyndum biskupafundar um að leggja niður embætti sóknarprests á Reykhólum. Niðurlagning þess embættis mun rýra kirkjulega þjónustu í Reykhólaprestakalli....Héraðsfundur væntir þess að í stjórn kirkjunnar séu menn orða sinna og standi við skuldbindingar sínar.“

Í ályktun frá Flateyjarsókn segir m.a. „Hér eru á ferðinni afar róttækar tillögur sem í reynd fela í sér að leggja niður Reykhólaprestakall en um leið er ekki nefnd sérstaða Flateyjarsóknar. Tillögur þessar bera með sér að hafa ekki verið vel ígrundaðar eða hugsaðar til enda og settar fram af aðilum sem ekki þekkja nægilega til í Reykhólaprestakalli....Flateyjarsókn leggst alfarið gegn þessum tillögum biskupafundar...“

Hvað er til ráða?

Það hefur verið áhyggjuefni hjá kirkjunnar fólki hve mikil fækkun hefur orðið í þjóðkirkjunni á tiltölulega fáum árum. Þessar tillögur biskupafundar munu því miður stuðla að enn frekari fækkun í þjóðkirkjunni en um leið eyðileggja það mikla og góða kirkjustarf sem hefur verið stundað í Reykhólaprestakalli á umliðnum árum. Nú verður kirkjuráð, fasteignasvið biskupsembættisins, framkvæmdastjóri kirkjuráðs og okkar þrír biskupar á biskupafundi að bretta upp ermarnar og sýna landsbyggðarfólki samhug í verki og skilning og stuðla að endurreisn prestsbústaðarins á Reykhólum. Ég þykist vita að Reykhólahreppur muni leggja þessu lið, kirkjusóknir sem aflögu eru munu rétta fram hjálparhönd og íbúar Reykhólahrepps sem og brott fluttir Barðstrendingar muni koma til hjálpar til að halda presti sínum heima í sínu kirkjuprestakalli á Reykhólum.


Höfundur er viðskiptafræðingur er situr í kirkjustjórn Flateyjarkirkju en Flateyjarsókn er hluti Reykhólaprestakalls. gunnarsv@landspitali.is

 

 

mßnudagur 10. aprÝlá2017

Me­ l÷gum skal land byggja - stundum

Kristinn H. Gunnarsson
Kristinn H. Gunnarsson

Nýkjörið Alþingi er skipað nýju fólki í meira mæli en nokkru sinni fyrr. Það er löngum haft á orði að nýir vendir sópa best og vafalaust er mörg dæmi unnt að tilfæra því til stuðnings. Nýju vendirnir á Alþingi eru teknir til við að sópa út af borðinu því sem áður hefur verið talið svo naglfast að aldrei myndi losna - að lög gildi ekki aftur í tímann. Bann við íþyngjandi afturvirkni laga hefur hingað til verið grundvallaratriði í túlkun dómstóla á ákvæðum stjórnarskrárinnar. Hæstiréttur hefur í ýmsum dómum áréttað að Alþingi geti ekki sett íþyngjandi ákvæði í lög gagnvart borgurum landsins.

 

Óumdeilt hefur verið að Alþingi geti sett lög og rýmkað afturvirkt rétt svo sem hækkað bætur almannatryggingar en öðru máli gegnir þegar skerða á réttindi. Þá stöðvar bann við afturvirkni laga slíkt áform varðandi liðinn tíma. Skerðingar geta því aðeins gilt fram í tímann.

Dæmi um þetta eru mýmörg. Nefna má t.d. réttindi í lífeyrissjóð starfsmanna ríkisins. Þau réttindi, sem starfmenn ávinna sér, hafa löngum verið meiri en iðgjöldin standa undir. Því hefur safnast upp skuld sem ríkið stendur í byrgð fyrir og verður að greiða. Breytingar sem fyrirhugað er að gera og breytingar sem hafa verið gerðar ná aðeins til framtíðarinnar. Engin löggjöf um þetta efni kveður á um að skerða réttindin afturvirkt. Jafnvel þótt það sé freistandi fyrir fjármálaráðherra á hverjum tíma að strika út mörg hundruða milljarða króna skuldbindingu ríkissjóðs með einni löggjöf þá hefur enginn lagt í það til þessa. 

 

Lögum ekki framfylgt

 

Nýju vendirnir hafa brugðið á alveg nýtt ráð. Þegar svo vill til að löggjöf er á annan veg en til stóð skal lögum ekki framfylgt. Lög sem samþykkt voru 13. október 2016 - það er fyrir Alþingiskosningarnar - og tóku gildi 1. janúar 2017 - það er eftir Alþingiskosningar - gerðu ýmsar breytingar á almannatryggingunum. Í ljós kom að samkvæmt nýju lögunum myndu greiðslur úr lífeyrissjóðum ekki skerða ellilífeyri. Upp varð bæði fótur og fit í velferðarráðuneytinu og Tryggingarstofnun ríkisins. Hefur komið fram opinberlega að ráðuneytið hafi falið Tryggingarstofnun að láta eins og lögin væri ekki eins og þau voru samþykkt á Alþingi heldur eins og þau hefðu átt að vera. Með öðrum orðum þá var lögunum sópað undir teppið - með nýju vöndunum - og látið eins og ekkert væri. Þetta er alveg ný lagaframkvæmd á Íslandi. Lög eru ekki það sem samþykkt er, heldur það sem samþykkja hefði átt. Ellilífeyrisþegar fengu því ekki ellilífeyri sinn greiddan að fullu þrátt fyrir óumdeild ákvæði laga. Með lögum skal land byggja - stundum.

 

Lögum breytt afturvirkt

 

Annar kaflinn í sögu nýju vandanna hófst svo í febrúar 2017. Þegar liðnir voru nærri tveir mánuðir síðan nýju lögin tóku gildi var flutt frumvarp til þess að „leiðrétta þessi lagatæknilegu mistök þar sem miklir hagsmunir eru í húfi“. Þar voru mættir allir borgaralegu flokkarnir Sjálfstæðisflokkur, Framsóknarflokkur, Viðreisn og Björt framtíð. Ný lög voru samþykkt þar sem „leiðréttingin“ var látin ná aftur til áramóta. Afturvirkni laganna er annað afrek nýju vandanna. Þar er lagatúlkuninni snúið við. Í stað þess að einstaklingarnir, borgararnir njóti verndar gegn ríkinu með banni við afturvirkni laga þá er látið eins og ríkið þurfi vernd gegn óhóflegum útgjöldum til gamals fólks og sú vernd er sótt með lögum eftir á.

 

Þetta er auðvitað pólitískt verkefni að koma í veg fyrir að aldraðir einstaklingar fái ellilífeyri sinn óskertan af greiðslum úr lífeyrissjóði hvers og eins. Þetta varðar fjóra tugi þúsunda einstaklinga og hver mánaðargreiðsla er 5 milljarðar króna. Þetta heitir leiðrétting á máli þessara flúnkandi nýju sópa rétt eins og það sé fullkomlega út í hött að gamalt fólk fái ellilífeyri sem það hefur með skattgreiðslum sínum á langri starfsævi unnið sér inn fyrir. 

 

Ísland verst

 

Á upplýsingavef um lífeyrismál er að finna athyglisverðar niðurstöður starfshóps sem bar saman lífeyriskerfi og samspil þess við opinbera kerfið í fimm löndum, Íslandi, Bretlandi, Danmörku, Hollandi og Svíþjóð. Sláandi eru þær upplýsingar að Íslenska kerfið sker sig úr með mikilli tekjutengingu lífeyris úr opinbera kerfinu. Ísland er jafnframt eina landið þar sem lífeyrir úr opinbera kerfinu fellur niður ef tekjur frá lífeyrissjóðum fara yfir tiltekin mörk. Það væri kannski rétt að nýju vendirnir færu í heimsókn til þessara landa og reyndu að tala um „leiðréttingu“ og sópuðu svo þessari villu sinni út af borðinu í eitt skipti fyrir öll.

 

Kristinn H. Gunnarsson.

 

Leiðari í blaðinu Vestfirðir 30. mars 2017 

Fyrri sÝ­a
1
234567272829NŠsta sÝ­a
SÝ­a 1 af 29

Atbur­adagatal

« AprÝl 2018 »
S M Ů M F F L
1 2 3 4 5 6 7
8 9 10 11 12 13 14
15 16 17 18 19 20 21
22 23 24 25 26 27 28
29 30